1356 - Fleira er matur en feitt kjöt

SiggiRun ÞrastarskogiGamla myndin.
Hér er Sigurður Runólfsson í Þrastarskógi. Þessi mynd er frá Kalla Jóhanns.

Eiður Guðnason er iðinn við að safna allskyns bögumælum úr fjölmiðlum landsins. Stundum finnst mér hann full smámunasamur, stundum er ég annarrar skoðunar en hann, en langoftast er ég alveg sammála honum.

Nýlega ræddi hann um frétt úr mbl.is þar sem sagt var að samningamenn væru að týnast inn í hús sáttasemjara. Þetta þýðir beinlínis að samningamennirnir hafi týnst í húsinu. Að segja að þeir hafi verið að tínast í húsið hefði verið rétt. Svipað má segja um fleiri ypsilon tengd atriði. T.d. leyti og leiti.

Nú fer að hitna undir kolunum var sagt hvað eftir annað í dagskrárkynningu á Stöð 2. Þarna er um að ræða einhvern samslátt á talsháttum. Talað er um að hitni í kolunum og að undir einhverjum sé að hitna (oftast notað um knattspyrnuþjálfara sem á að fara að reka) Svona vitleysur leiðast mér. Ef menn þurfa að nota talshætti eiga þeir að vera réttir. Annars er betra að sleppa þeim.

Við Reykjafoss var BP bensíntankur. Einn daginn tók ég eftir að búið var að breyta um nafn á honum og í stað BP hét hann allt í einu NAFTA. Þetta skildi ég ekki þá og skil ekki enn. Nafngiftir olíufélaga eru langt fyrir ofan minn skilning. Til dæmis fæ ég með engu móti séð hvernig á að skilja nafnið EXXON. Eitt sinn taldi ég að kalla bæri Essó þrír-ess-ess-núll. Það var þegar E-ið á öllum kaupfélagstönkum var eins og öfugir þrír. Nú heitir olíufélag nokkurt NEINN skilst mér en þori helst ekki að festa mér það í minni.

Þegar ég var strákur þótti ekkert matur nema helvítis fjallalambið. Sumum þótti það samt nokkuð dýrt þrátt fyrir allar niðurgreiðslurnar og þá var fangaráðið að kaupa fjórða flokks rolluhakk sem gert var úr gamalám sem ekki var lengur hægt að kreista dilka úr.

Um það leyti sem ég fluttist frá Snæfellsnesi til Borgarness minnir mig að sauðfé á landinu hafi verið rúm milljón. Fátt var étið af kjötmeti annað en rolluket. Reiknað var með áframhaldandi siðvenju að þessu leyti og að áfram mundi mörgum dilkum vera slátrað í sláturhúsinu í Brákarey. Nú er að ég held búið að leggja það sláturhús niður og Íslendingar farnir að éta fleiri tegundir kjötmetis. Dilkakjötsframleiðslan hefur minnkað en þjóðremban ekki mikið.

Að áliti flestra voru það bara villimenn og vafagemlingar sem lögðu sér svín og fugla til munns hér áður fyrr. Kristilegir víkingasynir borðuðu heilsteikt lambalæri með rabbarbarasultu og feitri sósu á sunnudögum.

Matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur var eina matreiðslubókin sem þörf var fyrir. Þetta útlenda nýmóðinsdrasl var beinlínis hættulegt. Á sunnudögum voru kartöflurnar þvegnar og jafnvel brúnaðar en á virkum dögum var moldin soðin með. Þá var ýsan líka skorin í bita og soðin í fjóra klukkutíma eins og kartöflurnar.

Á laugardögum var gamall saltfiskur sóttur út í skúr, hrist af honum mesta saltið, hann útvatnaður í nokkra klukkutím og hent svo í pott. Gott þótti að bræða mör og hafa með.

Þegar ég afgreiddi í kaupfélaginu í Hveragerði byrjuðum við alltaf á því á laugardögum að saga niður kjötskrokka. Læri, lærissneiðar, kótilettur og hryggir var það langvinsælasta. Þess vegna hrökk ég í kút þegar mamma hans Sigga Þráins sagði flóttalega: „Ég ætla að fá slag." Slög voru nefnilega alltaf í fleirtölu hjá okkur og gengu yfirleitt af. Sendum þau á Selfoss í kjötvinnsluna þar. Frampartarnir fóru að sjálfsögðu í súpukjöt en það seldist ekki mikið á laugardögum.

Ef ég kemst að því um kvöldmatarleytið að ég hef lítið undirbúið næsta blogg líður mér illa. Mér finnst eins og ég sé að bregðast einhverjum. Fer jafnvel að hamast við að hugsa. Sem ég reyni annars að gera sem minnst af. Það er nefnilega þannig með mig að ég er í besta stuðinu til að blogga að morgni dags. Þurfi ég að blogga seint gríp ég oft til fréttabloggs og er yfirleitt því vinstrisinnaðri sem lengra er liðið á kvöldið. Ekki veit ég af hverju þetta er en einhvern vegin hentar hægri stefnan betur á morgnana.

Í gamla daga voru húsflugur beinlínis heimilislegar. Stundum tók maður sig til og reyndi að drepa þær með því að slá til þeirra með upprúlluðum Mogga. Það tókst yfirleitt ekki. Nú er maður orðinn svo afvanur hverskyns skordýrum og pöddum að maður hrekkur við ef maður sér svoleiðis. Það kom mér á margan hátt á óvart að ekki er til neinna muna meira af slíkum kvikindum í hitabeltinu (Kanaríeyjum) en hér á Fróni. Einhverra hluta vegna finnst mér býflugnadrottningarnar feitu og stóru sem hér eru á ferð og flugi þessa dagana stórum vinalegri en útlenskir kakkalakkar. Þó fljúga þeir ekki.

Heimsóknir hafa verið með meira móti á bloggsíðuna mína í dag. Nærri 300 við síðustu talninu. Kannski er það vegna fyrirsagnarinnar. Kannski hafa einhverjir búist við að skrif mín væru pólitískari en þau eru. Sé svo biðst ég afsökunar á því að hafa valdið vonbrigðum. Ég á oft í vandræðum með að finna hæfilegar fyrirsagnir á bloggið mitt.

IMG 5458Stytta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Fyrirsögnin greip mig en ég hélt að verið væri að tala neikvætt um feitt ket...

En um fyrirsögnina get ég sagt að "Ef engin er fitan þá er ketið óætt"...

Það er nefnilega fitan sem gefur bragðið. Þessvegna er það svo að sögur eru skemtilegri þeim mun meiri sem fitan er, ef skylst meiningin...

Með kveðju

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 10.5.2011 kl. 00:26

2 Smámynd: Ragnheiður

Hér kom ég og las. Skammastu þín svo hæfilega fyrir að segja "helvítis" fjallalambið :) hahaha

ég er lítið fyrir að éta svín. Kjúklingar finnast mér betri.

ég ætla ekki að tala um Eið.

Maðurinn minn segir oft ; mikið líður klukkan.

Það fer nú alveg eftir aðstæðum hvort ég nenni að leiðrétta hann og segja að klukkan gangi en tíminn líði.

Hafðu það gott og takk fyrir pistilinn

Ragnheiður , 10.5.2011 kl. 10:50

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk bæði tvö.

Ólafur, ég er að mestu sammála þér um feita ketið. Ungu fólki finnst þetta skrýtið.

Ragnheiður, já þetta blótsyrði er óþarft. Svínakjöt er ágætt. Held að klukkunni líði illa.

Sæmundur Bjarnason, 10.5.2011 kl. 11:08

4 identicon

Var ekki NAFTA í eign Héðins Vald. og dótturfélag BP? Ég vann í 2 ár hjá BP og þar varð ég var við nafnið NAFTA, á áhöldum ESSO var bara SO, Standard Oil.

Ólafur Sveinsson 11.5.2011 kl. 18:44

5 identicon

Fyrir Sigurð Hreiðar. Punktinn vantar hjá mér fyrir aftan "áhöldum".

Ólafur Sveinsson 11.5.2011 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband