1300 - Bloggað viðstöðulaust

Að sumu leyti á ég erfiðara með að blogga svona ört eins og geri eftir að ég er farinn að eyða eins miklu púðri í kommentasvörin og ég geri núorðið. Þau eru samt skemmtileg og líka auðvelda þau mér skrifin að sjálfsögðu. Oft eru þau svo mikið eftirá að það eru áreiðanlega mjög fáir sem lesa þau. Mér finnst ekkert athugavert við að skrifa bara um það sem ég hugsa mest um. Fréttir og þessháttar getur fólk fengið annars staðar. 

Ég er ekki að þessu bloggstandi til að fræða fólk, þó stundum detti mér í hug að blogga um einhvað þessháttar. Endurminningarnar eru líka orðnar svo sjaldgæfar að varla er það þeirra vegna sem ég er að þessu. Núorðið finnst mér að ég sé að svíkja lesendur mína ef ég skrifa ekki eitthvað á hverjum degi. Þetta er bara einhver tilfinning sem ég losna ekki við. Það byggist líka á einhverri tilfinningu hve löng bloggin eru hverju sinni.

Kannski er ég í gegnum bloggið að byrja að þekkja sjálfan mig betur. Ekki veitir af. Ef maður þekkir ekki sjálfan sig er útilokað að skilja aðra. En til hvers á maður að reyna að skilja aðra? Er ekki nóg að reyna að skilja sjálfan sig? Þó maður viti kannski meira um sjálfan sig en aðra er ekki þar með sagt að maður skilji allt sem maður gerir. Nei, þetta er orðið of háfleygt fyrir mig. Ég skil þetta ekki almennilega.

Það er skiljanlegt á margan hátt hvernig stjórnarandstaðan hagar sér. Ómögulegt er fyrir hana að ráðast að stjórninni á pólitískum forsendum. Þá reynir hún að notfæra sér kunna öfgamenn til að finna einhverja lagakróka í sambandi við Icesave og ESB og hengir sig síðan á þá. Landráðastipillinn sem reynt er að koma á alla sem ríkisstjórnina styðja á eftir að koma ESB-andstæðingum mjög illa.

Sjengis hinn enski (sem upphaflega er að ég held af einhverju öðru þjóðerni) segir að einhverjir vondir menn hafi neytt fyrirtæki sitt í greiðsluþrot. Þetta er sami söngurinn og hjá Jóni Ásgeiri ekki alls fyrir löngu. Auðvitað taka engir mark á þessu. Samt er það svo að flestir reikna áreiðanlega með að Kaupþingsmenn séu vitlausari aðilinn í samskiptum þessara delinkventa. Ekki er heldur ástæða til að ætla annað en að arabiski sheikinn hafi haft sitt að mestu á þurru í samskiptum við íslensku útrásarvíkingana.

IMG 4909Grænar eyjar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Heill og sæll,

Allir þessir bloggarar hafa hver sinn stíl, það er skemmtilegt. En í tilefni þessarar bloggfærslu þinnar, langar mig að segja þér að mér finnst iðulega gaman að lesa hugrenningar þínar.  Það er næstum eins og að fá að kíkja í dagbók ókunnugs manns,   sem venjulega stendur ekki til boða að lesa.

Svo eru myndskreytingarnar líka ávallt til prýði!   Lifðu heill

Jenný Stefanía Jensdóttir, 16.3.2011 kl. 02:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Jenný.

Ég les bloggið þitt stundum. Blogg finnst mér yfirleitt betri lesning en t.d. dagblöð því þar kemst maður nær fólki.

Sæmundur Bjarnason, 16.3.2011 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband