2062 - Byrjaður að bakka

Það getur vel verið að bloggin mín líkist safni af athugasemdum. Við því er ekkert að gera. Svona hugsa ég bara. Mér finnst ekki hægt að senda blogg-greinarnar mínar jafnóðum á netið. Stundum breyti ég þeim í ljósi umhugsunar. Það er alveg nóg að blogga svona einu sinni á dag í mesta lagi. Það væri að æra óstöðugan að gera það oftar. Svo er ég á móti fésbókinni og nenni ekki að flytja mig. Það að mér er ekki úthýst hér stafar ekki af því að ég sé sáttur við allt sem á Moggablogginu birtist. Öðru nær. Sumir sem hér blogga fara óskaplega í taugarnar á mér.

Get varla ímyndað mér að margir lesi athugasemd númer 120 við einhverja pólitíska frétt í DV eða Vísi. Samt trúi ég alveg að einhverjir af þeim sem bloggið mitt sjá samkvæmt Moggabloggstölum lesi það með athygli. Er ég svona innbilskur eða eru athugasemdagaurarnir (og gaururnar) það kannski? Er eitthvað skárra að bloggast svona villt og galið eins og ég geri en að athugasemdast út í það óendanlega?

Í pólitískum fréttum hjá mér er það helst að Sigmundur Davíð er fyrirfram farinn að kenna stjórnarandstöðunni um að geta ekki framkvæmt kosningaloforð sín og byrjaður að reyna að bakka útúr þeim. Eygló Harðardóttir sem var ágætur þingmaður er ómöguleg sem ráðherra. SDG notar hana til að finna upp afsakanir fyrir sig. Hefur hún engan sjáfstæðan vilja eftir að hún varð ráðherra? Hún stóð sig þó ágætlega sem stjórnarandstöðuþingmaður. Bjarni Ben. er sá eini sem græðir á núverandi ástandi. Hugsanlega bæði beint og óbeint. Með beinum gróða á ég við Gálgahraunsmálið. Hanna Birna á að finna upp afsakanirnar fyrir hann. Tekst það samt ekki nógu vel.

Sigmundur Davíð er háll sem áll. Á auðvelt með að tala fjölmiðlamenn í kaf. Kannski bera þeir bara svona mikla virðingu fyrir embættinu sem hann gegnir. Um daginn mannaði samt einhver sig upp í að spyrja hann hvar hann hefði verið, þegar hann hvarf í viku. Auðvitað svaraði Sigmundur því ekkert heldur fór bara að tala um eitthvað allt annað og fréttamannsauminginn þorði ekki að endurtaka spurninguna. Svona er þetta bara. Fjölmiðlarnir spegla aðallega sýn stjórnvalda. Pöpullinn er lítils virði. Þó byggist allt á honum. Kastljósið sinnir bara einu eða tveimur málum á dag fimm daga vikunnar. Annað er ekki til. Frétta- og blaðamenn fást aðallega við að þýða fréttir úr erlendum fjölmiðlum og fækkar þar að auki stöðugt. Framhaldsfréttirnar úr Lansanum í sjónvarpinu eru alltaf að lengjast. Bráðum er búið að sannfæra alla um að allt sé á vonarvöl þar.

Hugsanlega á Gálgahraunsmálið eftir að vinda eitthvað uppá sig. Þó er það ekki líklegt. Allir aðilar standa nú frammi fyrir gerðum hlut og búið er að spilla hrauninu. Svo virðist sem ekki einu sinni „hraunavinir“ tali lengur um að í hrauninu séu hugsanlega fornminjar en því var þó lengi vel haldið fram. Samt sem áður er það greinilegt að vegagerðin hefur farið fram með miklum og líklega óþörfum ofstopa í þessu máli. Verið gæti líka að bæjarstjórn Garðabæjar gjaldi afstöðu sinnar að einhverju leyti í næstu sveitarstjórnarkosningum.

IMG 4259Kanína.


mbl.is Vísað aftur af vinnusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband