1382 - Ómöguleg vefsíða

badGamla myndin.
Hér er Bjössi í baði. Stóllinn á bak við balann er greinilega hið mesta þing.

Örlítið meira um tóbaksnautnina, en um hana skrifaði ég eitthvað í gær. Bjarni Harðarson kallar það „taumlausan hroka“ að berjast gegn tóbaksnotkun. Séra Baldur Kristjánsson segir á eyjubloggi sínu: „Ef Guð lofar mun tóbak syngja sitt síðasta með Bjarna Harðarsyni og kynslóð hans en gáfaði bóksalinn á Selfossi hefur verið manna iðnastur við að hjúpa þjóðlegri rómantískri hulu yfir eitrið sem drepur Íslendinga í stórum stíl bæði þá sem reykja og þá sem ekki reykja.“

Já, menn verða gjarnan dálítið æstir þegar tóbakið er annarsvegar. Sjálfur vil ég gjarnan standa utan við svona þrætur, enda hættur að reykja. Forsjárhyggja er þetta samt og oftast ber að varast hana.

Nú er það allt í einu orðin hin mesta ósvinna að opna vefsíðu. T.d. skrifaði Eiður Guðnason á sína fésbók að það væri meiriháttar mistök hjá saksóknara alþingis að opna vefsíðu um landsdóminn. Ég vogaði mér að spyrja Eið á fésbókarsíðunni af hverju það væri. Svar hans var þannig: „Ofan á allt annað þá á ekki að reka þetta mál á netinu.“ Semsagt, af því bara.

Það getur vel verið að umdeilanlegt sé að ákæra Geir Haarde einan en ekki félaga hans úr ríkisstjórninni. Hann var samt forsætisráðherra og átti að bera meiri ábyrgð en hinir. Þeir sem eru ósáttir við ákærunan á Geir ættu að hætta að gagnrýna allt sem snertir þetta mál. Það eyðileggur bara fyrir þeim að láta svona.

Það er engin ósvinna að hafa réttarhaldið yfir Geir sem mest opið. Kalli menn það meiriháttar mistök ætti að vera hægt að rökstyðja það eitthvað. Meiriháttar mistök er ekki hægt að kalla það að setja á netið þau skjöl sem allir mega sjá. Fjölmiðlamaðurinn fyrrverandi Eiður Guðnason ætti að geta skilið það. Það eru misheppnaðir fjölmiðlar og óþarfa leyndarhyggja sem bera talsverða sök á því ástandi sem hér skapaðist fyrir Hrunið.

Harpa Hreinsdóttir hefur gagnrýnt ótæpilega Sögu Akraness, sem nýkomin er út að hluta. Bækur þessar eru umfjöllunarefni ýmissa fjölmiðla og m.a. ríkisútvarpsins. Þar er því haldið fram fullum fetum af bæjarstjórnarmanni að gagnrýni Hörpu skipti engu máli. Satt að segja hefur þessi ritun verið gagnrýnd af mörgum. Hefur staðið yfir lengi og kostað mikið fé. Nú er því einnig haldið fram að illa hafi verið að verki staðið við heimildavinnu og þess háttar. Ég sé ekki betur en gagnrýni manna á þetta verk fari bráðum að skipta máli hvað sem fulltrúar bæjarstjórnarinnar segja.

IMG 5707Hallgrímskirkja, Háskólinn í Reykjavík, Nauthólsvík og Perlan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Harpa er afar klár og ég efast ekki um hennar vit á sögu Akraness. Það þarf nú ekki annað en að skoða síðuna hennar til að sjá hversu vel hún getur heimilda og hversu vandaður hennar málflutningur er.

Eiður, já Eiður...hm....

Takk fyrir blogg og myndirnar

Ragnheiður , 5.6.2011 kl. 20:01

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ragnheiður.

Ég efast ekkert um Hörpu á neinu sviði og held ekki að það sé hægt að lesa slíkt út úr blogginu mínu.

Mér finnst Eiður hafa flýtt sér of mikið að fordæma vefsíðuna sem margir rífast um núna. Það er samt margt gott sem hann skrifar. Einkum um málfar.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2011 kl. 20:53

3 Smámynd: Ragnheiður

Já mér finnst hann voða smámunasamur hann Eiður.

ég var ekkert að gera þér upp skoðanir varðandi Hörpu :)

Ragnheiður , 7.6.2011 kl. 05:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband