1269 - Félag frístundamálara

Fór í gærkvöldi á málverkasýningu í Víkinni - Sjóminjasafninu við Grandagarð í Reykjavík. Þessi sýning er á vegum félags frístundamálara. Skilst að það hafi einmitt verið svokölluð safnanótt í gærkvöldi og fólki boðið uppá að flækjast milli safna með strætó. Sá einn slíkan en fór ekkert með honum því ég var sjálfur á bíl.

Ástæðan fyrir því að ég var þarna var einkum sú að konan mín á tvö verk á sýningunni. Annars vegar er um að ræða olíumálverk (með vísum) af bátsflaki og hins vegar vatnslitamynd af tveimur ýsum. Þarna var margt athyglisvert að sjá. Bæði á málverkasýningunni sem var á neðri hæðinni og svo líka á efri hæðinni þar sem er sjóminjasafnið sjálft. Skora hérmeð á alla sem þetta lesa að fara á þessa sýningu. Auk þess að vera opin þegar safnið er opið skilst mér að hún verði líka opin um helgar næsta mánuðinn eða svo.

Nú er auglýsingatíminn liðinn og ég get farið að ausa úr minningasjóðnum og sletta úr fordómapokanum.

Hér segir frá ferðalagi sem mér af einhverjum ástæðum kom allt í einu í hug.

Ein af þeim ferðum sem ég fór á unglingsárunum er mér ofar í huga en margar aðrar. Ekki man ég með neinni vissu hve gamall ég var þegar þessi ferð var farin en hvolpavitið hefur ekki verið komið í mig þá. En nánar um það seinna.

Það var Guðmundur Wium sem var fararstjóri í þessari ferð og líklega var hún farin um páskana. Man vel að það var snjór yfir öllu. Líklega höfum við verið sjö eða átta í ferðinni og Guðmundur elstur okkar. Við hinir höfum líklega allir verið jafnaldra. Þarna gætu Atli Stefánsson, Jóhann Ragnarsson, Lárus Kistjánsson og fleiri hafa verið auk mín. Ég man það bara ekki.

Í mínum huga hefst ferðin í skálanum í Klambragili innst í Reykjadal ofan Hveragerðis. Hvernig við komumst þangað man ég ekki enda fórum við oftsinnis þangað og frá skálanum þar í gönguferðir um nágrennið.

Eins og fyrr segir var þessi ferð farin að vetrarlagi og kvöldið fyrir ferðina sjálfa er mér minnisstætt því þegar við höfðum fengið okkur heitt kakó sem gert var með þeim einfalda hætti að hveravatni var blandað saman við kakóduft háttuðum við og fórum ofan í svefnpokana okkar.

Kalt var í skálanum. Eins og venjulega var hitunarkerfið þar í ólagi og því látið loga á einum prímusi á gólfinu dálítið frá kojunum. Þegar allir voru komnir í ró þaut Guðmundur upp úr sínum svefnpoka til að slökkva á prímusnum. Ákvað þó að nota hann áður til að hlýja sér aðeins. Stillti sér því upp þar sem hitinn var mestur með fæturna sitt hvoru megin við prímusinn. Hann var einungis klæddur hvítum nærfötum og hitinn lék því um fætur hans og þangað sem hans var víst mest þörf.

Tekur þá ekki prímusinn allt í einu uppá því að leika eldvörpu. Logandi eldtungan stóð semsagt uppúr honum í háaloft. Guðmundi brá auðvitað óskaplega en tókst þó að slökkva á prímusnum og brenndist ekki. Fórum við síðan að sofa en minnisstætt er þetta atvik.

Í orði kveðnu a.m.k. var þessi ferð á vegum Skátafélags Hveragerðis og morguninn eftir var ákveðið að fara í heimsókn til skáta sem við vissum að dvöldu í skálunum undir Skarðsmýrarfjalli. Guðmundur fullyrti að þetta væri auðveld leið og fljótfarin en við hinir höfðum aldrei farið þetta áður en vorum því samt síður en svo andsnúnir.

Mig minnir endilega að skálar Skátafélags Reykjavíkur undir hlíðum Skarðsmýrarfjalls hafi á þessum tíma verið þrír en man bara nöfnin á tveimur þeirra. Jötunheimar og Þrymheimar hétu þeir.

Var nú lagt af stað í þessa ferð og fyrst haldið uppúr Klambragilinu. Síðan tók við ferð sem okkur yngstu skátunum a.m.k. þótti óhemjulöng. Vinsælasta setningin hjá okkur var sú að skálarnir væru „hinum megin við hitt fjallið" og fékk sú setning sérstaka merkingu í mínum huga sem ekki hefur yfirgefið mig síðan.

Um síðir komumst við þó á leiðarenda og var vel tekið. Líklega var þar um að ræða skálann Jötunheima. Reykjavíkurskátunum fannst það vel af sér vikið hjá okkur að hafa komið gangandi alla leið úr Reykjadal og var ekki laust við að við værum svolítið kotrosknir yfir því.

Tvennt var það sem mér þótti merkilegast í Jötunheimum. Í fyrsta lagi lærðum við þar að spila  borðtennis og var það afburða skemmtilegt. Litlum borðum sem voru fimm talsins eða svo var raðað saman á miðju gólfi og lágt net haft á borðinu í miðjunni. Síðan var tenniskúlan slegin fram og aftur með þar til gerðum spöðum. Þessu þarf auðvitað ekki að lýsa nánar fyrir þeim sem einhvern tíma hafa spilað borðtennis. Verst var að bakvið annan þátttakandann logaði eldur á arni og ef kúlan lenti þar þurfti að vera vera handfljótur að sækja hana ef hún átti ekki að fuðra upp í eldinum. Oftast tókst það samt en ekki alltaf. Sem betur fór voru allmargar kúlur meðferðis svo ekki þurfti að hætta leik þó ein kúla fuðraði upp.

Hitt atriðið sem vakti furðu mína var að nokkrir eldri skátar lágu uppi í rúmi í faðmlögum við stelpur. Slíkt hefði mér aldrei dottið í hug því stelpur voru eitthvað sem ég hafði andstyggð á um þetta leyti.

Eftir nokkurra klukkutíma dvöl þarna og talsverða kakódrykkju auk tennisleiksins héldum við síðan heim á leið. Sú ferð er mér ekki á nokkurn hátt minnisstæð hvernig sem á því stendur.

Harpa Hreinsdóttir fer sem logi yfir akur um bloggheima um þessar mundir. Hún bloggar, les blogg (þar á meðal mitt - held ég), skrifar athugasemdir hér og þar, fésbókast heil ósköp o.s.frv. Þetta finnst mér a.m.k. Er eitthvað rangt við það? Nei, síður en svo. Svona vildi ég einmitt vera. Athafnasemin á samt ekki vel við mig. Þykist alltaf vera betri og merkilegri en aðrir.

Af hverju er ég að tala um þetta? Jú, hún er gift systursyni mínum og er lengi búin að vera bloggmeistari fjölskyldunnar. Öfunda ég hana af því? Já, svolítið. Reyni að blogga sjálfur sem mest. Ferst það stundum bærilega. Held ég. Hún er einn af þeim bloggurum sem ég hef gegnum árin tekið mér hvað mest til fyrirmyndar. Finnst hún samt oft of persónuleg og dómhörð. Bloggar samt ekki á hverjum degi eins og ég er að rembast við að gera. Á heldur ekki gott með það því hún er alls ekki heilsuhraust.

IMG 4255Garachico-bær á Tenerife.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

uss.. rétt náðir mér áður en ég fór að sofa...

takk fyrir skemmtilega sögu og nú er ég kominn í Pink floyd stuð ... eða Rogers Waters stuð..

http://www.youtube.com/watch?v=nwDzATryei8&feature=related

Óskar Þorkelsson, 13.2.2011 kl. 00:47

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hörpu les ég því miður sjaldan en athugasemdir hennar eru góðar.

Axel Þór Kolbeinsson, 13.2.2011 kl. 01:24

3 identicon

Logi yfir akur?  Og skil væntanlega eftir mig sviðna jörð? ;)

Jú, Sæmundur, ég les bloggið þitt að sjálfsögðu daglega ;) 

Harpa Hreinsdóttir 13.2.2011 kl. 07:19

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar, munur að ég náði þér samt. Annars hugga ég mig við að þú hefðir lesið þetta blogg bara seinna.

Sæmundur Bjarnason, 13.2.2011 kl. 08:27

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Axel, um að gera að lesa bloggið hennar Hörpu. Enginn verður svikinn af því.

Sæmundur Bjarnason, 13.2.2011 kl. 08:28

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Harpa, þú talaðir um sviðna jörð, ekki ég. Auðvitað er þetta umdeilanlegt orðalag en það er svo margt orðalag undarlegt hjá mér. Fannst mér bara takast vel upp með ferðafrásögnina samt. Betur en ég bjóst við.

Sæmundur Bjarnason, 13.2.2011 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband