934 - Hrafn Gunnlaugsson

Einu sinni var ungur maður. Hann hafði gaman af að skrifa. Þegar Menntaskólanáminu lauk gáfu foreldrar hans honum kvikmyndatökuvél. Þau héldu nefnilega að hugur hans stæði til frama á því svið. Svo var þó ekki. Ungi maðurinn vildi nefnilega frekar skrifa. Ákvað að fara til Svíþjóðar og skrifa þar. En hann átti enga ritvél. Ekki lét hann það þó stöðva sig heldur setti auglýsingu í Morgunblaðið um að hann vildi láta kvikmyndatökuvél í skiptum fyrir ritvél. Þessi ungi maður hét Hrafn Gunnlaugsson og heitir enn. 

Hér er það sem ég kem til sögunnar. Þegar þetta var þá var ég nýútskrifaður af Samvinnuskólanum og átti ritvél (vandaða Erica ferðaritvél) sem ég hafði orðið að kaupa mér. Á Samvinnuskólanum var nefnilega kennd vélritun. Ég hafði talsverðan áhuga á ljósmyndun allskonar og hafði fiktað við að framkalla sjálfur. Ég svaraði því auglýsingunni og skipti (að mig minnir á sléttu) við Hrafn.

IMG 1187IMG 1184Hér eru myndir af þessari kvikmyndatökuvél. Ég á hana nefnilega ennþá og Hrafn hefur engan áhuga á henni. Ég hef spurt hann að því. Samt er þetta hugsanlega fyrsta kvikmyndatökuvélin sem hann eignaðist og hann er miklu þekktari fyrir kvikmyndagerð en bókmenntaskrif. Veit samt að hann hefur fengist við slíkt. Er jafnvel ekki grunlaus um að hann hafi bloggað. Örugglega samt ekki mikið og ekki oft. Nenni ekki að gúgla nafnið hans. Aðrir geta gert það ef þeir vilja.

Var um daginn að taka til í drasli hjá mér og rakst þá á þessa vél og eins og hendi væri veifað rifjaðist þessi saga upp fyrir mér.

Vélin er hér með auglýst til sölu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég býð forláta ritvél. á sléttu

Brjánn Guðjónsson, 17.2.2010 kl. 00:19

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Úr landi Sæmi hrakti hrafn,
en hann er kominn nú á safn,
af krummum ætíð hrifinn Hrafn,
og hrikalega stórt hans nafn.

Þorsteinn Briem, 17.2.2010 kl. 02:26

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þótt ofmat margan manninn blekki
mistök Hrafns í byrjuninni
Skrattanum að skemmta ekki
og skila Sæma ritvélinni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 17.2.2010 kl. 03:58

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Með þessa kynningu á ensku og með lista um myndir Hrafns á IMDB ættirðu að setja vélina á e-bay uppboð. Þú gætir nefnilega fengið góðan pening fyrir þetta.

Hrannar Baldursson, 17.2.2010 kl. 05:42

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini og Jói stanslaust nú
stökur semja bara.
Eru soldið útúr kú
og ekki létt að svara.

Sæmundur Bjarnason, 17.2.2010 kl. 05:54

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Hrannar. Þetta er ekki galin hugmynd.

Sæmundur Bjarnason, 17.2.2010 kl. 05:57

7 identicon

Ég hef mögulega áhuga.

Ertu með verðhugmynd?

Æ

Ari Eldjárn 17.2.2010 kl. 11:26

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Snjöll hugmynd, þetta með e-bay

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2010 kl. 12:34

9 Smámynd: Njörður Helgason

Sæmundur, þetta er merkisgripur. Sögulegt tæki sem Krumminn notaði þegar ungur hann var. Gunnlaugur hefur séð soninn verða Fellini norðursins.

Krumminn hefur átt þokkalega spretti.

Þessi sögulega vél væri best geymd á Kvikmyndasafni Íslands.

Njörður Helgason, 17.2.2010 kl. 12:58

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Brjánn. Hef ekkert við ritvél að gera. Allavega ekki venjulega. Takk samt.

Ari. Hef enga verðhugmynd. Ef ég set hana á e-bay set ég samt sennilega lágmarksverð á hana. Veit ekki hvað það verður.

Njörður. Veit ekki hvort Hrafn hefur nokkurn tíma notað hana. Sjálfur notaði ég hana lítið og hún er í góðu lagi.

Sæmundur Bjarnason, 17.2.2010 kl. 14:02

11 Smámynd: Njörður Helgason

Hrafn hefur kannski leitað að steinum með fiski undir?

Njörður Helgason, 17.2.2010 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband