1339 - Um tófur og fleira

atliogjoiGamla myndin er
af Atla Stefáns og Jóa á Grund á góðri stund með vatn í flösku við skálann í Reykjadal. Þessa mynd hef ég birt áður á mínu bloggi ef ég man rétt. Góð vísa er samt aldrei of oft kveðin. Myndin er nokkuð góð þó hún sé hreint ekki einkennandi fyrir þessa tvo menn. 

Einn af fyrstu útvarpsþáttunum, þar sem hægt var að hringja inn, var þáttur sem Jón nokkur Gunnlaugsson stjórnaði. Þessi þáttur var á dagskránni eftir hádegið en ég man ekki hvað hann var kallaður. Hann var talsvert vinsæll og ég er viss um að margir kannast við hann. Minnir að Jón hafi hringt í fólk af handahófi og boðið því að velja lag eða eitthvað þess háttar.

Einu sinni hringdi maður einn í konu sína sem þá var í baði. Datt svo í hug að biðja Jón um að hringja í hana og þá sagði hann (Jón) m.a. eitthvað á þessa leið: „Hvað er að sjá þig kona. Ertu ekki búin að klæða þig?" Konunni brá víst heil ósköp. Þetta leiðir hugann að því að brandarar eru oft börn síns tíma. Nú þætti þetta ekki vitund fyndið. Brandarinn um Gunnar sem var með rámri röddu að bjóða tré og runna var líka bara fyndinn í smátíma.

Það er merkilegt rannsóknarefni að kynna sér hvaðan fólk hefur hugmyndir sínar. Hvaðan hef ég t.d. hugmyndir mínar um mannkynssöguna, frönsku stjórnarbyltinguna, Jörund hundadagakóng, Íslandssöguna, fornritin, eymd Íslendinga á liðnum öldum o.s.frv. Listinn er óendanlegur og auðvitað er ekki hægt að rannsaka allt. Samt byggjast stjórnmálaskoðanir og ýmsar aðrar skoðanir fólks að talsverðu leyti á þessum hugmyndum. Fyrir allmarga held ég að bloggið sé um þessar mundir einn helsti hugmyndavakinn og svo auðvitað árans fésbókin. Fátt verður til af engu.

Hef að undanförnu verið að lesa sérstaka og merkilega bók. Hún heitir „Tófan og þjóðin" og er eftir Sigurð Hjartarson. Gefin út árið 2010 af  Melrakkasetri Íslands (sýnist mér). Sigurður þess var lengi formaður svokallaðs „Félags Íslenskra Tófuvina", sem lét sér fátt óviðkomandi á sínum tíma. Í þessari bók er sagt frá ýmsu sem henti þetta félag og meðlimi þess. Upphaflega virðist þessi félagsskapur hafa verið stofnaður í hálfgerðu gríni a.m.k. af sumum félögum hans en því er ekki að leyna að alvara er að baki öllum þeim fráleitu fullyrðingum sem settar eru fram. Fróðleg bók og skemmtileg. Bók þessa fékk ég að láni hjá Borgarbókasafninu í Gerðubergi.

Þetta leiðir hugann að tófuafskiptum mínum. Eftirminnilegast er sennilega það sem átti sér stað á Kili eitt sinn er við vorum á ferðinni frá Þverbrekknamúla í Þjófadali. Ætli við höfum ekki verið svona 10 til 12 saman og höfðum sest niður til að hvíla okkur og fá okkur matarbita.

Kemur þá ekki skyndilega stálpaður tófuyrðlingur skokkandi fyrir horn og á sér greinilega einskis ills von. Þegar hann sér okkur bregður honum illilega og leggur samstundis á flótta. Einhverjir úr okkar hópi tóku líka til fótanna og ætluðu að ná rebba en sem betur fer tókst það ekki. Eiginlega gerðist ekkert meira þarna en samt er þessi atburður mér ljóslifandi í minni.

Í gönguferðinni um Hornstrandir um árið sáum við stöku sinnum tófur, en samt er það eftirminnilegast að greni þeirra virtust einkum vera á bjargbrúninni og fuglalíf var ekkert efst í bjarginu. Í Fljótavík var til siðs að gefa tófunni það sem af gekk við máltíðir. Stundum sást hún skjótast eftir matnum en var samt alltaf mjög vör um sig.

Svo voru það litlu tófuyrðlingarnir sem voru sem gæludýr á heimili Dalla og Löbbu á Akureyri. Það kom mér mjög óvar á þeim tíma og er eftirminnilegt.

Myndirnar í myndaalbúmum Moggabloggsins raðast undarlega upp. Hef ekki áttað mig að fullu á því hvernig það gerist en sé t.d. að Jóhannes F. Skaftason hefur kommentað á mynd þar. Veit ekki hvort hann getur séð hvort athugasemdunum hafi verið svarað án þess að skoða myndirnar aftur. Hef aldrei kommentað á myndir hjá öðrum sjálfur.

IMG 5182Tilkomumikið tónlistarhús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert náttúrlega að rifja upp þegar "Sérlegir sauðaþjófar / í sinni árlegu ferð ..." og svo man ég náttúrlega ekki meir því ég man aldrei vísur ... þrömmuðu gamla Kjalveginn, er það ekki? Hvernig var þetta ágæta kvæði sem er ritað í einhverri gestabók skála á leiðinni (í Þverbrekknamúla?)? Eða var a.m.k. ritað á sínum tíma. Hóp-ort, ef ég man rétt. Og mig minnir að tófunnar hafi verið getið í ljóðinu.

Harpa Hreinsdóttir 23.4.2011 kl. 01:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, þetta hefur líklega verið þá. Held að ég hafi bara tvisvar farið um þessar slóðir. Minnir að þetta hafi verið Sérsamband sauðaþjófa/í sinni árlegu ferð. Rámar í þetta sem þú talar um einnig sveppi og eitthvað fleira. Rakst um daginn á miða þar sem var þessi vísa sem eflaust hefur verið gerð af þessu tilefni:

Í Þjófadali þreyttir slaga
þrettán útilegumenn.
með tómar flöskur, tóma maga
og tómir pokar eru senn.

Sæmundur Bjarnason, 23.4.2011 kl. 06:53

3 identicon

Þetta tónlistarhús, er ein og girðing utanum öskuhauga að sjá á þessari mynd.

doctore 23.4.2011 kl. 14:13

4 identicon

Þú ert meiri háttar, Sæmundur Bjarnarson

Ólafur Sveinsson 23.4.2011 kl. 20:12

5 identicon

"Þetta tónlistarhús, er ein og girðing utanum öskuhauga að sjá á þessari mynd".
Þetta hús er einkisvirði án innri starfsemi.  Harpan á eftir að skapa auðleigð fyir okkur öll. Ég fór á æfingar með pabba (Sinfóníuhljómsveitinni) í gamla Gúttó á æfingar.(1950)
Æfingar í Þjóðleikhúsið, með Victo U. Með Olav Kjelland.  Allt hefur þetta breytt að viðmið okkar til  annra sveitamennsku,  smásalamennsku, áhrifa á hvað er list og hvað er bezt.

Ólafur Sveinsson 23.4.2011 kl. 20:56

6 identicon

"Í gönguferðinni um Hornstrandir um árið sáum við stöku sinnum tófur, en samt er það eftirminnilegast að greni þeirra virtust einkum vera á bjargbrúninni og fuglalíf var ekkert efst í bjarginu. Í Fljótavík var til siðs að gefa tófunni það sem af gekk við máltíðir. Stundum sást hún skjótast eftir matnum en var samt alltaf mjög vör um sig."
Við hjónin gengum Hornstrandir 1963. Frá Hesteyri til Hesteyrar með snerti punkt, í Horbjargasvita, hjá Jóahnni, og frú. Efir að skrifa um það. Fékk 10 hjá fræbærum íslenzku kennara hjá Tækiskóla íslands, 1966. Nú er það allt öðruvísi skóli.
Öðruvísiskóli fyrir þá sem öfluðu sér sveinsprófs (4 ár), áður enþeir fóru út og öfluuðu sér sérvizku.

Ólafur Sveinsson 23.4.2011 kl. 21:26

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst tónlistarhúsið flott en sé eftir milljörðunum sem það kostar. Doctore á bara við að myndin sé léleg. Get ekki gert að því. Svona lítur það út frá Grandagarði séð. Sammála Ólafi um að auðvitað skiptir starfsemin þar mestu máli en ekki húsið sjálft.

Sæmundur Bjarnason, 23.4.2011 kl. 21:41

8 identicon

Ég á útboðslýsingu, þar sem rammarnir eru greindir sem "riðfríir". Þetta var í frumuppboði. Þekkti nokkra kínverja (tæknimenn), sem sögðu mér að miðað við aðstæður væri ekkert til boða nema riðfrítt.!

Ólafur Sveinsson 23.4.2011 kl. 22:02

9 identicon

Ég ætla ekki að misnota síðu Sæmundar, en ég þekkti kínverkst fyrirtæki sem vildi ekki taka þátt í útboði, vegna þess að taldi að einungis riðfrítt efini kæmi til greina.
Þrefalt stærri en hin. Á engin eigin efnahags rök að halda þessu fram.

Ólafur Sveinsson 23.4.2011 kl. 23:54

10 identicon

Harpan á eftir að skapa okkur hagsæld.

Ólafur Sveinsson 23.4.2011 kl. 23:57

11 identicon

"Í gönguferðinni um Hornstrandir um árið sáum við stöku sinnum tófur, en samt er það eftirminnilegast að greni þeirra virtust einkum vera á bjargbrúninni og fuglalíf var ekkert efst í bjarginu. Í Fljótavík var til siðs að gefa tófunni það sem af gekk við máltíðir. Stundum sást hún skjótast eftir matnum en var samt alltaf mjög vör um sig."

Sumarið 1963 urðum við mest var við tófu í Hornvík, ljúfu eins og lambi. Verst þóttu okkur að skotinn hafði verið ísbjörn sumarið áður, án þess að nokkur ætti vona á honum. Þau á Hornbjargsvita sendu son þeirra til Hornvíkur og skömmu síðar var ísbjörn skotinn í víkinni.  Annars var aðalfréttin að að ég gékk þurrum fótum í gúmmívaðstigvélum frá Fálkanum,(VIKING)á einum degi frá Hornbjargsvita til Hesteyrar.

Ólafur Sveinsson 24.4.2011 kl. 00:28

12 identicon

Sæll Sæmi.

Kannast þú við vísnaskák? Það er held ég þannig að menn senda hvor öðrum vísur þar til annar er mát. Allskonar afbrygði verða að vera leifð.
Var kallað að kveðast á en unga kynslóðin hefur lítinn áhuga á þesskonar íþrótt.
Má ekki vekja upp vísnagerð að nýju? Ekki erfiðara en að leysa krossgátu sem sumir gera víst ennþá þrátt fyrir alla tæknina.

Fyrir bæði byrjendur og lengra komna bendi ég á síðunna Rímorðaleit. http://elias.rhi.hi.is/rimord

Vona að þú kyndir undir þessu með mér. 

Kveðja,

Guðmundur Bjarnason 24.4.2011 kl. 04:05

13 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ólafur. Tók bara ekki eftir þessu fyrr en áðan. Eftir mínum skilningi er það að kveðast á að fara með vísur til skiptis annaðhvort frumsamdar eða eftir aðra. Venjulega er það síðasti stafur hverrar vísu sem á að vera upphafsstafur þeirrar næstu en allskonar afbrigði eru hugsanleg. Hef séð þetta vefsetur hjá Elíasi Halldóri en ekki skoðað nýlega. Bragfræði er kennd á heimskringla.net og það er Jón Ingvar sem stendur fyrir henni.

Sæmundur Bjarnason, 24.4.2011 kl. 14:58

14 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þarna átti nú víst að standa Guðmundur en ekki Ólafur en ég er orðinn hálfruglaður í þessu.

Sæmundur Bjarnason, 24.4.2011 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband