1723 - Fréttir og fótbolti

Untitled Scanned 10Gamla myndin.
Þetta er hann Smalli. (Reynir Helgason)

Hver er sterki maðurinn í ríkisstjórninni um þessar mundir? Ég held að það sé Ögmundur Jónasson. Hann er að bíða eftir rétta tækifærinu til að ganga af Steingrími dauðum (pólitískt séð) og sprengja ríkisstjórnina. Þessvegna þorir Jóhanna ekki annað en sitja og standa eins og hann vill. Lausn hennar (og Ögmundar) er að gera ekki neitt. Það endar auðvitað með þeim ósköpum að stjórnin springur. Líklega verður það í haust eða vetur og þá verður sett upp eitthvert leikrit til reyna að hræra í kjósendum.

Spádómar af þessu tagi eru oftast lítils virði. Ef þeir rætast er samt gaman að hafa kastað þeim fram.

Minntist eitthvað á Reykjavíkurflugvöll um daginn. Ríkisstjórnin (eða þeir sem réðu) ákváðu fyrir nokkru að sjóflutningar skyldu aflagðir hér við land. Vel getur svo farið að ákveðið verði (með svipuðum hætti)  að innanlandsflug verði lagt niður. Hver er þá ávinningurinn af því að hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er? Enn er jafnvel rætt um að Landsspítalinn þurfi ekki nauðsynlega að vera þar sem hann er núna. Það er nefnilega þannig að allt sem ákveðið er þarf að vera í samhengi við ótalmargt annað.

Eitt sinn var ég fótboltafíkill. Níu af hverjum tíu vítaspyrnum (eða fleiri), sem teknar eru og sýndar í sjónvarpi eru ólöglegar. (Varnar eða sóknarmenn fara t.d. of fljótt af stað og innfyrir vítateiginn). Dómurum er alveg sama um það. Hversvegna?

„Karlmaður fauk við Álftavatn“ sagði í fyrirsögn á mbl.is. Í mínu ungdæmi hefði sennilega verðið sagt: „Maður datt og meiddist.“ Eflaust hefði í fréttinni verið sagt eitthvað frá rokinu og að það hefði haft áhrif á slysið. Þ.e.a.s. ef nokkuð hefði verið sagt frá því. Það er ekki víst að svo hefði verið. Nú virðist ungt fólk (jafnvel unglingar) vera látið fylla ákveðinn kvóta og fá greitt eftir uppmælingu og yfirlesturinn vera mjög lítill eða enginn.

Að mínu viti verður frétt til þannig að upplýsingarnar koma frá tveimur aðilum með sem ólíkust sjónarmið. Eftir að búið er að lesa fréttina yfir og prófarkalesa, þarf að fá reyndan mann til að lesa alla fréttina yfir og koma með athugsemdir ef þarf. Sá sem skrifar fréttina upphaflega þarf helst að vera staðkunnugur á svæðinu þar sem fréttin varð til. Fyrirsagnirnar eru síðan alveg sér kapítuli. Tíminn sem í fréttina fer má ekki vera of stuttur.

Fréttir og fyrirsagnir í fjölmiðlum hljóma oft mjög undarlega. Kannski finnst mér það bara vegna þess að þjóðfélagið er orðið breytt og ég gamall og ekki ætla ég að fjölyrða meira um þetta tiltekna atvik enda þekki ég það ekki. Á dv.is er löng frásögn af því að leigubílstjóri hafi elt einhvern mann (ekki nafngreindan einu sinni) og ætlað að taka í hann. Maðurinn ætlaði að kæra en hætti við það. Lögreglan vildi ekkert skipta sér af málinu svo maðurinn sem sagt er að leigubílstjórinn hafi elt er einn til frásagnar. Hvaða erindi eiga svona sögur í blöðin? Ég bara spyr. Mér sýnist að dv-mönnum sé uppálagt að hafa greinarnar langar og jafnvel bara frá einum aðila. Á mbl.is þurfi þær hins vegar að vera margar og þegar unglingarnir þar fara að flýta sér verða til nýyrði eins og spákonuvegur.

Sé eitthvað ekki á fésbókinni er það ekki til. Þetta virðast sumir blaðamenn álíta. Einu sinni var starfi þeirra einkum fólginn í því að fylgjast með ákveðnum bloggum en nú er það liðin tíð. Fésbókin nægir. Það eru bara einstöku fávitar, eins og ég, sem halda áfram með bloggósköpin. Þar er í tísku að skipta um vettvang á svona þriggja mánaða fresti. Fésbókin og jafnel tístið líka er að verða úrelt. Hvað kemur eininlega í staðinn? Jú, síminn, instagramið og unglinganetin. Þangað flykkist fólk víst í stórum stíl núna. Ekkert er víst enn komið að fullu í staðinn fyrir fésbókina, en hlutabréfin í henni falla stöðugt í verði. Hver veit nema á endanum verði þetta einskonar Íslensk Erfðagreining.

IMG 0964Loksins náði ég þér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband