1355 - Fasistabeljan

SiggiJons TommiTGamla myndin
er frá Kalla Jóhanns. Hér eru þeir Siggi Jóns (Guðmundssonar smiðs) og Tómas Tómasson (Tommi á Kvennaskólanum) staddir við verslunina Reykjafoss.

Það er ekki mikill vandi að spinna upp svona sögur einsog ég gerði í gær. Það er samt ekki þar með sagt að sama sé hvernig þær eru. Þrennt þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi að sagan fljóti og sé trú mínum stíl. Í öðru lagi að bygging sögunnar sé í lagi og hún sé um eitthvað. Í þriðja og síðasta lagi þarf ég svo að vera sæmilega sáttur við söguþráðinn. Ekki er sama hvað gerist í sögunni því fáránleikinn og vitleysan verður að hafa einhvern tilgang.

Þegar ég spinn upp svona sögur (og set í bloggið - kannski held ég því áfram) reyni ég umfram allt að hafa þær ekki of langar. Þá er ég nefnilega svo hræddur um að fólk hætti að lesa. Ég er nefnilega þannig sjáflur að ef mér finnst eitthvað of langt missi ég allan áhuga á því.

Allt í einu helltist yfir mig vitneskjan um það hvers vegna ég er eins skrýtinn og ég er. Ég er nefnilega ekki nógu vel kolefnisjafnaður. Þessi mál voru heilmikið í fréttum fyrir skemmstu og ég man að ég sá á öllu að ég var ekki nærri því nógu kolefnisjafnaður. Man líka að ég ætlaði að bæta úr þessu hið bráðasta en nú man ég bara ekki hvernig átti að gera það. Minnir hálft í hvoru að það hafi átt að fara austur á Rangárvelli og planta tré þar. Það gæti samt verið vitleysa hjá mér og að planta tré án þess að þurfa þess gæti verið hættulegt svo ég held bara að ég bíði með að ráða bót á þessu.

Aðrir virðast geta fengið blogghugmyndir án þess að hafa nokkuð fyrir því. Hversvegna þá ekki ég líka? Sannleikurinn er sá að ég þarf nefnilega svo margar. Það er líklega svarið. Ég fer svo illa með þær. Til dæmis hefði verið leikur einn að gera meira úr þessu með kolefnisjöfnunina. Jafnvel allt uppí heilt blogg.

Las áðan pistil Jóns Daníelssonar um fasistabeljuna og allt það. Er ekki sammála honum um að það þurfi að óttast eitthvað um peninga þeirra Björns Vals og Þráins. Það er ágætt að þeir taki svolítið uppí sig. Vekur bara meiri athygli á ummælunum. Ekki er hætta á að Gulli og Þorgerður geti svarað fyrir sig og hvað er þá að óttast? Dómstólaræflana eða hvað? Ég held ekki. Þeir dæma menn kannski til einhverrar málamyndarefsingar en hvaða máli skiptir það? Auglýsingagildið er miklu meira.

Nú er ég beinlínis farinn að vona að vinstri menn haldi völdum til loka kjörtímabilsins. Bogaragerpin eru því miður ónýt en samt er líklegt að völdin haldist til vinstri. Kannski með hjálp frá þjóðlegum Gnarristum.

Hvað er maður svosem annað en efnafræðilega tilraunastofa. Tekur allskyns pillur úr hinum og þessum efnum í þeirri von að þau verði skynsamlega notuð af tilraunastofunni. Svo þegar öllu er lokið þá er þessu hrært saman við moldina aftur eða brennt til ösku. Iss bara.

Ekki veit ég hvað Íslandspóstur ætlar að gera við bréfin sem hugsanlega verða stíluð á mig á næstunni því ekki hef ég hugsað mér að merkja dyrabjöllina. Kannski ég prófi að skrifa sjálfum mér. Er jafnvel að hugsa um að moka ruslpóstinum aftur út sem þvælt er innum bréfarifuna okkar hér í Auðbrekkunni.

„Hvað ætli bókasöfnin í landinu séu mörg?"

„Það hef ég ekki hugmynd um."

„Ætli þau séu skyldug til að kaupa allar bækur sem út eru gefnar?"

„Kannski sum. Áreiðnalega ekki öll. Af hverju spyrðu?"

„Bara að spögúlera. Ætli það sé hægt að gefa út bók og treysta á söluna til bókasafnanna. Hafa bókina bara nógu dýra?"

„Varla. Svo er líka til eitthvað sem heitir skylduskil. Þú gafst einu sinni út blað. Þurftuð þið ekki að senda Landsbókasafninu og einhverjum öðrum eintök af því?"

„Jú, líklega. Annars held ég að prentsmiðjustjórinn hafi séð um það."

„Þetta er nú samt ágæt hugmynd. Ég held að það sé alltaf að verða ódýrara og ódýrara að gefa út bækur."

„Já, það er best að athuga þetta einhvern tíma. Kannski maður geti orðið ríkur á því að finna gat á kerfinu."

„Þá drífur einhver í því að loka því. En það getur tekið tíma. Þetta er kannski verkefni fyrir lögfræðing. Þeir eru vanir að sjá um sig."

Eftir því sem Ömmi segir þá eru ESB-andstæðingar langt komnir með að hrekja ríkisstjórnina frá ESB-stefnu sinni. Það er skaði því hætt er við að sú andstaða auki mjög útlendinga-andúð og þjóðrembing allan. Við því er samt lítið að gera og fjarri fer því að allir ESB-andstæðingar séu á móti aðildinni af misskilningi einum saman. Hjá því verður ekki komist að sumir græða minna á aðild en aðrir og gróðinn verður alls ekki allur í peningum mældur.

Heildarhagsmuni þjóðarinnar ber þó að hafa í huga. En ef ekki er hægt að sannfæra nema lítinn hluta þeirra sem til þarf um ágæti aðildarinnar er betra að draga úrslitin ekki óhóflega. Þjóðaratkvæðagreiðsla er nauðsyn og líklega er best að hún fari fram áður en næstu alþingiskosningar verða. Að ætla sér að hlaupa frá öllu saman akkúrat núna er þó augljós heimska.

IMG 5454Fín brú í Kópavogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

BLessaður Sæmundur, það er alltaf gaman að sjá gamlar myndir frá Hveragerði. Og þarna er bara einn bensíntankur  og svo Ingvarshús í Baksýn.

Varðandi kolefnisjöfnunina þá finnst mér alltaf sú umræða vera svolítið skrýtin. Því þar er verið að tala um tvö mismunandi  svið í sömu andránni. Eldsneytið sem fer á bílinn kemur úr varaforða jarðarinnar á kolefni sem er tekið úr langtímageymslu en tréð sem þú plantar fer einungis inni í hringrás samtímans.

Bestu kveðjur og þakkir 

Jóhannes F Skaftason 9.5.2011 kl. 11:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér um það, Jóhannes. Ég held að það þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því að bensínið gangi til þurrðar. Löngu áður en til þess kemur verður það orðið svo dýrt að fáir kaupa það. Kannski þarf heldur ekki að hafa áhyggjur af hnatthlýnuninni en það er þó umhugsunaratriði.

Sæmundur Bjarnason, 9.5.2011 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband