637. - Bankahrunið, þjóðsögur, Davíð Oddsson og nokkrar myndir

Margir eru uppteknir af því hverjum bankahrunið síðastliðið haust sé að kenna. Mér finnst það litlu máli skipta. Aðalskúrkarnir eru auðvitað eigendur bankanna sem stálu beinlínis frá okkur stórkostlegum fjárhæðum. 

Hinir bera auðvitað líka nokkra sök sem leyfðu þeim að komast upp með þetta. Gerðu þeim kleift að komast framhjá regluverki sem hefði átt að stöðva þá.

Starfsfólk á auglýsingastofum bankanna, sem gjarnan voru kallaðar greiningardeildir eða eitthvað þess háttar, ber líka nokkra sök. Eflaust trúðu margir því fólki. Það gerði sér líka far um að vera trúverðugt þó ekki sé erfitt núna eftirá að sjá hverslags steypu það lét frá sér fara.

Margar þjóðsögur eru til um viðskipti manna við Kölska. Mig minnir það hafi verið Sæmundur fróði í Odda sem ráðlagði einhverjum sem var að vandræðast með viðskipti sín við þann í neðra að prófa að reka við og segja um leið:

„Gríptu það, gríptu það og málaðu það grænt."

Þetta mundi Kölski eiga í vandræðum með að framkvæma og þá mundi maðurinn losna við ágang hans.

Þetta dettur mér oft í hug þegar ég heyri rekið við eða talað um að eitthvað sé grænt.

Það liggur við að ég vorkenni Vilhjálmi Egilssyni þó ég meti skoðanir hans yfirleitt ekki mikils. Hann liggur undir sífelldum árásum Davíðs Oddssonar og þar hlýtur eitthvað að búa undir. Ég man þá tíð að Vilhjálmur barðist við Sturlu Böðvarsson í forkosningum á Vesturlandi. Talað var um falsanir, atkvæðakaup og hvers kyns ótugtarskap.

Allt útlit var fyrir að harkan milli þeirra mundi fara vaxandi en að lokum féllust þeir á að Davíð skæri úr um ágreininginn milli þeirra. Hann tók taum Sturlu í málinu og stakk dúsu upp í Vilhjálm. Af einhverjum ástæðum þarf Davíð enn að ná sér niðri á Vilhjálmi. Auminginn á sér varla viðreisnar von innan flokksins.

Davíð sagði að skýrsla Vilhjálms Egilssonar og fleiri væri illa skrifað plagg. Sama sagði Sigurður litli Einarsson um skýrslu Seðlabankans sem tekin var saman í febrúar 2008 og gerð opinber fyrir stuttu. Illa skrifað blogg er eiginlega það sama. Ég reyni að forðast að blogga illa. Stundum tekst mér sæmilega upp við það en ekki alltaf.

Í lokin eru svo hérna nokkrar myndir:

IMG 2206Trampólín.

IMG 2219Fyrrverandi trampólín. Hér hefur eitthvað gengið á.

IMG 2207Já, svona fer kreppan með suma. Bara búið að negla fyrir gluggana.

IMG 2212Ekki kannski Southfork en sennilega næsti bær við.

IMG 2213Ég hélt alltaf að brunahanar væru gulir en í Kópavogi eru þeir allavega á litinn. Sá einn eldrauðan þar um daginn. Ágæt hugmynd að hafa vaskafat hjá brunahananum.

IMG 2217Fáir skorsteinar eru núorðið í Kópavoginum en þeim mun skrautlegri þeir sem eftir eru.

IMG 2222Ísklumpur alveg að fara að bráðna (vonandi).

IMG 2229Lastaranum líkar ei neitt
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
fordæmir hann skóginn.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Svona hugsunarháttur gengur ekki:  "Stundum tekst mér sæmilega upp við það en ekki alltaf"

Ég lít þannig á tvennt sé möguleg og það svipað:  Þér tekst sæmilega upp og svo líka tekst þér Sæmalega upp.

Eygló, 29.3.2009 kl. 02:13

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

Jú það skiptir máli afhverju heilt hagkerfi hrundi. Það skiptir til dæmis máli þegar við tökum afstöðu til þess hvort áfram eigi að ríkja sama peningamálastefna eða hvort við megum kannski horfa til annarra hugmynda,- jafnvel þó gamlar séu.

Bjarni Harðarson, 29.3.2009 kl. 11:08

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég lærði ráðgjöf nafna þíns í Odda svona: Grípt´að á lofti og málaðu grænt! Það sagði líka alltaf Skæringur heitinn í Felli þegar hann stundaði svona aftansöng í rútunni hér forðum sem hann gerði jafnan.

Þetta með Davíð: Mér finnst hann varla opna svo kjaftinn á almannafæri nú til dags að hann skíti ekki á sig um leið. Ætli hann sé búinn að prófa að leita að Evu Joly á Google?

Svo þetta með hrun hagkerfanna: að mínu viti hófst það í Bandaríkjunum. Þegar fjármálastofnanir þar fóru að hrynja tóku lánaleiðir að lokast og ég fæ ekki betur séð en það hafi riðið bönkunum hér að fullu. Og þaðan í frá hefur eitt leitt af öðru. Þú veist hvernig þetta er með spilaborgina. Auðvitað er sá sekur sem byrjaði að reisa slíka borg. Var það ekki Dabbi kallinn með sínum ráðstöfunum?

Sigurður Hreiðar, 29.3.2009 kl. 12:09

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Mér er sagt að litur brunahana sé samkvæmt einhverjum Evrópustaðli.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 29.3.2009 kl. 15:38

5 identicon

Sem betur fer mun Fjallræða Frelsarans í gær ekki gera neitt annað en að tæta enn meira fylgi af Flokknum fyrir kosningar.  Bara gott mál.  Það er samt ótrúlegt fyrir venjulegt fólk að horfa upp á hvað Frelsarinn á enn marga lærisveina sem eru tilbúnir að vaða eld og brennistein fyrir Kvalara sinn.  Þeir eru ekki enn farnir að sjá að Keisarinn er allsber!  Þetta er ekkert annað en heilaþvottur hjá þessu liði!  Minnir mann helst á Hitler og áhangendur hans.

Ég vorkenni samt Vilhjálmi Egilssyni ekki neitt.  Ég hef löngum sett hann og Frelsara Flokksins í sama flokk (enda báðir verið áhrifamenn í Flokknum!).  Þeir eiga báðir allverulegan þátt í að græðgisvæðingin fékk að blómstra hérna - sem hefur nú komið þjóðinni á vonarvöl.

Malína 29.3.2009 kl. 15:50

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öllsömul fyrir kommentin. Þau eru fleiri en ég átti von á. Ég er nývaknaður og ekki búinn að melta þetta alltsaman. Reyni að svara betur seinna í dag.

Sæmundur Bjarnason, 29.3.2009 kl. 16:41

7 identicon

Ég verð að taka undir með Bjarna.  Þetta verður að rannsaka faglega niður í botn og komast að niðustöðu.  Og þarf að nota stærri hóp rannsakenda.  Þó það kosti peninga.  Fólkið getur ekki unað við óvissuna og hið undarlega hvarf milljarða og kannski svik og svindl. 

EE elle 29.3.2009 kl. 16:46

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Egló: Á Bifröst æfðum við okkur í búðarstörfum. Hópurinn sem ég var í stofnaði verslunina "Sæmdarkjör" (með úrfellingarmerki og öllu - en án minnar vitundar)

Bjarni: Jú, auðvitað skiptir stefnan máli. Það er bara venjuleg pólitík. Vinstri og hægri koma þar jafnvel við sögu.

Sigurður: Þjóðsögur eru skemmtilegar og tilsvör og orðtæki sem á þeim byggjast jafnvel enn skemmtilegri, en breytast auðvitað við notkun.
Talaðu varlega um DO svo Bjarni Harðarson heyri. Þeir eru nefnilega skyldir og ekki tala meira um tölvur í sambandi við þá en nausynlega þarf. Davíðsborg þurfti ekki nauðsynlega að leiða til bankahruns en gerði það vissulega.

BenAx: Mér finnst ágætt að hafa lit á brunahönum staðlaðan. Það er samt ekki þessvegna sem ég er Evrópusinni.

Malína: Þó sjálfstæðismenn kunni vel að meta sinn ræðuskörung þá held ég að framlag hans ráði engu um úrslit í komandi kosningum. Davíð er frekur og yfirgangssamur en góðar hliðar á hann líka og hélt sjálfstæðisflokknum vel saman á erfiðum tímum. Landsstjórnin fórst honum samt ekki vel úr hendi að mínum dómi.

EE elle: Ég er sammála því að rannsaka þurfi allt sem leiddi til bankahrunsins sama hað það kostar. Pólitíkinni er samt hægt að breyta og hún er að breytast.

Sæmundur Bjarnason, 29.3.2009 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband