2061 - Um Gálgahraun, ríkisstjórnina o.fl.

Ég fellst umyrðalaust á þá röksemd hraunavina að þessi framkvæmd (Gálgahraunsvegur) sé óþörf eins og á stendur. Sagt er að skipulagið sem þessi vegagerð er byggð á sé frá 1995. Hafi hún einhverntíma verið eðlileg og knýjandi er hún það alls ekki núna þegar veruleg þörf er á að spara og velta fyrir sé hverri krónu (eða milljón) sem eytt er af skattfé okkar. Hverra hagsmuna er verið að gæta með þessum ofbeldisaðgerðum vegagerðarinnar?

Jafnvel þó reynt sé að breyta Gálgahrauni í Garðahraun getur vel farið svo að atburðirnir þar verði kveikjan sem lengi hefur vantað. Það er að segja alveg síðan núverandi ríkisstjórn tók við í vor. Vinstri menn munu áreiðanlega reyna að koma henni frá. Ef ekki með góðu (þ.e.a.s aðstoð alþingis) þá með illu. (Alþingi götunnar) . Vel má búast við öngþveiti og jafnvel ólátum víða því stjórnmálabaráttan hefur breyst mikið eftir Hrun. Augu margra hafa opnast en þó ekki nærri allra. Þessvegna er ekki ljóst hvernig þetta allt saman fer. Hægri menn reyndu ýmislegt til að torvelda fyrri ríkisstjórn störf sín og tókst oft ágætlega upp. Ekki gátu þeir samt hrakið hana frá völdum. Vinstri menn standa sig oft betur í slíkum málum og gætu vel hrakið núverandi stjórn í burtu.

Ætlast er til að þeir standi sig sem sú illa skipaða ríkisstjórn sem nú situr hefur verðlaunað með óumbeðnum dekurgjöfum. Þeir eiga að sjá til þess að pólitískum jámönnum fækki ekki mikið. Ýmislegt bendir samt til að þeim hafi mistekist það. Það hatur á núverandi ríkisstjórn sem óvinir hennar blása sem ákafast í um þessar mundir getur hvenær sem er blossað upp sem óviðráðanlegur eldur. Hingað til hefur ríkisstjórnin ekki látið sér segjast hvað sem í boði hefur verið. Varla heldur hún því áfram. Friða verður fólkið. Eftirgjöf er vel hægt að búast við. Vel skipulagt og undirbúið undanhald er miklu betra en skilyrðislaus uppgjöf.

Mér finnst það nokkuð gott hjá Elísabetu Jökulsdóttur að koma sér upp Nóbelskjól. Kallar geta látið sér jakkaföt nægja, eða leigt sér smóking, en því er ekki að heilsa með kvenfólkið. Er þetta óréttlæti köllunum að kenna eins og flest annað? Ég bara spyr af því ég veit það ekki. Einfaldast er auðvitað að mæta bara ekki. Gott fyrir sjálfsálitið líka.

Rætt er um fegursta og ljótasta orðið í íslenskri tungu. Mér finnst ekki rétt að tala um slíkt. Orðin eru bara tæki og merking þeirra breytist við notkun. Hvort orðið er fagurt eða ljótt fer eftir svo mörgu. Til dæmis hugarfari  notandans og hvaða orðum það stendur með. Ef þessi fíflagangur er aðallega til að vekja fólk til umhugsunar um notkun orða er það samt vel afsakanlegt. Orðin eru nefnilega á undanhaldi. Myndirnar, einkum þó hreyfimyndirnar, eru í þann veginn að taka yfir. Kannski ekki í tjáningu milli manna en allavega þó í fjölmiðlun. Það er hægðarleikur að segja allt mögulegt án þess að nota orð. Nýjustu kynslóðirnar eru sífellt að ná betri tökum á myndmálinu og tök þeirra á orðunum eru að versna í samræmi við það.

Einhverntíma var í sjónvarpinu frétt um að ákveðinn hundraðshluti (sem ég man ekki hver var) íslensku þjóðarinnar yrði fyrir beinbrotum á hverju ári. Ég er nú svo undarlega innréttaður að ég sá fyrir mér beinbrotahríð mikla og mannfjölda sem fyrir henni varð. Nýlega var líka auglýsing í sjónvarpinu, þar sem sagt var frá því að rannsóknir sýndu að beinþynning væri mikið vandamál hér á Íslandi. Sennilega var hún frá MS. Ekki er alveg víst að allir hafi gert ráð fyrir að mikil mjólkurdrykkja mundi ráða bót á því vandamáli þó starfsmenn mjólkursamsölunnar hafi eflaust haldið það.

Var að sortera smápeninga. Hundraðkalla má vel nota. Fimmtíukalla líka. Tíkalla í hallæri en aftur á móti er spurning með fimmkallana. Krónupeningum er best að henda. Auðvitað er samt vel hægt að fara með krónurnar og fimmkallana í bankann og leggja þar inn eða taka út í seðlum.

IMG 4253Nútíma hrossafluga.


mbl.is „Hvar er ráðherra?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

SDG var spurður á einhverri útvarpsstöð í morgun um þessa blessaða skuldaniðurfellingu, sem ætlar að verða banabiti þessa flokkslíkis hans. Hann er greinilega á hröðum flótta með þessa hugmynd sína um að nota einhverja ímyndaða fjármuni sem komi út úr uppgjöri við kröfuhafa  í föllnu bankana. Hann talaði reyndar mjög óljóst í morgun, en eftir það samtal er ég samt ekki í vafa um að sú aðferðafræði sem ég sá fyrir mér í sumar að þeim væri ofarlega í huga, yrði niðurstaðan. Það felst í því, að þar sem lánardrottnar Íbúðalánasjóðs eru nær eingöngu lífeyrissjóðirnir í landinu, yrðu skuldabréf þeirra verðfelld um einhver x% og sú reiknaða fjárhæð, sem þar myndaðist, yrði notuð bæði til að lækka íbúðaveðlán almennings og líka til að laga eiginfjárstöðu sjóðsins. Þetta er eiginlega meiri í anda Marinós Njálssonar og Frosta Sigurjónssonar um að eigendur sparifjár, þar með lífeyrissjóðirnir, hefðu ekki átt rétt á því að verða "bjargað" í hruninu. Þeir hefðu sloppið við áföll. Þeir horfa þá reyndar framhjá því, að við gengishrunið voru allar innstæður verðfelldar um ca. 20% eða kannski rúmlega það. En, sem sagt, það séu eigendur lífeyrissjóðanna, sem taka á sig skuldaniðurfellinguna. Verst er að þetta er í mörgum og kannski flestum tilvikum sama fólkið og það sem skuldar.

E 23.10.2013 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband