1296 - Menntun, ást og sorg

Slæmt er hvernig deilurnar um aðild að ESB og Icesavemálið virðast ætla að þróast. Ég hef áður sagt, að í mínum huga er Icesave ekki mjög stórt mál, en ESB er það óneitanlega. Æstir stuðningsmenn nei-sinna í því máli eru fljótir að senda alla sem verður á að sjá eitthvað jákvætt við ESB-aðild í landráðafylkinguna. Sjálfur hef ég víst verið þar lengi og sýnist vafasamt að umræðan um ESB-aðild komist uppúr þjóðrembu- einangrunar- og landráðafarinu. Þessvegna hef ég heldur forðast þessa umræðu en hitt að undanförnu. Hún á líka eftir að harðna en vonandi líka að færast á hærra plan eins og HKL mundi hafa orðað það. 

Fyrir nokkrum árum las ég bók eftir Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing. Sú bók fjallaði um einsögu og aðallega um tvo bræður á Ströndum. Heitið á bókinni var ansi langt en hafði að ég held eitthvað með menntun ást, og sorg að gera. Þeir höfðu haldið ítarlegar dagbækur fyrir um hundrað árum og komið víða við. Bók þessi fjallaði fyrst og fremst um þessar dagbækur og hugleiðingar höfundar í framhaldi af því. Mér fannst þessi bók afar athyglisverð og er ekki frá því að hún hafi haft áhrif á um hvað ég fjalla í bloggi mínu.

Kannski geri ég ráð fyrir að einhver kryfji til mergjar eftir svona hundrað ár það sem ég hef verið að skrifa hér í bloggið. Þeir sem þetta lesa verða þá allir, ásamt mér, komnir undir græna torfu og eitthvað enn vinsælla búið að taka við af blogginu (og fésbókinni). Kannski verða allir hættir að lesa fyrir löngu þá nema sagnfræðingar og líka getur auðvitað skeð að allt verði búið. Kjarnorkustyrjöld búin að geysa og lífið og blind náttúran byrjuð að gera tilraunir að nýju. Atlantis-skipulag okkar allt fyrir löngu gleymt og grafið.

Sagnfræði hefur í seinni tíð heillað mig meira en heimspeki. Verst er að ég þekki grundvöll hennar of lítið og er eflaust fullur af allskyns fordómum. Las í tímaritinu Sögu (frá 2009 minnir mig) ritdóm sem meðal annars fjallaði um þessa bók sem ég gat um hér áðan. Sá ritdómur var eftir Helga Skúla Kjartansson. Svo virðist sem þessi bók hafi verið upphafið að einhverri ritröð sem ég hef ekki kynnt mér mjög mikið. Sé að það er ákaflega misjafnt hvaða efni höfðar til mín. Enginn vafi sýnist mér þó að sagnfræði í heild sé mjög áhugaverð.

Íslenskar orðskýringar eru ekki alltaf flóknar. Ég hef tekið að mér að finna nokkrar einfaldar og fæ greitt fyrir það úr kristnisjóði. (Bara plat) Sú fyrsta er svona: Sá sem ætlar að gera eitthvað að líkindum ætlar að gera það við líkin af kindunum. Þetta er nú ósköp einfalt og auðskilið. Orðatiltækið er upprunnið í fjarkláðapestinni sem herjaði á landið um árið. Ef einhver segir að hann geti ekki á heilum sér tekið þá er hann líklega hálfur. Með öðrum orðum hreifur af víni.

Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest er stundum sagt. Þetta er því miður afbakað og misskilið. Venjulega þarf sá sem á stein sest að setjast a.m.k. tvisvar áður en það fer sæmilega um hann og þannig var málshátturinn notaður í öndverðu. Í upphafi skyldi endirinn skoða er stundum sagt en þetta á að vera þannig að upphafið skyldi endalaust skoða. Þannig mátti oft komast hjá áframhaldinu.

Þessi eða hinn er stundum sagður hafa skitið langt uppá bak. Þetta ber ekki að taka bókstaflega. Átt er við að maðurinn hafi greinilega staðið á höndum nýlega. Hugsanlega þá á höndum annarra og er máltækið þá orðið í flóknara lagi. Stundum er sagt að láta sverfa til stáls. Mig grunar að þar sé um að ræða afbökun og upphaflega hafi verið sagt „að hverfa til Páls". Þá þarf aftur að huga að því að í fornu máli merkir að „hverfa til" að faðma. Og svo er því ósvarað hvaða Pál er um að ræða. Kannski er ég að gera einfalt mál flókið.

IMG 4824Listaverk á Tenerife.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Endilega halda áfram að segja að Icesave sé lítið mál, túnglið sé úr osti, að grísir séu með vængi og geti flogið milli pláneta...

Annað af pislinum bara ágætis afþreying og ekkert fram yfir það...

Óskar Arnórsson, 12.3.2011 kl. 00:26

2 identicon

Sæmundur munt þú segja Já við Icesave.? Ef svo er að þá hefur þú ekkert leyfi til þess,þú skalt átta þig á því að barnabörnin þín,koma til með að þurfa að borga þennan óútfyllta víxil sem( Landráða)Jóhanna,og hennar meðreiðarsveinn hann Steingrímur J arga og garga að þjóðinni að samþykkja. Hvílík illska hjá þeim sem munu játast þessari kúgun og taka mark á hræðsluáróðri Ríkisstjórnarinnar. Heldurðu að barnabörnin þín muni þakka þér með hlýju faðmlagi að koma þeim og börnum þeirra í þennan Icesave - klafa.?  Björgólfarnir og glæpagengi þeirra hlæja líklegast einhversstaðar á einhverri aflandseyjunni,af óförum mörlandans,og hafa gaman af. Já blessaður Sæmundur segja þeir borgaðu endilega fyrir okkur og síðan skála þeir í gullbrydduðum kampavínsglösum og éta gullskreyttar steikur og hlæja enn á fullu yfir einfaldleika landa sinna.   NEI ICESAVE  NEI  E S B

Númi 12.3.2011 kl. 00:47

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar Arnórsson er gáfaðasti Íslendingurinn sem gengið hefur á Jörðinni. Ég endur tek; Óskar Arnórsson er gáfaðasti Íslendingurinn sem gengið hefur á Jörðinni. Ég endurtek;........

Sæmundur Bjarnason, 12.3.2011 kl. 07:39

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Númi, þú hefur ekkert leyfi til að segja nei við neinu. Ég banna það.

Sæmundur Bjarnason, 12.3.2011 kl. 07:40

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Kannski viltu einhvern tíma segja okkur hvað verður svo gott við að segja já við ESB. Vera má að þú sért búinn að því, en ég amk. þarf að fá það útlistað oftar en einu sinni.

Um Icesave: ég hygg að börn okkar og barnabörn, ef einhver verða áfram á landinu, muni þakka okkur fyrir að segja já við Icesave og losa landið úr freðböndum þeirrar plágu.

Sigurður Hreiðar, 12.3.2011 kl. 08:49

6 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk Sæmi. Ég var ekki alveg viss áður, enn eftir þessa staðfestingu þá er ég það að sjálfsögðu...

Óskar Arnórsson, 12.3.2011 kl. 08:51

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður. Er ekki búinn að ákveða neitt varðandi atkvæðagreiðslur. ESB-atkvæðagreiðslan er líka einhvern tíma í framtíðinni en miðað við hver staða mála er núna geri ég frekar ráð fyrir að samþykkja aðild að ESB. Það er alltof langt mál að útskýra nákvæmlega af hverju.

Sæmundur Bjarnason, 12.3.2011 kl. 09:15

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, mig grunaði það, að það væri ekki hrist fram úr erminni. Hvorki auðskýranlegt né auðskilið.

Sigurður Hreiðar, 12.3.2011 kl. 13:19

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður, mér finnst ekkert sjálfsagðara og auðskildara að vera á móti aðild. Mér finnst ekki síður þörf á að útskýra það.

Sæmundur Bjarnason, 12.3.2011 kl. 15:48

10 identicon

Sigurður Hreiðar,hugsar til framtíðar,,eða hitt þó heldur. fuss og svei,en ekki vei.

Númi 12.3.2011 kl. 17:47

11 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Útskýring móti aðild byrjar strax að forma sig þegar litið er til hvernig Grikkjum, Írum, Ítölum og Portúgölum farnast í þessu kompaníi.

Sigurður Hreiðar, 12.3.2011 kl. 18:34

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kannski er ekki útséð með hvernig þessum þjóðum farnast, Sigurður. Held ekki að þær sjái mikið eftir að hafa farið í þetta kompaní.

Sæmundur Bjarnason, 12.3.2011 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband