1613 - Fíflið í stofunni (eða var það fíllinn)

Untitled Scanned 72Gamla myndin.
Veit að þetta eru Hvergerðingar en ekki hverjir. Sennilega eru þetta verðlaunaskjöl sem þau eru með í höndunum. Dálítið kuldalega klædd. Veit ekki hvar myndin er tekin.

Svo er sagt að veturinn sé ekki einu sinni kominn. Hryllilegt. Svartsýni sem jafnvel veðurglöggur maður eins og Sigurður Þór gæti vel sætt sig við. Ég vil aftur á móti trúa því að vorið sé á næsta leyti. Klukkan níu er farið birta talsvert jafnvel þó þungbúið sé og rigningarlegt. Auðvitað eiga eftir að koma hret, en ég vona að þau verði ekki neitt óskapleg. Sá snjór sem kann að eiga eftir að falla (og á örugglega eftir að falla) staldri ekki lengi við o.s.frv.

Hefur lengi langað til að skrifa smávegis um Voynich handritið. (Best af öllu fyrir þá sem vilja fræðast um þetta sérkennilega mál er að gúgla „Voynich manuscript“ og stilla gúglið t.d. á myndir. Þannig)  http://www.google.is/search?hl=is&q=voynich+manuscript&gs_upl=&bav=on.2,or.r_gc.r_pw.,cf.osb&biw=1280&bih=855&pdl=500&wrapid=tljp1329300261770010&um=1&ie=UTF-8&tbm=isch&source=og&sa=N&tab=wi&ei=V4Y7T5P8Noqi0QWs-f1s eða stilla ekki á myndir og kynna sér þá t.d. hvað Wikipedia segir um málið.

Á þessu ári eru 100 ár liðin síðan handritið kom fyrst fram og enn eru menn ekki búnir að ráða mikið í það sem þar stendur. Svo geta menn setið við (Seti@home) og látið eins og þeir séu að leita að útvarpsmerkjum frá fjarlægum menningarsamfélögum. Segjum að torkennileg útvarpsmerki fyndust; er öruggt að vel gengi að ráða framúr þeim?

Eiríkur Örn Norðdahl er einn ágætur rithöfundur nefndur. Mér finnst hann vera einn af fáum rithöfundum íslenskum sem hefur svipaðar skoðanir og ég á höfundarréttarmálum. Fyrir skömmu lýsti hann því t.d. í smáatriðum hvernig hann fór að því að nálgast ólöglega á netinu bók Hallgríms Helgasonar um konuna við þúsund gráður. Sumir eru þeirrar gerðar að þeim finnst þjófnaður ekki vera þjófnaður nema um sé að ræða íslenskt efni. Eiríkur Örn sýndi fram á að auðvelt er að komast framhjá læsingum þeim sem settar hafa verið á bókina. Um þetta má margt segja en ég ætla að sleppa því núna og vísa bara á Eirík Örn. Hann bloggar oft og þar má lesa um skoðanir hans: http://blogg.smugan.is/kolbrunarskald/ .

Ástæðan fyrir því að ég minntist á Eirík er líka sú að mig langaði að koma að Nordals-brandaranum fræga. Kannski hefur Eiríkur Örn minnst á hann á blogginu sínu en ég minnist þess ekki að hafa séð hann þar.

Þegar Sigurður Nordal var í skóla á sínum tíma fannst honum ómögulegt að geta ekki stytt nafnið sitt svolítið. Hann fór því að nota undirskrift sem var einhvern vegin svona: Sig. Nordal. Þá brá svo við að allir fóru að kalla hann Signor Dal. Það þótti honum ekki gott svo hann breytti undirskriftinni og fór að skrifa bara S. Nordal. Þá fóru menn að kalla hann Snordal.

Til að fylgjast almennilega með hef ég nú neyðst til að setja bloggið hans Snorra í Betel í blogg favorítin hjá mér; það hef ég ekki gert áður og man varla eftir að hafa litið á það blogg. Mér finnst samt að hann eigi að hafa málfrelsi meðan hann skaðar engan. Eru annars einhverjir neyddir til að lesa bloggið hans?

„Gemsa? Já, bóndinn hélt nú það, hvort hann ætti! Hann sagðist eiga bæði gemlingsgimbur og gemlingshrúta, vanka-gemlinga, þrifnaðargemlinga og hálfgerða horgemlinga, veturgamla og yngri. Stelpan að sunnan virtist ekki hafa hugmynd um hvað hann var að fara.“

Þetta er textinn sem ég hafði fyrir framan mig áðan meðan ég hámaði í mig hafragrautinn og sjálfsagt er þetta vandaður texti; greinarmerkjafræðin í góðu lagi líka. Gat samt ekki annað en furðað mig á því hvers vegna bóndinn ætti bara eina gimbur á þessum aldri en marga hrúta. Kannski er þetta misskilningur hjá mér með fleirtölumyndina eða getur verið að aðili af þessu tagi hafi rangt fyrir sér?

IMG 7894Já, svona voru gangastéttarnar í Kópavogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Smá athugasemd varðandi meintan stuld Eiríks á bókinni hans Hallgríms þá er hið rétta að hann keypti bókina löglega en krakkaði afritunarvörnina.  Á þessu er gríðarlegur munur.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.2.2012 kl. 11:48

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kannski er þetta rétt hjá þér. En hann lýsti því samt nákvæmlega hvernig hann fór að því að krakka afritunarvörnina og hjálpaði hugsanlega þar með þeim sem vilja fá bókina fyrir ekki neitt. Einnig þýddi það að hann krakkaði afritunarvörnina að hann gat notað skrána öðruvísi en ætlast var til.

Sæmundur Bjarnason, 17.2.2012 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband