1721 - Moldin heillar marga þá

Untitled Scanned 06Gamla myndin.
Örugglega Siggi í Fagrahvammi vinstra megin, en gæti verið Lárus Kristjánsson til hægri. Veit ekki hvar þessi mynd er tekin, en árið er líklega 1958.

Þegar maður var að fá náttúruna, og auðvitað talsvert lengi eftir það, hugsaði maður um fátt annað en kvenfólk. Það skiptist alfarið í tvennt: Stykki sem stingandi var í og kellingar. (Krakkar voru ekki taldir með.) Aldur hafði eitthvað með þessa skiptingu að gera en réði þó ekki öllu. Oft hefur hvarflað að mér að kvenfólk skilji ómeðvitað nokkuð vel þessa hugsun kynorkuþrælanna og vilji með tilhaldi sínu umfram allt vera í fyrri flokknum hjá sem flestum. Man að mér fannst „stingandi í“ flest kvenfólk sem ég sá, en þó ekki alveg allt.

Það er svo margt sem minnir á
máttinn jarðar sterka.
Moldin heillar marga þá
menn til góðra verka.

Þjóðernisrómantíkin á fullu. Hvað er mold annars annað en dauði og rotnun? (Já, og konur eru líka menn, munum það.)

Næsta vísa er lakari og seinni parturinn stolinn. Ég orti hann alls ekki.

Burtu myrkrið svífur svarta
svona einsog uppá grín.
Það er engin þörf að kvarta
þegar blessuð sólin skín.

Af hverju er leitast við að hafa allan skáldskap sem óskiljanlegastan venjulegu fólki? Skáldin svokölluðu eru mörg með öllu úr tengslum við unglingana, gamla fólkið og alla nema einhverja klíku sem þykist skilja þá. Auglýsingastarfsemi (sjálfsauglýsingar) er orðin aðalviðfangsefni intelligensíunnar í 101 og hún lifir á því og fyrirlítur um leið.

Eru Íslendingar að leita að sterka leiðtoganumn með því að auka óbilgirnina og hatrið í allri stjórnmálaumræðu? T.d. virðast flestir þeir sem blogga vera með eindæmun einþykkir og ósáttfúsir og ekki er fésbókendur hótinu betri. Að mörgu leyti brýst þetta svo út í skoðanakönnunum um alla skapaða hluti og matreiðslunni á þeim. Eru það virkilega bara kverúlantar og kerfisþrælar sem þrífast á þessu landi? Hvar er blessað miðjumoðið niðurkomið?

Af hverju skyldi ég vera að fjargviðrast útaf pólítík. Hún er hvort sem er svo leiðinleg og fáfengileg. Núna fyrst er ég að lesa bókina um hið sjáfselska gen. (The Selfish Gen – eftir Richard Dawkins) og sýnist vera nóg af andstæðingum þróunarkenningar Darwins í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hef hingað til álitið fátt um þá hér á landi. Efast mikið um að einhver þeirra láti vita af sér hér á blogginu mínu. Hvernig skyldi t.d. líffræði vera kennd á Íslandi í dag?

Hámark heimskunnar finnst mér þegar sæmilega vel gefið fólk vælir óaflátanlega í fésbókinni og skrifar langar sögur þar um ótrúlegan aumingjaskap sinn. Oft er ekki annað að sjá en fjölmargir trúi ósköpunum. Svo eru líka margir sem safna allskyns myndum og frásögnum af fáránlegustu afbrotum og slysun í útlandinu góða. Það er illa farið með góða lestrarkunnáttu að velta sér uppúr þvílíkum sora og þvílíkri vitleysu.

Nú fer allt að fyllast í fjölmiðlunum af Ólympíufréttum og gott ef ekki er sumt bara ágætt þar. Þó aumlegt sé. A.m.k. betra en aumingjasögurnar. Allt fær á sig Ólympíustimpil. Hann virðist fremur ódýr í dag. Kannski Bretar hagnist bara á Ólympíuvitleysunni eftir allt saman. Gæti vel trúað að veðrið fari líka batnandi þar fyrst það á að fara versnandi hér.  

Það er vandlifað á Internetinu. Helst ekkert má gera. Allt getur haft slæmar afleiðingar. Ef það kemur ekki vírus í tölvugarminn þá er eins víst að einhver ætli að misnota bankareikninginn manns eða kennitöluna og því er best að forðast allt sem maður hefur ekki gert a.m.k. hundrað sinnum áður. (Án afleiðinga). Nýjungar eru hættulegar. Best er að drekka sitt kaffi (varlega þó) og lesa sem vandlegast fésbókarræfilinn, þó varasamur sé. Það eru hvort eð er svo margir þar að það getur varla verið stórhættulegt, ef maður gerir nógu lítið.

IMG 0928Lagt af stað í hættuför.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband