1140 - Ammæli

Mér finnst ég ekki þurfa að taka þátt í þeim pólitíska hráskinnaleik sem nú er stundaður. Þingmenn segja unnvörpum að nú þurfi að setja þjóðarheill ofar flokkshagsmunum en meina lítið með því. Aðallega að nú eigi allir að hugsa eins og þeir. Í stuttu máli sagt: Flokkshagsmunir eru okkar æðsta boðorð. Flokkurinn (með stóru effi) kom okkur í þessa valdaaðstöðu og ef við glötum henni er Flokknum tortíming vís. Það er óþarfi að reyna að leyna þessu. Þetta vita allir.

Átti afmæli í gær og þó það væri ekkert merkisafmæli fékk ég fullt af kveðjum á Fésbókinni og meira að segja eina afmælisgjöf.

Árið 2009 var metár í fæðingum hér á Íslandi. Þá fæddust 5027 börn og þar af 2466 stúlkur. Ein þeirra var afa- og ömmustelpan Tinna. Hún verður eins árs í næsta mánuði og er efnileg mjög. Löngu farin að ganga og við föðurforeldrarnir bíðum bara eftir að hún fari að tala. Skiljum reyndar nú þegar margt af því babli sem hún lætur sér um munn fara.

Á Fésbókinni talar hver upp í annan en mesta furða er hve margt kemst til skila. Engum er ætlandi að fylgjast með öllu sem þar fer fram. Sú meinloka virðist hinsvegar hrjá suma bloggara að þeir geti lesið öll blogg eða a.m.k. öll þau sem einhver veigur er í. Það er samt tómur misskilningur og veldur sumum oflestri. Hann lýsir sér einkum í því að viðkomandi er ekki málum mælandi og finnst hann sífellt vera að missa af einhverju. Hlustar á fréttir á harðahlaupum. Má helst ekki vera að neinu nema lesa og lesa.

IMG 2946Myndasögufígúrur á húsvegg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með afmælið.

Hólímólí 15.9.2010 kl. 08:49

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hráskinnaleikur er skemmtilegt orð, enda mikið notað. Oftast er það notað saman með orðinu pólitík, eins og þú gerir, svo oft að ég hellt lengi vel að það væri eina nothæfa samhengið. Svo fann ég þetta á netinu

Hráskinnaleikur var leikinn til forna. Hann er knattleikur og er einn knöttur (bolti) notaður í leiknum. Til forna var knötturinn gerður úr skinni sem var vöðlað saman til að líkja eftir eins konar bolta.

Þátttakendur í þessum leik eru fimm. Fjórir þeirra taka sér stöðu, hver í sínu horni, en sá fimmti er á miðju gólfi. Hann er „úti“. Þeir sem eru í hornunum kasta knettinum á milli sín en sá sem er úti reynir að ná honum. Hann má beita ýmsum brögðum til að ná knettinum önnur en að grípa. Til dæmis má hann hrifsa boltann af þeim sem grípur, reyna að hindra þann sem grípur eða beita hann glímubrögðum.

Í þessum leik má þó ekki meiða andstæðinginn frekar en í öðrum leikjum.

Það er talvert öðruvísi enn í pólitíkinni. Þar meiðast allt of margir.

ps. Til hamingju með framtíðina

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.9.2010 kl. 08:58

3 identicon

Hver vinnur í hráskinnaleik? Og hvernig?

Hólímólí 15.9.2010 kl. 09:10

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir góðar óskir og takk Svanur fyrir fróðleikinn. Ég held að hráskinnaleikur taki nafn sitt af hráu skinni eins og Svanur nefnir. Til forna hefur þetta nafn kannski verið notað um ýmsa leiki. Alltaf held ég hafi fylgt þeim læti mikil og fyrirgangur og að þessvegna hafi nafnið festst í málinu.

Hólímóli kannski hefur leikurinn verið endalaus. Líklega komst sá sem úti var í höfn með að ná boltanum og sá sem missti hann hefur þurft að vera hann. "Að vera hann" í leikjum er skemmtilegt rannsóknarefni og oftast jákvætt.

Sæmundur Bjarnason, 15.9.2010 kl. 09:52

5 identicon

Ég er að fatta að ég hef aldrei fattað hvað hraskinnaleikur er í raun og veru. Nú get ég notað orðið í réttu samhengi og mun auk þess eiga auðveldara með að sjá þegar aðrir nota það í röngu samhengi. Þá mun ég leiðrétta grimmt hér eftir.

Alltaf skal maður nú hafa gagn og gaman af Sæmundarbloggi.

Hólímólí 15.9.2010 kl. 10:36

6 identicon

Til hamingju með afmælið, megir þú eiga mörg önnur afmæli.. nema ef þú vilt það ekki ;)

doctore 15.9.2010 kl. 11:34

7 identicon

Sæll Sæmi.

Ég er ekkert að óska þér til hamingju með aldurinn en heill þér samt.

Og heill þeirri litlu sem á afa hér.

Merkilegt að þú skulir ekki sjá mun á feisbúkk og bloggi, alltaf að tönglast á þessu maður.

Ætlast kannski til að við útskýrum þetta fyrir þér

Annars flott mynd; eins og venjulega.

 

Kveðja,

Gudmundur Bjarnason 15.9.2010 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband