1802 - Prófkjör og ágreiningur um stjórnarskrá

Það gerir þig enginn að aumingja. Þú ákveður það sjálfur. Fötlun og lítið vit þarf ekki að verða að aumingjaskap. Ef þú kannt að umgangast fólk af nægilegri virðinu eru þér allir vegir færir. Pólitískir höfðuðandstæðingar eru oft í raun hjálpsöm góðmenni þó erfitt sé að viðurkenna það. En tölum ekki meir um það.

Ekki veit ég hvernig Villi gamli bjargar sér útúr Eir-málinu ógurlega. Sjálfur kemur hann eflaust standandi niður. Það hlýtur hann að vera búinn að undirbúa. Það verð ég þó að segja að fyrirlitlegra en flest annað finnst mér að stela frá fótfúnum gamalmennum og ærslafullum ungmennum.

Vel getur farið svo að mikilvægasta málið fyrir næstu kosningar verði stjórnarskrármálið. Ef alþingi kemur frá sér sæmilega góðri stjórnarskrá fyrir kosningar verður að samþykkja hana óbreytta á næsta þingi til að hún öðlist gildi. Hugsanlegt er að hún verði jafnframt þingkosningunum borin undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Ef þjóðin samþykkir hana þá verður nýkjörnu alþingi varla stætt á öðru en gera það sama. Þar með yrði Ísland komið með nýja stjórnarskrá og valdið til að breyta henni farið frá alþingi.

Fræðimenn gagnrýna mjög nýju stjórnarskrárdrögin. Því miður er það af litlu viti gert og snýr einkum að aukaatriðum varðandi sjálft ferlið en ekki efnislega um stjórnarskrána sjálfa. Kannski er það einkum af öfund yfir að hafa ekki fengið að semja hana í friði fyrir almúganum. Tala mikið um að fram þurfi að fara vönduð umræða um allar greinar stjórnarskrárinnar en eru samt ekki tilbúnir til að hefja hana. Stjórnarandstæðingar gagnrýna einkum ágreining varðandi sum atriði stjórnarskárinnar og staglast á því að ekki megi afgreiða svo mikilvægt mál í ágreiningi. Ágætt samkomulag hefur verið á alþingi hingað til varðandi breytingar á stjórnarskránni enda hafa þær flestar stefnt að því að auka vald alþingis og framkvæmdavaldsins en útiloka almenning sem mest og gera að vinnudýrum.

Ágreiningur er hollur og nauðsynlegur. Ef ágreingur er á alþingi um stjórnarskrárfrumvarpið ber það merki um að eitthvað sé í það varið. Stjórnlagaráð var þó sammála um þau drög sem kosið var um 20. október s.l. Þar voru samt fulltrúar allra flokka og bæði þéttbýlis og dreifbýlis. Kynjaskipting góð og flest önnur skipting í lagi. Helst að þeir menntunarsnauðu og allra yngstu væru fáliðaðir þar.

Segja má að prófkjörin um þessa helgi hafi ekki valdið neinum straumhvörfum. Búast mátti við því að Sigmundur Ernir ætti í erfiðleikum í norðausturkjördæminu. Kjör Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins er fremur lélegt. Afar lélegt munu andstæðingar hans segja. Eins og mál skipuðust hjá Samfylkingunni mátti auðvitað búast við því að annaðhvort Árni Páll eða Katrín sigruðu. Árni Páll eykur líklega lítilsháttar sigurlíkur sínar í formannskjörinu sem væntanlegt er hjá Samfylkingunni með þessum sigri sínum.

IMG 1775Víkingasveppur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband