1611 - Eiturlyfið fésbók

Untitled Scanned 64Gamla myndin.
Hveragerði og gamli vegurinn í Kömbum. Þó ekki gamli gamli vegurinn. Mig minnir að sjá megi ummerki um fjóra vegi þarna. 1. Núverandi vegur. 2. Gamli vegurinn. 3. Gamli gamli vegurinn. 4. Elsti vegurinn.

Sennilega er öruggast fyrir íhaldsandstæðinga að sameinast undir merki Breiðfylkingarinnar til að hafa raunhæfa möguleika á að koma í veg fyrir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknar. Ekki er líklegt að Samfylkingin eða VG geri það. Af ríkisstjórnarflokkunum stendur VG sennilega jafnvel verr að vígi en Samfylkingin í þeim kosningum sem líklega verða næsta haust. Staða Samfylkingarinnar er alls ekki góð og eina haldreipið er ESB.

Líklega verða næstu kosningar dálítið ruglingslegar. Margir munu leggja áherslu á ESB-málin eða kvótamálin og sumir verða líklega uppteknir af skuldastöðu heimilanna. Kannski Sjálfstæðisflokknum gangi öðrum betur að fiska í því gugguga vatni sem búast má við. Hrunið er nefnilega við það að gleymast. Svo kann allt í einu að færst líf í Sérstakan þegar dregur að hausti og það gæti haft áhrif.

Fésbókin er eins og hvert annað eiturlyf. Ég reyni að nota það lyf sem allra minnst. Aðallega til að skoða. Pósta, læka og séra eins lítið og ég get komist af með. Vona að með því móti verði ég minna háður henni en ella. Fésbókarvinir mínir eru 441. Já, ég veit að það er alltof mikið. Innleggin skruna svo hratt framhjá að ég sé fæst þeirra. Svo er ég með einhverja 10 eða 20 nána vini og fæ tilkynningar strax ef þeir gera eitthvað. Verst að þeir gera alltof mikið. Ef maður notar Facebook aðallega og helst eingöngu til þess að halda sambandi við sína nánustu og lætur alla forvitni um aðra lönd og leið þá getur vel verið að hún verði minni tímaþjófur en oftast er. Nú virðast gamlar myndir og allskyns myndbönd vera mesta tískan á fésbók. Hún er líka farin að hægja svo mikið á sér að til vandræða horfir.

Söngvakeppnin í sjónvarpinu var hundleiðinleg og ég held að íslenska lagið nái ekki langt í Eurovision. Einfaldlega vegna þess að Austantjaldsþjóðirnar eiga þá keppni og virðast halda að hún skipti einhverju máli. Kannski kemst íslenska lagið samt uppúr undankeppninni.

Lesendum mínum er að stórfækka. Það er eðlilegt. Fésbókin virkar æ betur og þar vill fólk eyða tölvutímanum sínum. Alltaf eru samt einhverjir sem glepjast hingað inn. Meðan svo er held ég áfram að skrifa. Engin hætta á öðru. Er kominn með dellu fyrir að lesa vísindaskáldsögur eftir Isaac Asimov. Held að hann hafi skrifað þær ansi margar svo ég þarf ekki að kvíða lesefnisleysi. Svo má alltaf stytta sér stundir við að kíkja á fésbókina.

Mín tilfinning er sú að Vaðlaheiðarmálinu og máli Kínverjans Nubo verði slegið saman þó engin ástæða sé til þess. Þannig verði Vaðlaheiðargöngin samþykkt en Nubo sagt að hætta þessu þvargi. Um þetta verði kannski ekki beinlínis samið en afgreiðsla mála verði með þessum hætti. En þetta er bara tilfinning. Held nefnilega að stjórnvöld ætli sér að gera göngin hvað sem hver segir.

Staða Vafninga-Bjarna versnar stöðugt. Nú neyðist hann til að viðurkenna að DV hafi haft rétt fyrir sér allan tímann. Slíkt eru harðir kostir. Stjórn hans á Sjálfstæðisflokknum er fyrir bí. Held að flokkurinn skipti um formann sem allra fyrst og reyni síðan að gera enn eina atlögu að Jóhönnu. Á endanum tekst það, því hún er farin að mæðast mikið. Ólafur forseti fer þó að verða ansi fyrirferðarmikill í fréttum á næstunni. Það er ekki eðlilegt hvernig hann lætur.

IMG 7885Snjór.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú notar ekki Facebook, Facebook notar þig..

DoctorE 14.2.2012 kl. 09:16

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Í Fésbókinni endurspeglast hjarðhegðun mannsins. Allir eru að elta alla.

Ætli Bjarni kafni ekki í Vafningi.

Og Ólafur hefur grísað á það.

Sigurjón Jónsson, 14.2.2012 kl. 12:04

3 identicon

Ég held að nú í vor kjósi ég öðruvísi en ég ávalt hef gert, frá upphafi.
Leita að flokki sem hefur burði að klára auðlindamálin, koma stjórnarskránni í höfn og ganga síðan í ESB?

Ólafur Sveinsson 14.2.2012 kl. 14:40

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þabba sona. Ég er ekki einn um skoðun mína á fésbókinni. Er samt að hugsa um að skreppa þangað og athuga hvort einhver viðbrögð hafa komið við því sem ég setti á vegginn þar.

Ólafur; mér líst ekki á að hafa Jóhönnu forsætis þangað til hún verður hundrað ára. Hún er samt nokkurn vegin jafngömul mér. Ó, fyrirgefðu eru kannski bara að tala um nafna þinn?

Sæmundur Bjarnason, 14.2.2012 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband