2108 - Hakkaður eða lakkaður

Ásgautsstaðamálið lætur mig ekki í friði. Ég hef lofað sjálfum mér því að minnast á það í hverju bloggi þangað til eitthvað gerist í því. Konan mín á semsagt ásamt systkinum sínum einn níunda hluta jarðarinnar en Árborg (áður Selfoss) nýtir jörðina einsog lögmæta eign. Hefur selt byggingarland á henni o.s.frv. Lögfræðingur hefur haft þetta mál til meðferðar í mörg ár en ekki er annað að sjá en maður gangi undir manns hönd við að draga þetta mál sem mest á langinn. Fyrst skrifaði ég um þetta þann 10. desember s.l.

Spurningin er um það að vera hakkaður eða lakkaður. Held ég hafi sagt söguna af því hér einhverntíma. „National hacking day“ skrifar Salvör Kristjana um og að miklu leyti er ég henni sammála. Skoðanir hennar í höfundarréttarmálum eru þó að sumra áliti afar öfgakenndar. Mér finnst hinsvegar afar öfgakennt að ímynda sér að sú tækni- og tölvubylting sem gengið hefur yfir heiminn á síðustu árum og mun halda áfram að gera það í sívaxandi mæli, hafi engin áhrif á höfundarréttarmál. Kaus Píratana í síðustu kosningum og mun sennilega gera það aftur.

Varðandi nasistaummæli Björns Braga sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu vil ég bara segja það að mér finnst afsakanlegt, vegna fámennis þjóðarinnar, að hann verði áfram starfandi hjá RUV, þrátt fyrir aulahúmor og virðingarleysi. Þó hann sé vitlaus að þessu leyti þá er honum greinilega ekki alls varnað. Annars staðar hefði hann umsvifalaust verið látinn fjúka, en það getur vel verið að notast megi við hann.

Ég er alveg viss um að núverandi stjórn muni sitja a.m.k. meginhluta þessa kjörtímabils. Jafnvel það allt. Hvort hún verður endurkjörin veit ég auðvitað ekkert um. Líklegt þykir mér það þó ekki. Ef hjól atvinnulífsins verða ekki farin að snúast af talsverðum hraða þegar að næstu alþingiskosningum kemur hefur henni mistekist hrapallega. Fyrri ríkisstjórn mistókst líka margt. Að mestu leyti tókst henni þó að koma okkur útúr kreppunni. Kannski ekki á þann hátt sem sumir hópar hefðu óskað sér, en núverandi ríkisstjórn getur ekki endalaust kennt slæmum viðskilnaði um þann vanda sem hún glímir við.

Með hjálp netsins má búast við að flokkaskipan landsins riðlist verulega líkt og gerðist í upphafi síðustu aldar. Áherslur allar hafa gjörbreyst á 100 árum og er það engin furða. Kalda stríðið er líka búið og óþarfi að láta það trufla sig. Bandaríki Norður Ameríku upplifðu gósentíð að lokinni síðustu heimsstyrjöld. Þau fantatök sem þau hafa á efnahagslífi heimsins eru að byrja að linast. Ekki er víst að neitt betra taki við. Litlu þjóðríkin sem allsstaðar spruttu upp í byrjun og framyfir miðja síðustu öld eru að mörgu leyti komin úr móð. Heimurinn allur fléttast með vaxandi hætti saman og allskyns bandalög landa og ríkja virðast vera það sem koma skal. Íslendingar ættu ekki að láta þau tækifæri, sem bandalögin veita, fram hjá sér fara og þessvegna styð ég inngöngu Íslands í ESB.

Vitanlega gera það ekki allir sem ég þekki. Þetta er þó það mál sem langmestu máli skiptir pólitískt séð. Þessu er alls ekki hægt að svara á endanum nema með já-i eða nei-i. Það er ekki einu sinni hægt að fresta því endalaust að taka ákvörðun. Núverandi stjórnvöld vilja það þó helst og líklega mun ekkert gerast næstu árin varðandi viðræður við ESB.

Fulltrúalýðræðið liggur líka undir ámæli. Enginn vafi er á því að með vaxandi netnotkun muni þáttaka almennings í stjórnmálum fara vaxandi. Þeim fulltrúum sem kosnir eru í alþingiskosningum er í auknum mæli vantreyst til að taka ákvarðanir í öllum málum. Almenningur mun ekki láta stofnunina Alþingi kúga sig endalaust. Þingbundið lýðræði er ekki nein endanleg lausn. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru það ekki heldur. Þar munu samt átakalínur stjórnmálanna verða næstu áratugina. Alþingi mun berjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslum eða a.m.k. vilja hafa þær eftir sínu höfði. Um það leyti sem hyllir undir samkomulag milli þessara andstæðu fylkinga mun eitthvað alveg nýtt blasa við.

Á árinu 2013 umpólaðist ég að miklu leyti hvað hnatthlýnun snertir. Áður hélt ég að þó hún væri e.t.v. staðreynd þá væri umdeilanlegt hvort hún væri af mannavöldum. Núorðið virðist mér það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að hún sé það. Afleiðingar hennar eru samt af mörgum ofmetnar. Mest er ég sammála andhlýnunarsinnum um það að hæfileiki mannkynsins til að bregðast við aðsteðjandi vanda er sífellt vanmetinn. Kannski er ekki hægt að treysta á hann endalaust en ég þverneita samt að hafa af þessu verulegar áhyggjur.

IMG 5841Kringlumýrarbraut að kvöldlagi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður skrifar víst "hillir undir" þegar þetta er eitthvað sem maður sér, maður hyllir hinsvegar kónginn - væri hann einhver!  Annars finnst mér að Ólafur R. sé farinn að haga sér eins og hann hafi fengið vald sitt frá einhverjum guði (eða Allah eða hvaða kostur er valinn) og sé orðinn kóngur í ríki sínu. Varðandi þingræði, fulltrúalýðræði og beint lýðræði, þá er það nú einhvernveginn þannig, að á endanum eru það embættismenn (konur sem karlar) sem ráða öllu. Við fáum að kjósa einhverja fósa sem þingmenn og þingmenn skipa svo suma þeirra ráðherra, en í raun ráða þeir engu og eru bara handa okkur þrælunum til að við höfum einhvern til skamma í stað þeirra sem raunverulega ráða og bera ábyrgðina en þurfa þess nánast aldrei.

Ellismellur 20.1.2014 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband