1447 - Skordýr á Kanarí og Íslandi

110Gamla myndin.
Þetta er Hvergerðingurinn Valur Valsson. Sonur Vals Einarssonar.

Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan fór ég í fyrsta sinn á ævinni til Kanaríeyja. Fyrirfram var ég svolítið með böggum hildar vegna þess að ég óttaðist að skordýralíf í hitabeltinu væri með þeim hætti að ég ætti erfitt með að sætta mig við það. Skemmst er frá því að segja að skordýrplágur og annar ófögnuður er að mínu mati miklu sjaldgæfari á Kanaríeyjum en á sumrin hér heima á Íslandi. Sú skýring sem mér dettur einna helst í hug er sú að íslensk skordýr þurfi að flýta sér mun meira en þau sem á Kanaríeyjum lifa. Aðallega auðvitað vegna þess hve sumarið er stutt hér á Fróni.

Líka kann að valda einhverju að við vorum á dálítið vernduðu og túristavænu svæði á Kanaríeyjum. Ég held þó að ástandið sé ekkert mikið verra annars staðar í hitabeltinu. Vel getur samt verið að flugur séu aðgangsharðari sumsstaðar.

Það er með öðrum orðum engin ástæða til að láta skordýraótta hræða sig frá hitabeltinu. Þar er lífið þó mjög ólíkt því sem er hér heima að því leyti að á hverju kvöldi dimmir og birtir ekki aftur fyrr en næsta morgun. Hér á Norðurslóðum eigum við því að venjast að þegar sólin er hæst á lofti þá er dagur allan sólarhringinn. Það er ekki fyrr en í ágúst sem fer að dimma á kvöldin.

Maður þarf samt alltaf að vera á varðbergi fyrir skordýrum ef manni er illa við þau. Maurar gera sig heimakomna næstum allsstaðar. Það þarf bara að ganga frá matvælum strax og búið er að borða. Ekki þýðir að bíða með það. Þá eru helvítin komin.

Mest var ég hissa á að flugur voru hvergi til vandræða. Maður sá varla slík óféti. Kakkalakkar og aðrar pöddur finnast að sjálfsögðu þarna en það virðist vera nokkuð auðvelt að halda þeim í skefjum.

Heldur vil ég vera dauður en rauður, sögðu hægri menn gjarnan áður fyrr. Líklega nota þeir þetta slagorð minna núorðið, enda gæti það misskilist. Upphaflega held ég að þetta hafi verið sagt í einhverju gríni. Rímið hefur síðan líklega haldið í því lífinu.

Þessi svokallaði frjálsi vilji er afskaplega lítils virði. Ef við finnum einhverja hvöt hjá okkur til að ganga gegn honum kennum við genunum um. Það er í tísku núna. Satt að segja er það oft mikið vafamál hvort við erum að meira leyti á valdi tilfinninganna eða skynseminnar. Við teljum sjálfum okkur samt trú um að við séum skynsemisverur. Vitum samt ekkert um það. Ætli við yrðum ekki síðust til að uppgötva eitthvað annað.

Í frétt á DV segir að bresk stjórnvöld íhugi hvort þau eigi að loka samskiptasíðum líkt og Twitter og Facebook. Hugsanlega er þetta meint í alvöru, en mér dettur ekki í hug að halda að bresk yfirvöld komist upp með neitt svonalagað. Það getur verið að Egypsk yfirvöld hafi komist upp með að loka fyrir Facebook og farsíma í vetur en aðgerðir af þessu tagi verða aldrei liðnar í þjóðfélagi á borð við Bretland. Það væri í mesta lagi hægt að trúa þessu uppá íslensk stjórnvöld en alls ekki bresk. Að ætla sér að hindra með þessum hætti samskipti fólks er beinlínis hlægilegt. Auðvitað eru yfirvöld skíthrædd við samskipti af þessu tagi en þegar þau eru einu sinni komin á í lýðræðisríkjum er ekki hægt að snúa til baka.

IMG 6306Grýla og Leppalúði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tek undir þetta með skordýrin Sæmi, mín reynsla frá hitabeltinu í SA Asíu er sú að þar eru skordýr almennt ekki til ama nema á næturnar.. og þá er gott að sofa í mýflugnanneti

Óskar Þorkelsson, 13.8.2011 kl. 17:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Óskar. Mér finnst þetta svolítið furðulegt. Svo eru íslensku skordýrin oft næstum því vinaleg samanborið við þau útlendu.

Sæmundur Bjarnason, 13.8.2011 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband