2106 - Áfir

Ásgautsstaðamálið fer víst ekki neitt. Árborg heldur áfram á sinni vegferð, þó sú braut leiði sennilega að lokum til ófarnaðar. Það var þann 10. desember s.l. sem ég minntist fyrst á þetta mál og hef haldið því áfram síðan. Þeir sem lesa bloggið mitt að staðaldri eru sjálfsagt orðnir hundleiðir á þessu. Best að hætta.

Setjum nú sem svo að Gunnar Bragi sigri í málshöfðun sinni gegn Evrópusambandinu (er hann ekki örugglega að reyna að fá þessa þorskhausa til að hætta að ausa í okkur peningum?) Verður hann þá ekki að halda viðræðum eitthvað áfram? Þó ekki væri nema til málamynda. Gerum jafnvel ráð fyrir að sambandsmenn komi með svo gott tilboð að samninganefndin samþykki það. Verður þá ekki að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla og er það ekki einmitt það sem Gunnar Bragi óttast mest?  Simmi segist alveg geta sofið rólegur vegna þess. Óvíst er með aðra. Bjarna langar áreiðanlega til að samþykkja, ef hann getur gert Hönnu Birnu óskaðlega fyrst.

Ekki þreytist ég á að hallmæla fésbókinni. Share if you see „hitt eða þetta“. Með er svo birt einhver hundómerkileg 100 ára gömul felumynd. En hvað verður gert við þá sem sjá en séra ekki? Verða þeir drepnir? Best að taka enga sénsa. Annars er svona fyrirskipanatónn hundleiðinlegur. Mér finnst að það hljóti að vanta eitthvað í þá sem standa fyrir svona séringum.

Mér er nær að halda að það breyti ekki nokkrum sköpuðum hlut þó farið verði að fikta í klukkunni. Auðvitað er ekki hægt að banna það frekar en það er hægt að banna Jóni Steinari að tala, eða öllu heldur skrifa. Ég er nefnilega alls ekki sammála honum, Sigurði Líndal og Brynjari Níelssyni um að últra-íhaldssemi sé alltaf til bóta. Dómskerfið breytist eins og annað hér á Íslandi. Tungumálið hefur reyndar breyst ákaflega lítið í aldanna rás, eftir því sem sagt er. Sennilega er það þessvegna sem við erum svona skrýtin.

Nú er ég búinn að finna bók um REI-málið. Hún heitir reyndar „Sjúddirari rei“ og það er ekki alveg víst að hún fjalli um REI-málið sem ég ætlaði að kynna mér. Það mál var um Orkuveituna, Borgarstjórn Reykjavíkur og jafnvel sjálfstæða framsóknarflokkinn. Þessi bók virðist vera um einhvern Gylfa Ægisson og kannski er það bara aftast í bókinni sem fjallað er um REI-málið. Þetta átti nú að vera brandari en er það kannski ekki.

Bónusverð á rjómalítra og smjörkílói eru sambærileg. Er þetta svona og á það að vera þannig? Vekur rangt verð litla athygli neytenda þegar vörur kosta mörg hundruð krónur? Kartöflukíló gera það ekki. Mér skilst að ekki sé nóg að veifa einhverjum töfrasprota yfir rjómanum svo hann verði að smjöri, heldur þurfi meira til og áfirnar sem afgangs verða við vinnsluna séu lítils virði. Írska Evrópusambandssmjörið flækir líka málið. Þar að auki segja sumir að það þurfi 2 og hálfan lítra af rjóma til að gera eitt kíló af smjöri. Þurfum við vesalings neytendur að vera sérfræðingar í öllu? Er engum hægt að treysta?

Margir umhverfissinnar óska þess sjálfsagt að umhverfisráðherra umhverfist í afstöðu sinni til Þjórsárvera. Annars virðist þetta vera allflókið mál og ekki að vita hvernig það fer. Það eru ekki síður umhverfisverndunarsinnar (alltof langt orð) sem flækja málið. Mér sýnist umhverfisráðherra vera að ganga erinda Landsvirkjunar í þessu. Kannski er það eðlilegt. Eðlilegt væri líka að viðurkenna það ef svo er.

IMG 5832Gamlárskvöldið undirbúið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband