1606 - Lilja Mósesar

Untitled Scanned 18Gamla myndin.
Þetta er sennilega frá skemmtiatriðum á 17. júní. Myndin er greinilega tekin uppi í Laugaskarði.

Ein af ástæðunum fyrir því að Hrunið haustið 2008 varð eins slæmt og raun ber vitni er að talsverður fjöldi venjulegs fólks treysti bönkum og fjármálastofnunum. Treysti því að fulltrúar þeirra segðu í aðalatriðum satt og rétt frá. Þetta traust er horfið og kemur aldrei aftur. Traustið á stjórnvöldum og stjórnmálamönnum var löngu farið. En hverju er þá unnt að treysta? Er hægt að treysta bara á sjálfan sig og sína nánustu fjöskyldu? Er kannski best að treysta á nýju flokkana? Eru þeir eitthvað skárri en hinir gömlu? Ekki virðast bankarnir hafa batnað við að fara á hausinn. Ólafur Ragnar virðist ætla að koma standandi niður úr ósköpunum. Er þá kannski bara best að treysta á hann? Spurningarnar eru margfalt fleiri en svörin. Einhvers konar svar fæst þó í þeim þingkosningum sem verða á þessu ári eða því næsta. Kannski fæst hluti af svarinu í forsetakosningunum sem áreiðanlega verða næsta vor.

Það er samhengislausa þruglið sem á best við mig. Þá þarf ekki að velta fyrir sér framhaldinu eða neinu þessháttar og því hentar bloggið mér svona vel. Þar er hægt að vaða fyrirvaralaust úr einu í annað og enginn ætlast til nokkurs framhalds eða samhengis. Of mikið má þó af öllu gera og hvað samhengisleysið varðar kemur fésbókin sterkt inn með allt sitt læk, fótósjoppaðar myndir og ógáfulegu athugasemdirnar. Sko mig, þarna tókst mér að koma fésbókinni að og þá er mér óhætt að hætta og fara að hugsa um eitthvað annað.

Í sjónvarpinu áðan var bollalagt um forsetaembættið og Ólaf Ragnar Grímsson; einnig hvort hann muni bjóða sig fram einu sinni enn eða ekki. Síðast þegar ég vissi voru yfir 27 þúsund undirskriftir taldar komnar á listann þar sem skorað er á hann að gera einmitt það. Mér finnst það satt að segja vera hrein ókurteisi hjá honum að upplýsa ekki hvort hann hyggist bjóða sig fram í vor. Hvað sem öðru líður verður hann ekki sjálfkjörinn að þessu sinni. Ef Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona stendur við stóru orðin og býður sig fram kýs ég hana miklu fremur en ÓRG þó ekki væri nema vegna þeirrar óvirðingar sem Ólafur sýnir þjóðinni um þessar mundir.

Já, það eru margir sem hafa áhuga á flokknum hennar Lilju Mósesar. Nafnið er ekki mjög frumlegt, en hvort það er eitthvert félag úti á landi sem heitir sama nafni finnst mér ekki skipta miklu máli. Að Siggi stormur sé eini þjóðþekkti aðilinn sem vill hoppa á vagninnn hjá henni finnst mér í lélegra lagi. Líklega eru núna tveir flokkar komnir sem vilja hjálpa okkur að losna við fjórflokkinn; verra gat það verið.

IMG 7864Snjónum kyngir niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þar er hægt að vaða fyrirvaralaust úr einu í annað og enginn ætlast til nokkurs framhalds eða samhengis. Það hefur þjóðin sennilega gert og kallað með því yfir sig þessa hörmung.

Sigurbjörn Sveinsson, 8.2.2012 kl. 22:47

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, mér finnst þjóðin ekki hafa verið að vaða úr einu í annað heldur ösla fram og aftur í peningakeldunni og farið á kaf þar.

Sæmundur Bjarnason, 8.2.2012 kl. 23:47

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Mér finnst ekki beinlínis vaðið úr einu í annað heldur öslað hring eftir hring í sömu hlandforinni og ég held að það eigi við um fleiri og fleira en DV það sem þú segir um að allt og allir sem annað hvort stóðu að hruninu eða létu blekkjast af hrundansinum séu óalandi og óferjandi og skuli helst velt upp úr tjöru og fiðri -- aftur og aftur. Eins og gamla máltækið batnandi manni er best að lifa sé algörlega týnt og ónýtt -- enginn sem dreginn hefur verið í braskaradilkinn með réttu eða röngu hefur hugsanlega lært neitt af því og því síður að hann geti framar gert nokkuð gott og nothæft, hvað þá þjóðþarft.

Sigurður Hreiðar, 9.2.2012 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband