2101 - Vorið kemur (fyrir rest)

Mér finnst ég skrifa alltof mikið um pólitík. Hvers vegna skyldi það vera? Sennilega held ég að fólk vilji helst lesa eitthvað þessháttar. Áhorfstölur benda til þess. En fær fólk aldrei leið á þessu söngli? Þetta er alltaf eins. Flokkurinn sem maður styður gerir aldrei neinar vitleysur en andstæðingarnir eru samansafn fávita. Svona er þetta og hefur lengi verið. Mér hundleiðist að skrifa um stjórnmál þó þar megi oft taka góða spretti. Aðallega þó til að stríða þeim öfgafyllstu, en þegar hver og einn skoðar vandlega sitt hugskot þá eru þeir víst ákaflega fáir.

Ásgautsstaðamálið er farið að síga neðar og neðar í bloggið hjá mér. Ég er samt ekkert hættur að skrifa um það. Það gerist bara svo fátt merkilegt þar. Þetta er langtímaprójekt og það er lítil hætta á að ég gleymi því. Árborg notar enn í dag illa fengið land. Kannski finnst bæjarstjórninni það ekki vera stolið, en það er nú samt svo. Jörðin Ásgautsstaðir er alls ekki í eigu bæjarfélagsins og það sem reynt er að kalla makaskiptasamning er byggt á skjalafalsi sem komið er frá skrifstofu sýslumannsins. Þetta vita allir sem vilja vita og búast má við að þetta mál taki að komast úr sporunum hjá dómstólum landsins í þessum mánuði eða þeim næsta. Hugsanlega verður það að einhverju leyti mér að þakka. Ég er a.m.k. að hugsa um að halda áfram að minnast á það. Ég er ekkert ósáttur við að verða kenndur við Ásgautsstaðamálið. „Æ, hann þarna bloggarinn sem var með Ásgautsstaðamálið á heilanum.“ Harpa Hreinsdóttir var nú kölluð bloggari úti í bæ af bæjarstjóranum á Akranesi af því hún vogaði sér að gagnrýna Sögu Akraness og fjárausturinn í það fáránlega verkefni.

Nú er fátt annað við tímann að gera en láta sig hlakka til vorsins. Stundum velti ég því fyrir mér, af því að daginn lengir í hænufetum eftir áramótin (segir Ómar a.m.k) hvenær dagurinn styttist í hænufetum. Samkvæmt kenningunni um, að ókeypis hádegisverður sé ekki til, hlýtur það að vera einhverntíma. Helst hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé í júní, júlí og ágúst. Haustmyrkrið skellur eiginlega á manni án þess að maður eigi á því von. Og alveg einsog það er afar lítið farið að hlýna þegar daginn fer greinilega að lengja á vorin þá er yfirleitt ekkert farið að kólna þegar ágústmyrkrið hellist yfir mann. Þessvegna er það sem ég legg þetta nokkurn vegin að jöfnu.

Einu sinni hef ég komið í aðstandendaherbergi á Borgarspítalanum (já, það var merkt þannig) og ég vona að ég eigi aldrei eftir að gera það aftur. Ég fór næstum að hlæja þegar mér var vísað þangað, því ég var alveg sannfærður um að það sem ég beið eftir, var ekki það alvarlegt að það tæki því að vísa mér á þessi herbergi. Ég reyndist hafa rétt fyrir mér, en óneitanlega varð mér hugsað til þess að kannski hefði ég það ekki.

Sagan um hundinn á Neskaupstað. Meirihluti fréttatímans í einhverjum útvarpsfréttum sem ég slysaðist til að hlusta á í dag var um einhvern hund á Neskaupstað sem búinn var að bíta fjölda fólks og var beðið eftir því að hann biti fleiri. Man ekki af hverju hann var ekki aflífaður strax, en líklega þurfa réttarhöld að fara fram í málinu og ekki er víst að lögreglan hafi fangaklefa á lausu. Kannski eru austfirðingar bara hundavinir.

Núverandi ríkisstjórn spáir miklu meira í skoðanakannanir en sú fyrri. Ekki kæmi mér neitt á óvart þó séra Sigmundur mundi beita sér fyrir því að sparkað yrði í rassgatið á þeim sem voga sér að hækka verð núna og að ríkið hætti við einhverjar gjaldskrárhækkanir. Ýmislegt má gera til að reyna að láta kjarasamningana halda. Svo er eftir að semja við kennarana, en það er verkefni morgundagsins.

IMG 5532Í skini sólar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Talandi um kjarasamninga kennara. Nokkra úr þeirra hópi hef ég hitt, sem telja að ekki verði fallist á annað en laun þeirra verði tvöfölduð á næstu þremur árum. Svo mikið telja þau sig hafa dregist aftur úr kjörum fólks með sambærilega menntun að baki, þ.e. mastersnám (10 annir hið minnsta), og hvað þá ef miðað er við almenna markaðinn.

Ellismellur 9.1.2014 kl. 22:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Er sammála þér með kennarana. Þeir hafa dregist mikið aftur úr og erfitt verður að semja við þá án þess að til verkfalla komi. Stóru verkalýðsfélögin semja alltaf strax ef það eru hægri stjórnir, einkennilegt það.

Sæmundur Bjarnason, 10.1.2014 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband