1389 - Dósóþeus Tímóteusson

hopurGamla myndin.
Þekki enga á þessari mynd og veit ekki hvar hún er tekin.

Hver er besti vinur aðal?

Í þessu tilviki er aðal sá sem allt veit. Ekki Davíð frændi eða einhver valdamikill andskoti sem einskis svífst.

Jú, það er einmitt tölvukassinn stóri eða litli og fésbókin og bloggið og allt það vesen. Þetta nýmóðins dót er besti vinur aðalkarlsins sem öllu ræður.

Með því að kunna svolítið á þetta drasl er hægt að halda sambandi við umheiminn. Telja sjálfum sér trú um að  maður geti eitthvað. Líka er hægt að vorkenna hinum sem ekki kunna á draslið.

Sagt er að biskupsnefnan liggi undir feldi og verði þar þangað til á þriðjudaginn. Hverjir þurfa biskup af þessu tagi? Ekki ég? Ímyndar hann sér að hann sé einhver Ljósvetningagoði, eða hvað? Á kannski að afnema trúna? Ætli hann sé ekki bara búinn að því?

Einu sinni dreymdi mig óhugnanlegan draum. Mér þótti sem ég væri staddur á Hótel Ljósbrá í Hveragerði. Af einhverjum ástæðum voru myrkvunargluggatjöldin ekki rétt dregin fyrir þannig að ekki var hægt að hefja kvikmyndasýninguna vegna birtu eða réttara sagt myrkurleysis. Þá var það sem skotglaður Kínverji kom þjótandi og skaut til bana þann sem ábyrgð bar á þessu. Man að ég var skíthræddur við Kínverjann á eftir. Held jafnvel að ég hafi átt að taka við myrkurstjórnun á eftir þeim skotna. Sem betur fór lauk draumnum fljótlega svo ég þurfti ekki lengi að óttast um líf mitt. Af einhverjum ástæðum sat þessi draumur í mér lengi og gerir jafnvel enn.

Nálægt síðustu áramótum sat ég í mesta sakleysi og skrifaði á ferðatölvuna í hitanum á Tenerife. Þetta var um miðja nótt og ég hafði orðið andvaka. Varð litið af tölvuskjánum og sá á veggnum rétt hjá mér risastóran kakkalakka. Mér brá svo að ég hentist til í stólnum og heyrði vel hvernig brakaði í honum. Sem betur fór hafði ég ráð á skordýraeitri í spraybrúsa og réðist á kakkalakkann með hann að vopni. Eftir tvísýna baráttu tókst mér að koma honum út og morguninn eftir lá hann andaður á svalagólfinu.

Eftir þetta eru brjálaðir Kínverjar og svartir kakkalakkar hættulegustu fyrirbrigðin í mínu lífi. Sem betur fer dreymir mig slíkan óhugnað mjög sjaldan núorðið. Hér á landi er óhætt að skrifa á tölvur um miðjar nætur án þess að eiga á hættu að verða fyrir barðinu á svo hrikalegum fyrirbærum sem stórhættulegum kakkalökkum og brjálaðir Kínverjar eiga bara heima í martröðum sem betur fer.

Kakkalakkar og svörtu pöddurnar á Kanaríeyjum hræða mig en íslensku maðkaflugurnar og býfluguhlussurnar sem villast inn um gluggana á vorin gera það ekki. Hvernig skyldi standa á þessu? Meira að segja geitungarnir eru ekki sérstaklega hættulegir ef þeir eru íslenskir og maður varar sig á þeim. Skil þetta bara alls ekki. Enda enginn skordýrafræðingur.

Af einhverjum ástæðum er Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness aðalstjörnuskoðunarfélagið hér á landi. Man vel eftir því að á unglingsárum mínum hafði ég gríðarlegan áhuga á stjörnufræði og öllu sem henni tengdist. Minnisstætt er þegar mér tókst í fyrsta skipti að sjá með venjulegum kíki tunglin í kringum Júpíter. Sá þess getið í bók að þetta væri hægt en lagði lítinn trúnað á það. Auðvitað var einfalt að fylgjast með stærstu plánetunum með því einu að sjá afstöðu þeirra til annarra stjarna breytast frá degi til dags. Fyrst þegar ég horfði á Júpíter í gegnum kíki sjá ég einhverja litla ljósbletti í kringum hann og þegar ég kíkti aftur nokkrum tímum seinna hafði afstaða blettanna gjörbreyst. Þarna gat því ekki verið um neitt annað að ræða en tungl Júpíters. Þetta var gríðarleg uppgötvun og ég var lengi að jafna mig á henni.

Blaðamönnum hættir til að skrifa fréttir frá sjónarmiði þess sem síðast talaði við þá. Stundum eru þeir líka illskiljanlegir. Var áðan að lesa frásögn á dv.is um kartöflustríð í Þykkvabænum. Þegar kom að setningunni: „Markús segir Karl hafa nýtt sér vinnu Birkis á landspildunni,“ þá var ég hættur að fylgjast með hver gerði hverjum hvað því nöfnin voru miklu fleiri en þetta og hingsnerust bara fyrir augunum á mér. Ég hætti því að lesa. Kannski eiga fleiri en ég erfitt með að skilja um hvað þetta kartöflustríð snýst.

IMG 5758Hættuleg brú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hvernig vissirðu að þetta var Kínverji? (Þrátt fyrir vonir mínar þar um er ekkert víst að einhver spyrji mig að þessu – svo ég spyr bara sjálfur.)

Ég vissi það bara í draumnum. Skyldu fordómar okkar vera eins í draumheimun og annarsstaðar?

Áhugavert.

Sæmundur Bjarnason, 12.6.2011 kl. 01:45

2 identicon

Dósi hvað? Þekktir þú hann? Eða er nafnið bara svona sérstakt?
Annars eru kakkalakkar mér hugleiknir. Þegar maður fer að skoða þessi kvikindi þá er þetta sauðmeinlaust. Mesta hættan er af bakteríum sem þeir, eins og önnur smádýr, bera með sér.
Þeir forðast fólk og eru ljósfælnir með afbrigðum. Þá kjósa þeir helst raka staði umfram aðra en þó ekki bleytu.
Það er víst staðreynd að þeir valda óbeint þúsundum dauðsfalla árlega en það fólk deyr úr hræðslu. Þannig má með smá fræðslu fækka ótímabærum dauðsföllum talsvert.

Svo er Kínverski kakkalakkinn alveg sérstakur. Brúnn og glansandi á litinn. Veit ekki hvort hann er með skásett augu en gæti best trúað því. Það er allt morandi af honum í bíósölum þar eystra.
;)

 

Gummi 12.6.2011 kl. 07:55

3 Smámynd: Frikkinn

Serstakt að þú nefnir Dósóþeus, faðir minn þekkti þennan mann og talaði stundum um hann , hann var til sjós með bróður hans sem mig minnir að hafi heitið Jón

Frikkinn, 12.6.2011 kl. 11:40

4 identicon

Heimsótti mann upp á Arnarholti. Hitti Dósa þá oft. Samvæmt sögunni, þá hafði Dósi verið sendur þarna upp eftir, eftir að hafa hrært upp í þeim gömlu á Grund.  Hafði verið að draga
karlana með sér niður í Hafanarstræti.

Ólafur Sveinsson 12.6.2011 kl. 14:07

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Deili með þér kakkalakkafælninni. Hef s.b.f. ekki haft ama af þeim að ráði suður í Kanaíiinu, aðeins á einum stað á Stóru Hundaeyju, á hóteli sem heitir Corona Blanca, var þess háttar fénaður að þvælast inn til okkar, einur fjórir alls á þremur viku. Á Tenerife höfum við engan séð innan húss og dvöldum þó í okkar fyrstu fer á Tropical Playa sem mig grunar að hafi verið hlutskipti þitt í tilvísuðu tilviki. Þegar við vorum síðast á Tenerife heyrðum við all svakalegar kakkalakkasögur gesta á Tropical Playa. Reyndar líka á Best Tenerife. Við vorum á H10 Conquistador (varið ykkur, það eru mörg H10 hótel þarna rétt eins og Iberostar, þannig að við verðum að nota auðkennin, í þessu tilfelli Conquistador) og sáum ekki kvikindi á hálfum mánuði utan eina húsflugu, mjög svo ráðvillta. -- Hún er ekki lengur á meðal vor.

-- Annars eru víst til einar 3000 tegundir af kakkalökkum sem eiga það víst allir sameiginlegt að vera hver öðrum ljótari og skelfilegri ásýndum en sosum sauðmeinlausir að öðru leyti ef menn lenda ekki í þeirri ógæfu að leggja sér þá til munns, nýkomna upp úr klóakinu.

Sigurður Hreiðar, 12.6.2011 kl. 15:30

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hef heyrt frá mínum föður þá sögu að Lögreglan hafi eitt sinn þurft að hafa afskipti af þessum Dósa og spurt hann til nafns. Þegar hann kvaðst heita Dósóþeus Tímóteusson var hann færður niðrá stöð til frekari yfirheyrslu fyrir að neita að segja til nafns og gera grín að laganna vörðum. Hið rétta mun síðan fljótlega hafa komið í ljós.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.6.2011 kl. 16:39

7 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

þegar ég var smá patti vestur í Bolungavík,kyntist ég vel Tímóteusi vel og síðar meir Dósoþeusi syni hans, Tími gamli var mesta ljúfmenni sem ég veit um.....

Vilhjálmur Stefánsson, 12.6.2011 kl. 17:24

8 identicon

Gugga og Áslaug voru vinkonur í den.
Svo er spurning hvort ég segi nokkuð meira.
Orðið er laust. ...

Guðmundur Bjarnason 12.6.2011 kl. 20:55

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fór á Akranes og sá að pulsusalinn við Hvalfjarðargöngin nennti ekki að hafa opið. A.m.k. ekki um hádegið í dag. 

Sko. Ég hef verið svolítið vant við látinn í dag og þess vegna ekki svarað neinu. Ef ég reyni að taka þetta skipulega þá er þess fyrst að geta að ég þekki Dósa ekkert eða þekkti.

Þegar ég sé að einhverjir kannast við hann rifjast upp fyrir mér að ég er ekki sá fyrsti sem reyni að hafa þetta nafn í staðinn fyrir NN. Hef einmitt heyrt sögu um það.

Um kakkalakkana má margt segja. Sleppi því núna. Þeir eru hálf-ógeðlegir og ekki spennandi.

Emil Hannes, í fótboltaliði Selfyssinga var eitt sinn maður sem var rekinn af velli fyrir það eitt að segja rétt til nafns. Hann hét eða heitir Gylfi Þ. Gíslason. Þessi saga var þekkt í eina tíð.

Þetta með Guggu og Áslaugu þekki ég bara ekki neitt. Það er eins og þetta með fílana og hvalina....

Sæmundur Bjarnason, 12.6.2011 kl. 21:24

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já og Sigurður. Einn máv sá ég við ströndina á Tenerife (eða var það á Gran Canaria - rugla þeim alltaf saman). Mér fannst næstum eins og ég væri kominn heim. Kannski var samt of margt fólk þarna til að það væri líklegt.

Sæmundur Bjarnason, 12.6.2011 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband