1344 - Eystri-Garðsauki

jkrogbjossiGamla myndin
er af Bjössa bróður og líklega er þetta Jón Kristinn sem er fyrir aftan hann.

Sumarið eftir að brann heima var ákveðið að við Ingibjörg færum í sveit. Þó búskap væri að mestu hætt að Eystri Garðsauka þegar þetta var vorum við send þangað. Sonur Óskars bróður pabba og nafni minn sá um búskapinn þarna en viðvera hans var nokkuð stopul. Ef ég man rétt kom einnig í heimsókn Guðmundur bróðir hans. Að mestu leyti gengum við krakkarnir samt sjálfala þarna.

Þegar þetta var mun ég hafa verið á tíunda ári en Ingibjörg er tveimur árum eldri. Okkur kom yfirleitt ágætlega saman þó hún hefði mikið yndi af að skrökva öllu mögulegu að mér og plata á ýmsan hátt. Ég erfði það ekkert við hana því það var svo margt merkilegt sem hún sagði mér.

Talað var um að við yrðum þarna í svona vikutíma og hjálpuðum til við bústörfin. Við vorum fimm krakkar þarna og synir Óskars og kærustur þeirra ef ég man rétt. Fullorðna fólkið var alltaf að koma og fara og skipti sér lítið af okkur krökkunum en við höfðum þó ákveðin verk að vinna. Sækja kýrnar, þrífa flórinn, fara með mjólkina o.s.frv. minnir mig. Húsið var stórt og um margt merkilegt. Svefnherbergi öll voru uppi á lofti. Sláttur var ekki hafinn.

Ein stelpa á staðnum var á aldur við Ingibjörgu og þær sváfu í herbergi sem var innaf herbergi okkar strákanna. Strákarnir hétu Leifur og Oddur og rúm þeirra voru við suðurvegg herbergisins en mitt við norðurvegginn. Oddur var á mínum aldri en Leifur eitthvað eldri. Herbergið var allstórt og þar var uppgangurinn á loftið. Öðrum þræði var loftið einhverskonar geymsla en það truflaði okkur ekkert.

Þegar strákarnir voru komnir undir sæng á kvöldin fóru þeir að fást við eitthvað sem ég vissi ekki hvað var og veitti litla eftirtekt. Þeir lýstu því sem þeir voru að gera án þess þó að láta nákvælega uppi hvað það var. „Nú er það orðið mjög gott." sagði kannski annar. „Alveg svakalega gott." sagði hinn. „Nú er það alveg að verða of gott." „Nú er það of gott" og þeir stundu hátt af vellíðan.

Ég var of saklaus til að skilja hvað þeir voru að gera en stelpurnar höfðu einhverja hugmynd um þetta og voru sífellt að trufla þessa iðju þeirra en þeir létu sem ekkert væri.

Dvölin að Garðsauka var um margt eftirminnileg. Hestarnir þar voru alveg sér kapítuli. Þeir voru tveir og hétu Gráni og Jarpur. Leifur fór með mig á bak Jarpi og útskýrði fyrir mér gangtegundirnar. Hægagangur, brokk, valhopp og stökk. Tölt og skeið held ég að hafi ekki verið í þessum hestum enda voru þetta dæmigerðir áburðarklárar. Nöfn hestanna voru sögð til komin vegna litar þeirra. Gráni var hvítur en Jarpur svartur. Svoleiðis var það bara.

Reiðtúrinn með Leifi varð endasleppur því á endanum fórum við að hallast meira og meira og duttum af baki að lokum enda var enginn hnakkur á hestinum. Ekki varð okkur neitt meint af því og risum fljótlega á fætur aftur.

Hestarnir voru mjög fótvissir og eitt sinn hálffældust þeir báðir og hlupu í burtu og yfir barn sem nýfarið var að ganga. Auðvitað meiddu þeir barnið ekki nokkurn skapaðan hlut þó ýmsir héldu að svo hefði verið því það datt niður.

Gráni lét alltaf ná sér strax en Jarpur var dyntóttari með það. Þessvegna var það sem Gráni var alltaf látinn fara með mjólkina. Sú ferð var ekki mjög löng því aðeins var farið að símstöðinni við Hvolsvöll en þangað kom mjólkurbíllinn.

Gráni gat alveg farið þessa leið án allrar aðstoðar en á tveimur stöðum tók hann ekki tillit til vagnsins sem spenntur var aftan í hann og stýra þurfti honum þar. Þetta var á plankabrú einni handriðslausri sem lá yfir læk á leiðinni en þar vildi hann helst fara alltof utarlega. Síðan var það við hliðið á heimreiðinni. Þar fór hann ævinlega rétt við annan hliðstólpann ef hann fékk sjálfur að ráða. Ég fór stundum einn með mjólkina og þótti talsverð upphefð að því.

„Minningar með morgunkaffinu" ætti þetta blogg kannski að heita. Undanfarna daga hef ég verið ákaflega upptekinn af að rifja upp gamla tíma hér á blogginu. Get samt ekki á mér setið að fjölyrða um ýmsa aðra hluti eftir að því lýkur. Þarf að drífa mig í að skanna fleiri gamlar myndir. Verst hvað þær eru lítið merkilegar. Búinn með þær bestu.

Bjarni gerði sér lítið fyrir og vann þá félagana Róbert Lagerman (eða Harðarson) og Dag Arngrímsson sama daginn á Reykavíkurmótinu í skák sem fram fór um daginn. Róbert í fjórtán leikjum og Dag í tuttug og einum. Þetta var í eina skiptið sem meira en ein umferð var tefld sama daginn. Þar með var hann orðinn meðal efstu Íslendinga í mótinu. Í næstu umferð þar á eftir lenti hann á móti Hannesi Hlífari og eftir það lá leiðin niður á við hjá honum. Árangurinn í heild var samt vel viðunandi.

Skákin hefur lengi verið mér nokkurs konar lífseleksír. Það að tefla er mér mikil afslöppun. Núorðið er mér skítsama um hvort ég tapa eða vinn. Áður fyrr var það samt ekki þannig. Náði þó aldrei neinum umtalsverðum árangri.

Undanfarin ár hef ég tekið einhvern þátt í deildakeppninni í skák á hverju ári og haft mjög gaman af. Unnið fleiri skákir en ég hef tapað enda verið á neðsta borði í fjórðu deild.

Nú er skak.blog.is orðið vinsælasta bloggið á Moggablogginu. Það er engin furða. Skákfréttir er ekki að finna núorðið í hefðbundnum fjölmiðlum enda geta Íslendingar víst ekkert í skák lengur. Ég man þá tíð þegar skákfréttir voru útsíðufréttir. „Nú er klukkan orðin tíu og Mogginn áreiðanleg kominn. Best að skreppa uppí Reykjafoss og gá hvernig Friðriki hefur gengið í gærkvöldi í Wageningen." Eitthvað svona gat maður hæglega sagt við sjálfan sig áður fyrr. Að vísu birti Mogginn ekki fréttir af heimsmeistaratitlinum í skák enda voru það sovétmenn sem einokuðu hann, en þá var bara að leita á náðir Þjóðviljans. Skáþættir voru reglulega bæði í útvarpi og blöðum.

Kannski er það metnaðarleysi sem hefur staðið mér mest fyrir þrifum í lífinu. Mér finnst að ég hefði getað orðið hvað sem er ef ég hefði einbeitt mér að einhverju ákveðnu í stað þess að dútla við allt mögulegt. Nú get ég bara einbeitt mér að því að hrökkva ekki uppaf fljótlega.

Gekk áðan fram á konu sem vokaði yfir hundinum sínum sem var eitthvað að athafna sig milli trjánna. Þegar ég nálgaðist fannst henni líklega asnalegt að standa þarna eins og auli svo hún tók símann sinn úr vasanum til að gera eitthvað. Talaði svo hátt og snjallt í hann þegar hún var búin að hringja svolítið.

Ég man vel eftir því þegar ég stóð á einni tá í fyrsta sinn. Því miður var það ekki mín eigin tá því þá hefði ég fundið til. Einhvern vegin hafði ég þó komist upp á þess tá. Nú veit ég, þetta var tá á stórri styttu og ég stóð uppá henni og komst ekki lengra. Kannski verður þetta saga og kannski ekki. Ég hef ekki hugmynd um það. Skrifa bara jafnóðum það sem mér dettur í hug. Ég sem var nýbúinn að taka til í bakhöfðinu. Ótrúlegur andskoti að ég skyldi lenda í þessu. Ekki hefði mig grunað það þegar ég kíkti ofan í líkkistuna. En svona er þetta. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Og nú er ég semsagt dauður. Hvað skyldi koma næst? Alveg er ég viss um að enginn mun trúa mér þegar ég fer að segja frá þessu.

Svona gæti ég fimbulfambað endalaust. Spurningin er bara hvort einhver nennir að lesa það. „Minningar með morgunkaffinu" eru miklu skárri en þetta. Samt eru það eflaust fáir sem nenna að lesa svona minningar nema þeir tengist atburðunum með einhverjum hætti. Hveragerði er örugglega betra en Garðsauki hvað það snertir. Gæti samt skrifað miklu meira um Garðsauka og geri kannski í næsta bloggi eða svo.

IMG 5211Fréttatíminn í úrvali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir minningar með morgunkaffi. Svona kann ég að meta og næstum öruggleg fleiri.

Sigurður Hreiðar, 28.4.2011 kl. 11:33

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þetta er morgun og kvöldkaffisblog :)

Óskar Þorkelsson, 28.4.2011 kl. 16:42

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, takk.

Sæmundur Bjarnason, 29.4.2011 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband