1301 - Bækur

Tryggð mín við Moggabloggið er ótrúleg. Það eru varla nema hörðustu íhaldsmenn sem halda þar jafnlengi áfram og ég. Þó er ég ekki íhaldssamur. A.m.k. finnst mér það ekki sjálfum. Svei mér ef lesendum mínum er ekki að fjölga. Moggabloggið er þó stöðugt að missa vinsældir sínar. Velti nokkuð mikið fyrir mér hvort vinsældir skrifa minna eða óvinsældir eru undir bloggstaðnum komnar. Finnst þeir ekki hafa gert rétt sem héðan hafa farið með hávaða og látum útaf einhverjum stjórnmálalegum ástæðum og held að oft hafi þeir séð eftir því.

Margir verða til þess að kommenta á bloggið mitt. Vissulega eru það oft þeir sömu og kommentin frá þeim verða oft nokkurskonar samtal. Nýir aðilar bætast þó alltaf öðru hvoru við og flestir eru þeir jákvæðir.   

Einn aðalgallinn við bloggið í sambandi við endurminningar er hve sundurlaust það er. Minningar þurfa helst að vera samhangandi og gera þarf ákveðnum tímabilum skil. Skapa þarf andrúmsloft með skrifunum og raða minningunum rétt niður. Það hentar ekki að setja það sem skrifað er á hverjum degi samstundis á bloggið. Annars er þetta auðvitað bara eitt vandamál af mörgum sem sá sem endurminningar vill skrifa verður að takast á við.

Fór á bókasöfnin í dag. Já, nú orðið þarf ég að fara oftar þangað en áður var vegna þess að á Borgarbókasafninu er búið að stytta lánstímann úr einum mánuði í 21 dag. Meðal bóka sem ég fékk lánaðar er bók sem heitir: „Encyclopedia of things that never were." Í þessari bók sýnist mér að margt athyglisvert sé og kannski skýri ég hér frá einhverju af því hérna. Auk þess fékk ég nýtt hefti af Söguþáttum landpóstanna og margt fleira.

Einnig fékk ég lánaða bókina: „Skáklist" sem listasafn Reykjavíkur gaf út árið 2009 í tilefni af sýningu sem þar var haldin. Þar eru myndir af mörgu athyglisverðu sem skák snertir en ekki er víst að ég geti mikið um þá bók hér. Afritun er með öllu bönnuð.

Þegar ég var yngri fannst mér ég geta allt. Ástæðan fyrir því að ég var ekki á þingi og ekki í ríkisstjórn var aðallega að sjálfsögðu sú að ég nennti því ekki og kærði mig ekki um það. Svo var málið þannig vaxið ennfremur að aðrir sáu ekki alltaf hæfileika mína enda var ég útsmoginn í að leyna þeim.

Þegar ég eltist og vitkaðist fann ég smám saman að aðrir vissu og gátu bara ýmislegt líka. Satt að segja voru þeir furðu margir. Nú á mínum efri árum finnst mér jafnvel að sumir standi mér framar. En það eru ekki margir.

IMG 4914Blóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

"Hvað ef" sagan getur verið skemmtileg. Hvað ef Stalín hefði haldið áfram að læra til prests eins og móðir hans vildi, ef Hitler hefði orðið vinsæll listmálari eins hans hugur stóð til, ef Napóleon hefði sótt um inngöngu í breska sjóherinn eins og hann ætlaði, o.s.f.r.

Moggabloggið setti mikið niður þegar Davíð fór að vinna fyrir Morgunblaðið og hefur ekki borið sitt barr síðan. Bestu bloggararnir fluttu sig þá um set eða hættu að blogga. - Pólitískt raus er alveg að gera út af við það og aðeins hörðustu fréttabloggara-nátttröllin eru eitthvað lesin að ráði, nema auðvitað Áslaug sem ekki tilheyrir þeim hópi. - Samt gerir mbl.is held ég sitt besta til að viðhalda fjölbreytni bloggsins, en fréttatengingarmöguleikinn ræður mestu um lesendafjöldann yfirleitt.

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.3.2011 kl. 08:41

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já og fréttatengingarmöguleikinn gerir blogginn hér í raun að athugasemdum. Já, Moggabloggið setti mikið niður þegar Davíð byrjaði en það er ekki víst að það sé eingöngu honum að kenna samt. Margt er enn gott við Moggabloggið og lesendafjöldinn skiptir ekki öllu.

Hvað ef Kastró hefði gerst körfuboltahetja eða Rússar ekki rekið Oswald heim aftur eða þú ekki komið aftur á Moggabloggið? Já það er gaman að þessu.

Sæmundur Bjarnason, 17.3.2011 kl. 10:19

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sennilega er það Smetta (Fésbók) sem hefur eyðilagt bloggið öðru fremur. Því miður er hún ekki fyrir sauði eins og t.d. mig. Ég skil hana ekki og get ekki séð út úr því sem við blasir hvernig á að nota hana -- allra síst svo komi að sama gagni og bloggið.

Hitt er annað mál að ég skil ekki hvers vegna menn fóru frá mblblogginu þó Davíð fengi vinnu hjá Óskari. Engu ræður Davíð um það hvernig eða hvort ég blogga og ég hygg að svo eigi við um ykkur hina líka. Vettvangurinn breyttist ekki vitundarögn þó afdankaður forsætisráðherra og seðlabankastjóri færi að vinna við prentmiðil sem engan veginn tengist þessum bloggvettvangi efnislega.

Sigurður Hreiðar, 17.3.2011 kl. 13:54

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér að flestu leyti, Sigurður. Hægt er þó að ímynda sér að Davíð gæti látið loka bloggum.

Fésbókin hentar greinilega sumum betur en blogg. Við því er ekkert að gera. En þeir sem ánægju hafa af bloggi ættu ekki að láta Davíð Oddsson eða Fésbókina letja sig við það. Það finnst mér einmitt að sumir hafi gert.

Sæmundur Bjarnason, 17.3.2011 kl. 14:32

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð grein að venju. :)

Sjálfur held ég tryggð við Moggabloggið þar sem kerfið er afar þægilegt í notkun. Ég hef prófað fjölmörg kerfi og loks sætt mig best við þetta.

Engin pólitík í þessu hjá mér heldur og keppist eins og þú við að leyna hæfileikum mínum, sem þó sleppa óvart stundum í gegn einhversstaðar.

Hrannar Baldursson, 18.3.2011 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband