929 - Kosningabaráttan hófst í dag

Svo segir í Icesave-tengdri frétt í Mogganum. Þegar ég klikkaði á þessa frétt í tölvunni minni fór vídeó af stað án þess að ég bæði um það. Einhverra hluta vegna var ekkert hljóð með myndinni. Það gerði svosem ekki mikið til. Ég skynjaði strax að þarna var verið að tala um kosningabaráttu vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fara á fram 6. mars n.k. Hins vegar skynjaði ég ekki nógu vel af hverju þeir menn sem þarna birtust á sakamannabekk með nafnspjöld og allt voru þar.

Sennilega skiptir það ekki miklu máli því með öllu er óljóst um hvað verður kosið. Vel getur samt verið að það skýrist þegar nær dregur. Nýjustu fregnir af Icesave benda samt ekki til þess að málin séu að skýrast. Sennilega er mikill meirihluti fyrir því að samþykkja ekki lögin. Ríkisstjórnin virðist leggja mikla áherslu á að ná samkomulagi við sem flesta um eitthvað annað en það sem stendur í lögunum sem Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir. Þá þarf hún sennilega ekki að segja af sér. Svo er líka hægt að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna með því að draga til baka lögin sem um er deilt. Fyrir því er fordæmi.

Nú er rifist um það hvort 170 þúsund eða 230 þúsund manns hafi farist í jarðskjálftanum mikla á Haiti 12. janúar. Mér finnst það litlu skipta. Þetta er með allra mestu hamförum sem dunið hafa yfir heimsbyggðina. Icesave-aumingjaskapurinn verður næstum hlægilegur í samanburðinum. Afleiðingar skjálftans eru miklu verri en þurft hefði að vera. Haiti-búum hefur verið haldið lengi í fátæktargildru og stjórnvöld eru óhæf til alls. Ábyrgð á öllu þessu bera margir. Ekki síst þau fyrirtæki sem makað hafa krókinn á þessu svæði.

Hver er tilgangur lífsins?
Er einhver tilgangur með því ?
Ég efast um það.
Efast um allt.
Jafnvel efann sjálfan.

Ég kann ekki við þetta. Síðasta blogg mitt var í lélegra lagi. Fannst mér sjálfum að minnsta kosti. Samt eru gestir mun fleiri nú en verið hefur að undanförnu. Þá er ég ekki bara að tala um það næstum mánaðarfrí sem ég tók mér í janúar heldur er ég að miða við mun lengra tímabil. Þetta sýnir mér bara að það sem ég held að sé til vinsælda fallið er það líklega alls ekki. Ekki mín fyrsta vitleysa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þú þarft ekki að eltast við vinsældir. Þú ert góður eins og þú ert.

Hrannar Baldursson, 12.2.2010 kl. 11:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Hrannar. Einhvern vegin er það svo að manni finnst maður þekkja þá sem kommenta oft hjá manni. Auðvitað erum við ekki alltaf sammála, en hvað um það?

Sæmundur Bjarnason, 12.2.2010 kl. 20:51

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Rétt, við erum ekki alltaf sammála, en hins vegar leitum við báðir að hinu sanna og að skynsamlegri niðurstöðu og jafnvel pælingum um skynsemina sjálfa. Við höfum gaman af skák og ljóðum, stílbrögðum, og er umhugað um samfélagið okkar. Skrifum báðir um ICESAVE, óréttlæti og spillingu þó að það er sjálfsagt eins fjarri því sem maður óskar sér að eyða tímanum í og hugsast getur. Erum svolítið hégómagjarnir stundum í tengslum við lesendatölur og vinsældir, en skömmumst okkur ekkert fyrir það, því við fáum ánægju út úr því þegar fleiri fá eitthvað út úr blóðdropum sálarinnar sem flæða út um fingurgóma. Ætli við séum ekki aðeins meira en bloggvinir, hugsanlega bloggbræður?

Hrannar Baldursson, 12.2.2010 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband