1801 - Hugsað upphátt

Maður á sínar hugsanir og ber engin skylda til að koma þeim í orð. Miðað við fjölda fólks í heiminum er sá fjöldi hugsana sem á sveimi er hverju sinni legíó. Gott ef ekki mörg legíó. Af öllum þessum fjölda kemst aðeins sáralítill hluti nokkurntíma í búning orða. Það gerir ekkert til. Nóg er nú samt.

Margir virðast álíta að þær hugsanir sem komast í orð séu eitthvað merkilegri en aðrar. Svo er ekki. Allar hugsanir eru jafnréttháar. Eignarréttur manns á þeim sem komast í orð er þó ótvíræðari og þær hugsanir hafa oft áhrif á aðra. Engu máli skiptir hvort þær eru skrifaðar niður eða ekki. Niðurskrifaðar hugsanir, hvort sem er í orðum eða á annan hátt, (t.d. í litum eða tónum) er þó auðveldara að sanna eignarrétt sinn á síðar meir og þær geta haft áhrif hvenær sem er.

Áhrifin geta verið af ýmsum toga og alls ekki er víst að upphaflega hugsunin hafi sams konar áhrif á alla. Það er helsti gallinn við niðursoðnar hugsanir að sá sem upphaflega hugsaði þær hefur enga möguleika til að stjórna áhrifum þeirra. Þær eru bara. Skáldsaga er þannig tilraun til að hafa áhrif á hugsun lesandans en ekki er hægt að stjórna því, nema að litlu leyti, hvort honum finnst sagan skemmtileg eða ekki og hve lengi hann heldur áfram að lesa ruglið.

Pólitískar hugsanir eru vafasamar og oftast rangar. Best er að vera hlutlaus í stjórnmálum og slá úr og í ef maður er spurður. Pólitísk hitamál eru varasöm. Best er að hafa enga skoðun á þeim eða a.m.k. opinbera hana ekki. Hvað maður kýs kemur engum við. Ef maður er svo óheppinn að lenda í skoðanakönnun er best að fullyrða sem minnst og frekar í öfuga átt við það sem maður ætlar sér að gera. Verst er að reiknað er með slíku.

Þó þessar pælingar séu skemmtilegar getur vel verið að öðrum finnist það ekki. Þessvegna er ágætt að hætta núna áður en maður missir lesandann og honum finnst þetta stagl hrútleiðinlegt.

Ein tegund niðursoðinna hugsana er blessað bloggið. Þar er hægt að bollaleggja um allt mögulegt og hafi maður áunnið sér fyrirfram tiltrú nægilega margra er hægt að vera nokkuð viss um að einhverjir lesi það. Internetið er einhver merkilegasta uppfinning mannsandans á síðustu öld. Enn er það í mikilli þróun og engin leið að sjá fyrir hver áhrif þess verða. Þau er þegar orðin mikil og eiga bara eftir að aukast.

IMG 1769Öldruð jarðýta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband