933 - Um pöddur og fleira

Mörgum eru pöddur hugleiknar. Séra Svavar Alfreð Jónsson skrifar á sitt blogg um daginn af mikilli innlifun um skordýralíf á Ítalíu. Í janúar dvaldi ég í fjórar vikur á Kanaríeyjum. Einna mest kom mér á óvart að þrátt fyrir allan hitann þarna var pöddulíf allt fremur fátæklegt. Pínulitlir maurar voru að vísu nokkuð algengir en aðar pöddur vart finnanlegar og flugur fáar.

Þar sem við dvöldum fyrstu tvo dagana voru maurarnir nokkuð aðgangsharðir og einn kakkalakki sást þar. Ekkert slíkt var á staðnum sem við fórum síðan á. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að á Gran Canary séu skorkvikindi afar fá en túristar aftur á móti algengir. Marga slíka sáum við og flesta berleggjaða ef ekki berari en það.

Margt er forvitnilegt um náttúrufar á Kanarí-eyjum. Ég get þó bara um Gran Canary talað því öðrum eyjum þar kynntist ég sáralítið. Millilent var að vísu á Tenerife bæði á niðureftirleið og heimleið en stoppið var stutt og ekki farið einu sinni útúr flugvélinni.

Talsvert er ræktað þarna af allskyns ávöxtum. Tómatarækt er mikil og bananarækt talsverð. Gróðurhús eru þarna oftast nær eingöngu úr plastyfirbreiðslum sem hrófað er upp með spýtum. Hef fyrir satt að það sé einkum til að verjast morgundögginni sem setur gjarnan bletti á tómatana þegar hún þornar og af einhverjum ástæðum virðast bananaplöntur þrífast betur undir plasti en án þess.

Fjöll eru þarna mörg tilkomumikil og brött. Víða eru hrjóstrug svæði og ekki mikið gróin sunnantil á eyjunni vegna þurrka. Kaktusar vaxa víða og pálmatré eru útum allt. Þar sem skilyrði eru góð er allt umvafið gróðri og fiðrildi bæði stór og litfögur víða á sveimi. Fuglalíf er talsvert og þeir skrautlegir mjög. Mávar fáir og aðeins nýlega búnir að nema þarna land að sagt er.

Ekki er vitað með vissu hvenær menn komu fyrst til eyjanna. Löngu fyrir Krists burð hefur það samt verið og líklega voru þeir ættaðir frá Egyptalandi. Hafa eflaust komið á bátum eða flekum en siglingar stunduðu þeir þó alls ekki. Spánverjar lögðu eyjarnar undir sig seinni hluta fimmtándu aldar og sagt er að Kólumbus hafi lagt þaðan af stað í hina frægu Ameríkuferð sína. Einnig þjónaði Franco hershöfðingi þar áður en hann gerðist einvaldur á Spáni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fáar pöddur Sæmi sá,
í sollinum á Spáníá,
skroppið hafði Franco frá,
í fjári djúpum skít þar lá.

Þorsteinn Briem, 16.2.2010 kl. 00:42

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þótt kvenfólkið á Kanarí
klæðist bara bikiní
Sæmi ekkert sinnir því
svamlar bara sjónum í

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.2.2010 kl. 05:13

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Yrkja mikið allir hér
enga vilja svíkja.
En sumar vísur sýnast mér
frá sannleikanum víkja.

Sæmundur Bjarnason, 16.2.2010 kl. 09:40

4 identicon

Þið félagar. Dáist að skáld gáfum ykkar. Tekur bara 5 tíma að yrkja vísu?

Ólafur Sveinsson 16.2.2010 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband