2102 - Eru langar fyrirsagnir það sem koma skal?

Ekki veit ég hvernig ég á að koma Ásgautsstöðum að í þetta sinn. Undanfarið hafa þetta verðið óttalegar málalengingar hjá mér. Ætli ég láti ekki nægja að segja frá því að ef fólk vill fræðast meira um þetta merkilega mál þá þurfi það annaðhvort að bíða eftir nánari greinargerð eða lesa gömul blogg frá mér. Ég byrjaði að skrifa um þetta þann 10. desember og bloggið frá þeim degi er allt um þetta mál.

Bloggið er talsverð eineltisstofnun og fésbókin mikil. Internetið er ofboðslega mikið notað til eineltis. Af hverju fólk lætur það hafa þannig áhrif á sig er engin leið að segja. Ástæðurnar eru svo mismunandi. Netið er einfaldlega orðið enn einn samskiptamátinn og fólk hagar sér þar með ákaflega mismunandi móti. Þannig upplifi ég hlutina. Það er þó ekkert víst að aðrir samþykki þetta. Sjálfur er ég fremur einrænn og ómannblendinn. Heilsa fólki sjaldan með faðmlagi. Jafnvel ekki fjölskyldumeðlimum. Er þó ekki áberandi anti-sósíalskur eða það held ég ekki.

Þegar ég var í skóla var bara einn bekkur í Miðskóla Hveragerðis í hverjum árgangi þannig að tossabekkjaskipulagi varð ekki viðkomið. Annars hefði það sjálfsagt verið viðhaft. Hefði sjálfur jafnvel sloppið við tossabekkinn. Litum samt alltaf svolítið niður á krakkana sem voru úr sveitinni og þurftu að ferðast með skólabílnum á hverjum degi. Það niðurálit var bara vegna þess að þau voru úr sveitinni og einhverra hluta vegna voru þau oftast með lakari einkunnir en við þorpararnir. Kannski litu kennararnir bara niður á þau líka. Við krakkarnir sem fengum sæmilega góðar einkunnir skiptumst dálítið í fallega og ljóta fólkið. Ég var fremur í ljótafólkshópnum og sennilega svolítið ófyrirleitinn. Samt átti ég það til að fá ágætar einkunnir og t.d. fékk ég 5,98 á landsprófi og hefði sennilega farið í Menntaskólann á Laugarvatni ef ég hefði fengið 6. Lítill akkur er í að spekúlera í hvernig lífið hefði þá orðið hjá mér, en eflaust öðruvísi.

Það er svolítið einkennilegt hvað einkunnir höfðu mikil áhrif á þessum árum. Ég fékk t.d. aldrei góðar einkunnir í neinu líkamlegu nema þá í sundi. Þar var ég ágætur. Keppti m.a. á sundmóti Skarphéðins a.m.k. einu sinni. Var allgóður í íslensku og tungumálum en kjaftafögin svonefndu áttu ekkert sérstaklega vel við mig. Man miklu betur eftir kennurunum en fögunum sjálfum. Hef sennilega lítið lært þar. Heimalærdóm forðaðist ég eins og mögulegt var. Samt var ætlast til að maður lærði heilmikið heima, sennilega vegna þess að kennararnir nenntu ekki að kenna sjálfir.

Sennilega eru þeir allir dauðir núna og þessvegna óhætt að minnast á þá. Afkomendur eiga þeir þó örugglega. Hjörtur á Núpum, séra Helgi Sveinsson og séra Gunnar Benediktsson eru mér minnisstæðastir. Veit ekki af hverju. Kannski voru þeir bara meiri sálfræðingar en hinir. Sennilega hef ég aldrei verið álitinn mikill bógur í skóla. Þótti samt fyndinn að ég held. Hafði sjaldan frumkvæði að uppátækjum. Man samt eftir að hafa einu sinni átt frumkvæði að því að fara í Þjóðleikhúsið. Það var fyrir utan hefðbundna árlega ferð sem kennararnir stóðu fyrir. Minnir að við höfum þá séð Don Camillo. Man sérstaklega eftir að hafa hrokkið býsna mikið við þegar skothvellur heyrðist skyndilega í miðju leikritinu. Minnir líka að ég hafi séð leikrit um hernað Bandaríkjamanna í Asíu.

Hershöfðingi: „Mér skjátlast mjög sjaldan, en þegar mér skjátlast...“

Aðstoðarmaður (grípur fram í): „Ja, þá munar nú um það..“

Af hverju er ég eiginlega alltaf að þessu eilífa bloggstandi? Hef ekki hugmynd um það. Kannski er það vegna þess að ég vandist snemma á að tala við sjálfan mig. Og til að gera það svolítið erfiðara ákvað ég að setja hugsanirnar oftast nær í orð. Framan af var það svolítið erfitt en svo vandist það eins og annað. Ef ég drógst það mikið aftur úr við orðasmíðina að ég var búinn að gleyma því sem ég upphaflega hafði hugsað. Ja, þá var það bara betra og meiri líkindi til að eitthvað væri að marka það sem þó íklæddist orðum. Já, ég hugsaði einhvernvegin svona.

Ég fer aldrei ótilneyddur í bílastæðahús svo þess vegna má margfalda gjaldtökuna þar. Einhver þarf að borga fyrir bygginguna. Er að mestu hættur að fara niður í bæ til að versla. Mun betra er að fara í stórverslanirnar og fá ókeypis bílastæði. (Auðvitað best á morgnana.) Bilastæðin þar þarf einhver að borga. Verslanirnar gera það og fá í staðinn marga gesti.

Kjarninn er nánast eina nýja vefritið sem einhver veigur er í. Kíki stundum á Blogg-gáttina eða Eyjuna (og jafnvel mbl.is) svona til að fylgjast með helstu fréttum. Kjarninn er það vikurit sem ég læt næstum aldrei framhjá mér fara. Það kemur alltaf nýtt blað á fimmtudögum.

IMG 5533 

Rósa amma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Sæll Sæmundur, það er eðölilegt að þú viljir tjá þig um fortíðina og veru þína í skólanum. Á þessum árum gekk ýmislegt á í grunnskólum landsins, og menntamálaráðuneytið í dag vildi örugglega ekki að neinn opnaði gömul box, sem stundum eru kölluð Pandórubox, enda fylgdi því mikill fnykur og ólykt af gömlum málum sem gamlir nemendur hafa aldrei haft kjark í að opna sig fyrir, fyrr en nú á tímim internets.

Hef því miður ekki haft tíma til að lesa eldri bloggin þín, en mun gera það við tækifæri.

Láttu okkur lesendur endilega vita eitthvað meira um hvað þú upplifðir í grunnskólanum þarna í  Hveragerði. Bloggið er einmitt góður miðill til að tjá sig og koma á framfæri reynslu og skoðunum. Og með því að skrifa um hluti, og vita að einhverjir þarna úti lesa þetta, þá er það amk einn þáttur að vinna sig út úr erfiðri reynslu. En mín reynsla er sú, að margir sem gengu í íslenska grunnskóla á sama tíma og ég, þ.e. á 7. og 8. áratugnum, hafa átt erfiða daga þarna, en á þó á ólíkan máta. Nokkrir sem ég þekki ættu í rauninni skilið sanngirnisbæbtur frá ríkinu fyrir það sem þeir urðu að þola þarna. En einn einstaklingur sem ég rætt þetta við, vill ekki að þetta verði gert opinbert, stöðu sinnar vegna og vegna hvers vegna viðkvæmt málið er.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 10.1.2014 kl. 22:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Ingibjörg.

Ég veit svosem ekki vel hvað þú átt við.

Veit heldur ekki hvað þú meinar þegar þegar þú segist ætla að lesa gömul blogg frá mér. Ég er nefnilega búinn að skrifa svo mörg.

Sæmundur Bjarnason, 11.1.2014 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband