1478 - Fundarsköp

„Það er nú svoleiðis með mig“ var Jón Eðvald Alfreðsson vanur að segja og meinti víst eitthvað dónalegt. Ég skildi þennan brandara aldrei fyllilega, en hló með öllum hinum. Þetta var víst fyndið.

Að Bifröst kenndi Snorri Þorsteinsson á Hvassafelli okkur íslensku og ensku. Þar að auki fundarsköp og fundarreglur að ógleymdum enskum verslunarbréfum. Hann átti stundum erfitt með að hætta að tala. Guðmundur Vésteinsson frá Akranesi var hringjari. Fundarsköpin sem við lásum voru í fjölrituðu hefti í fólíó-stærð.

Einhverju sinni eftir að Guðmundur var búinn að hringja út (sitjandi í sæti sínu, því hinn bekkurinn var bara hinum megin við harmónikuhurðina) átti Snorri erfitt með að hætta. Ég gerði þá eins konar lúður úr kennslubókinni og sagði: (eiginlega alveg óvart)  „Tíminn er búinn.“ Ég var ekkert frekar að segja þetta við Snorra en sessunauta mína. En hann heyrði þetta vel og strunsaði út saltvondur. Jón Eðvald, Baldur, Árni og fleiri bekkjarfélagar mínir voru alveg hissa á að ég skyldi hafa þorað að segja þetta. Snorri gætti þess að taka mig upp fyrstan í næsta tíma svo ég skildi að atvikið væri geymt en ekki gleymt.

Fundarsköp Alþingis eru fyrirmynd margra. Þó eru þau ekki sérlega góð. Sú æfing í ræðumennsku sem alþingismenn virðast telja mikilvægasta er að tala í allan þann tíma sem leyfilegt er. Ekki að segja meiningu sína í sem fæstum orðum. Þetta veldur því að venjulegt fólk álítur alþingismenn mun vitlausari en þeir eru.

Um þessar mundir er ég að lesa sjálfsævisögu Jóns Á. Gissurarsonar sem heitir „Satt best að segja“ og er gefin út af bókaútgáfunni Setbergi árið 1985. Hálfasnalegt þykir mér að skrifa heila sjálfsævisögu í þriðju persónu. Þessi saga er þó um margt merkileg og lýsir vel aldarfarinu á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Þetta er að mörgu leyti sama tímabilið og lýst er bók Theodórs Friðrikssonar „Í verum“, nema hvað sú bók er mun betur skrifuð. Af einhverjum ástæðum er þetta tímabil mér hugleikið. Þó miklu fremur þjóðlífið í heild en stjórnmálin sérstaklega.

Sumarið er búið. Græni liturinn er á undanhaldi. Þó eru haustlitirnir ekki komnir.

IMG 6550Veitingahús á Hofsósi. (Svolítið lágt til lofts þar inni)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lágt undir loft, jú þetta er gamalt hús sem var gert upp og forfeður/mæður okkar voru allavega lágvaxnari en þú Sæmundur tröll.

Ellismellur 16.9.2011 kl. 16:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þetta er fallegt hús. Þegar inn var komið beygði ég mig samt til öryggis undir loftbitana.

Sæmundur Bjarnason, 16.9.2011 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband