1479 - Skautar

Einu sinni þegar ég stundaði nám að Bifröst var í útivistartímanum ákveðið að fara í skautaleiðangur niður að Hreðavatni. Ekki man ég glöggt hve mörg við vorum. Líklega svona sex til átta. Ekki bjuggum við svo vel að við ættum öll skauta. Ég fékk léða skauta hjá einhverjum en veit ekki með vissu hvernig aðrir fóru að.

Skautarnir sem ég fékk lánaða voru sagðir vera svonefndir hokkí-skautar. Ég vissi svosem ekkert hvað það þýddi og hafði meiri áhuga á því hvort skautarnir væru nógu stórir á mig. Svo reyndist vera, en naumlega þó. Ég ákvað samt að fara með og láta á skautakunnáttuna reyna. Þegar niður að vatni kom fór ég að troða mér í skautana og gekk það sæmilega. Ég var að vísu alls ekki meðal þeirra fyrstu út á ísinn en heldur ekki langsíðastur.

Þegar út á vatnið kom versnaði málið og ég komst smám saman að því hvað hokkí-skautar eru. Hífandi rok var og stóð það út á vatnið. Sæmilega vel gekk mér að halda jafnvæginu og barst ég fyrir vindinum óðfluga burt frá hópnum. Eftir nokkra stund var ég kominn mun lengra út á vatnið, en allir hinir. Þá fór ég að velta fyrir mér hvað það þýddi að vera á hokkí-skautum. Þó ég hefði aldrei á skauta komið fyrr hafði ég tekið eftir því að engar rifflur voru fremst á skautunum sem ég var á.

Ég fór því að velta fyrir mér hvernig ég ætti að komast til baka og sá að nú voru góð ráð dýr. Eiginlega rándýr. Þegar ég hafði velt þessu fyrir mér svolitla stund ákvað ég að fara ekki lengra fyrr en ráðning á þessu vandamáli væri komin. Ég lét mig því detta og tókst það vel. Ekki meiddist ég neitt og fyrr en varði nam ég staðar.

Ráðningin á því hvernig ég ætti að komast til baka lét samt á sér standa. Eiginlega kom mér ekkert ráð í hug og á endanum skreið ég einfaldlega í land og hef ekki á skauta komið síðan.

Líklega hef ég áður sagt frá þessu hér á blogginu, en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

IMG 6554Jón Austmann.

(Auðvitað er þessi stytta af Jóni Ósmann eins og mér var strax bent á - sjá athugasemdir)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ferjumaðurinn kallaði sig Jón Ósmann og var Magnússon.

Ellismellur 19.9.2011 kl. 05:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skrifaði ég Austmann? Ósköp er ég ruglaður. Ætla samt ekki að breyta þessu. Auðvitað hefur þú rétt fyrir þér. Mér fannst styttan ágæt og tók þess vegna myndina. Jón Ósmann hef ég lesið um og saga hans er merkileg. Skil ekki hvernig ég hef farið að því að rugla svona með nafnið, án þess að taka eftir því. Jón Austmann var auðvitað til líka, en ekki er mér kunnugt um að stytta hafi verið gerð af honum.

Sæmundur Bjarnason, 19.9.2011 kl. 06:59

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Skautasagan frá Hreðavatni er góð. Og trúleg. Ég hef sjálfur ekki stigið á skauta síðan ég var í Bifröst hið síðara skiptið og guð forði mér frá þeim fjanda framvegis. -- Hvar þú hefur fengið þessi drápstól er mér hins vegar ljóst. Skólinn átti allmörg pör af skautum til afnota fyrir nemendur og alltaf var eitthvað um að fólk væri að bjálfast þetta.

Landleiðin er yfirleitt farsælust. Einhvern tíma hafði öðrum bátnum sem Bifröst átti verið illa brýnt og hann fór sína leið í einhverju rokinu. Þegar ísa leysi fréttist að hann hefði sést í nánd við bakka út við Milljón. Hópur vaskra ungmenna fór að ná í hann en þá kom í ljós að hann var á óvæðu dýpi fram undan skör sem enn var landföst. Ofurhugar fóru samt fram á brún þar til hún brast -- og úr því maður var orðinn votur hvort eð var mátti bara stinga sér niður og húkka kaðli undir þóftu. Og binda við girðingarstaur í landi svo báturinn færi þó ekki dýpra. Svo var farin landleiðin heim -- en andskoti var hún löng og köld. Báturinn var svo endanlega sóttur þegar ísa hafði alleyst og var hann jafn góður eftir volkið.

Sigurður Hreiðar, 20.9.2011 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband