Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

629. - Smápælingar um komandi kosningar

Hér eru bollalleggingar um hvað líklegt sé að standi okkur til boða í kosningunum í vor.

B - Framsóknarflokkurinn.
Hef einu sinni kosið framsóknarflokkinn en er hættur því. Töfralausnir hans hafa hingað til reynst illa. Ber líka heilmikla ábyrgð á bankahruninu í raun. Meiri endurnýjun virðist vera hjá honum en öðrum meðlimum fjórflokksins.

D - Sjálfstæðisflokkurinn.
Sjálfstæðismenn trúa því að bankahrunið sé bara slys. Flokkurinn og frjálshyggjan sé það rétta, en sumt fólk bara gallað. Margir kjósendur virðast trúa því að flokkurinn breytist eftir þörfum eins og hendi sé veifað.

F - Frjálslyndi flokkurinn.
Sé ekki annað en menn haldi bara áfram að slást þar. Hætta og byrja til skiptis meðan fylgið hrynur. Tækifærið er samt þeirra en þeir vilja ekki sinna því.

O - Borgarahreyfingin.
Kannski er þetta framboð líklegast til afreka af nýju framboðunum. Friðrik Þór og Valgeir Skagfjörð eru aðalmennirnir ef marka má Moggabloggin.

L - Fullveldissinnar.
Hafa lítið fram að færa nema EU-andstöðuna. Varla er það líklegt til fjöldafylgis.

S - Samfylkingin.
Já, ég kaus Samfylkinguna síðast en finnst hún hafa brugðist. Var samt ekki eins lengi í stjórn útrásarinnar og sumir aðrir, en hefði átt að hætta miklu fyrr. Svo er Ómar búinn að gefast upp og farinn þangað. Kannski hressist Eyjólfur að lokum.

V - Vinstri Grænir.
Of rauðir fyrir mig. Með langhreinastan skjöld af meðlimum fjórflokksins. Öfgafólk virðist eiga of auðvelt með að vaða þar uppi. Hafa varla verið stjórntækir undanfarið en vilja eflaust sanna sig.

Ég er ekki viss um að lýðveldisbyltingin svokallaða nái því að bjóða fram. Þar er enn verið að ræða málin og örugglega eru þau ekki fullrædd. Varla eru margir sammála mér um þetta og þar að auki eiga sjónarmið mín eflaust eftir að breytast. Svona lít ég samt á málin akkúrat núna. Örlög persónukosninga og stjórnlagaþings munu ráðast á Alþingi næstu daga og úrslit þeirra mála eru mér mun hugleiknari en þessar kosningar sem eru talsvert úti í framtíðinni. Þær verða samt afar mikilvægar. Skoðanakannanir benda til talsverðrar vinstri sveiflu sem líklega verða aðaltíðindi þessara kosninga.

Svo eru hér fáeinar myndir.

IMG 1892Þetta er líklega snjómaðurinn ógurlegi.

IMG 1911Hellisheiðarvirkjun.

IMG 1917Ætli það sé kviknað í fjallinu? Nei, þetta er Skarðsmýrarfjall hjá Hellisheiðarvirkjun.

IMG 1996Eins gott að það er heitur pottur í nágrenninu!!

IMG 2035Kirkja skammt frá Minni-Borg í Grímsnesi.

IMG 2041Ingólfsfjall.

IMG 2084Annaðhvort á að koma þarna sumarbústaður eða þetta eru ungir símstaurar.

IMG 2100Varðmaður við sumarbústað í Grímsnesinu.

IMG 2107Óveðrið nálgast.

IMG 2110Mér sýnist að þetta sé skurður og plaströr liggi ofan í hann.


628. - Bókmenntarugl og pólitískar hugleiðingar í lokin

Fáir hafa komist með tærnar þar sem Guðmundur Daníelsson hefur hælana í tilgangslausum skrifum. Bloggaði í heilt ár um tilurð einhverrar hundómerkilegrar skáldsögu og skrifaði heila bók um heimsmeistaraeinvígið sem háð var árið 1972 án þess að hafa hundsvit á skák. Samt átti stíll Guðmundar vel við mig og ég hef lesið margt eftir hann. Greinar hans í Suðurlandi og viðtalsbækurnar sumar eru stórfróðlegar. 

Ég er óhefðbundinn í bókmenntasmekk. Hef til dæmis aldrei lesið neitt eftir Tolkien og er sannfærður um að flestar bóka hans séu bæði leiðinlegar og ómerkilegar. Reyndi um daginn að lesa bók Elísabetar Jökulsdóttur sem byrjar á krassandi frásögn um samfarir í Central Park en gafst upp á henni eftir nokkrar blaðsíður. Mér fannst hún rembast svo mikið við að vera skáldleg. Það fer alveg öfugt í mig. Hef samt lesið margt eftir mömmu hennar og líkað vel. Sá eini af þeim sem ég hef lesið eitthvað eftir nýlega og má alveg rembast við að vera skáldlegur án þess að verða leiðinlegur er Jón Kalman Stefánsson.

Á sínum tíma las ég „Sjálfstætt fólk" eftir Kiljan og fannst hún nokkuð góð. Flest annað frá hans hendi er bölvað rusl. „Hella" eftir Hallgrím Helgason er ágæt bók en síðan hefur honum stöðugt farið aftur. Sífelldir orðaleikir hans eru fyrir löngu orðnir hundleiðinlegir. Gat aldrei klárað 101 Reykjavík því mér þótti hún svo léleg. Hallgrímur er samt ágætur í að dangla í bílinn Geirs Haarde.

Hef alltaf haft dálítið álit á Einari Kárasyni sem sögumanni. Las á sínum tíma bækur hans um Camp Knox og svo hef ég lesið báðar bækurnar hans um Sturlungu og finnst góðar.

Las um daginn bók eftir Hildi Helgadóttur sem heitir „Í felulitum." Ekki verður Hildur sökuð um að rembast við að vera skáldleg. Hún segir frá verunni í breskri friðargæslusveit í Bosníu og bókin er á margan hátt lipurlega skrifuð og eftirminnileg. Ekki samt svo að ég fari að endursegja hana hér.

Fátt er eins líklegt til að auka lýðræði í landinu og persónukjör. Langlíklegast er þó að fjórflokknum takist einu sinni enn að drepa slíkar nýmóðins hugleiðingar. Þó einhvers konar stjórnlagaþing verði samþykkt má alltaf drepa niður þann árangur af því sem kann að vinna gegn fjórflokknum. Valdamiklir þingmenn og flokksleiðtogar munu sameinast um að persónukjör sé stórhættulegt.


627. - Kemur ekki á óvart

Lyfjaiðnaðurinn notar hverja smugu til að koma sinni framleiðslu að. Eins og aðrir. Ég skil ekkert í því að næringarfræðingar skuli ekki velta fyrir sér næringargildinu í öllum þessum pillum. Einu sinni voru flest meðöl vætlandi. Nú eru flest í pilluformi. Með sykurhúð ef þau eru mjög vond á bragðið.

Og ekki nóg með það. Læknamafían herðir sífellt tökin. Ég er kominn á þann aldur að sérfræðingar af öllu tagi sækjast eftir að gera á mér allskyns óþarfar prófanir og athuganir. Auðvitað eru þær rándýrar. En mikill vill meira og sífellt er verið að finna upp nýjar og nýjar aðgerðir sem hægt er að græða á. Þetta er tilfinningin sem ég fæ, en auðvitað gerir þetta eitthvað gagn.


mbl.is Mikill kynjamunur á lyfjatöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

626. - Ég er búinn að taka upp símann og borga hundraðkall á haus

Veit bara ekki alveg um hvaða hausa er að ræða. Í alvöru talað þá skil ég ekki hvernig félagssamtök sem vilja láta taka sig alvarlega fara að því að láta pranga inn á sig annarri eins vitleysu og ömurlegu orðalagi. Kannski er markmiðið það eitt að tekið sé eftir auglýsingunni. Mér finnst samt langt gengið ef neikvæð umræða er skárri en engin fyrir samtök sem Rauða Krossinn. Hægt er að skilja það í sambandi við drasl sem verið er að reyna að selja.

625. - Nú er mér orðið mál að blogga svo ég set nokkur orð á blað

Bjarni og Charmaine eru farin til Bahama og verða þar í hálfan mánuð. 

Prófkjör fóru víða fram um helgina og Fjórflokkurinn hélt víðast velli að mestu. Þó er ekki með öllu vitað hvernig komandi kosningar fara. Ég held að þær fari illa.

Helgi Jóhann Hauksson er afburða ljósmyndari og þar að auki hefur hann ýmislegt að segja. Hvernig má hann vera að þessu? Hann er útum allt að taka myndir, bæði kreppumyndir og annað og svo skrifar hann þessi ósköp. Flestu af því er ég nokkuð sammála. Einkum því sem hann segir um Evrópumálin.

Alltaf er verið að tönnlast á því að Moggabloggið sé að deyja. Eflaust er það mjög orðum aukið en auðvelt að trúa þegar alltaf er verið að fjölyrða um fjáransvanda Morgunblaðsins. Það sem ég held að Moggabloggið ætti að gera til að tryggja sig er að auka samstarfið við aðrar bloggveitur á landinu. Markverðasta gagnrýnin sem ég hef séð á þessa bloggveitu er að hún vilji í krafti stærðar sinnar loka sig af og sem minnst af öðrum bloggurum vita. Þjónustan er ágæt hérna og kannski betri en víðast hvar. Um það veit ég samt lítið því ég hef aldrei bloggað annars staðar.

Hörður pabbi Bjarna frænda sagði mér ágætan brandara um daginn þegar ég var að spyrja hann hvers vegna Bjarna-boðið hefði bókstafinn L.

„Hann ætlaði víst að biðja um bókstafinn R......"

Tryggvi Þór Herbertsson og ýmsir fleiri taka undir orð Sigmundar framsóknarmanns um eftirgjöf á skuldum. Ég er einfaldlega þannig gerður að þeir sem segjast geta galdrað gull og græna skóga úr loftinu og breytt hverju sem er í peninga eða verðmæti vekja tortryggni mína. Það jákvæðasta við tillögur Tryggva og Sigmundar er að það er skynsamlegt að gera eitthvað strax í staðinn fyrir að vera að velta hlutunum fyrir sér árum saman.

Nú er bankahrunið búið að vera staðreynd í þónokkra mánuði. Ekkert hefur þó gerst annað en það að einn ríkisstjórnarræfill hefur gefist upp. Sá sem við tók virðist ekki vera hótinu betri. Skárra er að gera einhverja helvítis vitleysu en að gera ekki neitt.


624. - Ekki veit ég hvernig best er að hafa þessa fyrirsögn

Það hlaut að koma að því. Blogglystin, þessi undarlega þörf og löngun til þess að skrifa og skrifa og birta sín skrif á Moggablogginu, er að mestu horfin. Það getur vel verið að hún komi aftur af endurnýjuðum krafti en þangað til mun ég bara skrifa öðru hvoru og ekki mikið.

Það er skiljanlegt að þeir skrifi eins og hestar sem annaðhvort þykjast allt vita eða eru í einhverskonar framboði. Enginn hefur boðið mér í framboð, enda hefði það verið tilgangslaust, og í sívaxandi mæli hef ég fundið að ég veit ekki nærri allt. Ég hef þá reynt að hugga mig við að ég sé svo flinkur að skrifa að aðrir eigi að njóta þess. Það gengur ekki nógu vel lengur enda eru þeir svo hrikalega margir sem skrifa og skrifa.

Helgin sem nú er að líða er prófkjörshelgin mikla. Nú kemur væntanlega í ljós að þrátt fyrir allar búsáhaldabyltingar og antipata á stjórnmálum munu flestir kjósa fjórflokkinn áfram. Það er bara svo ríkt í okkur flestum að gera eins og við erum vön. Hugarfar almennings er þó breytt. Stjórnmálaflokkarnir eru líka breyttir. Ekkert er eins og það var. Mér finnst næstum eins og flest hafi gerst annað hvort fyrir eða eftir bankahrun. Mikilvægast er að sætta sig við orðinn hlut og lifa sínu lífi. Áhyggjurnar éta mann upp að innan.


623. Margt er það sem minnið veit og mætti skrifa niður

Nú er ég búinn að vera í viku í sumarhúsi í Grímsnesinu þó ekki sé sumar. Það er ágætt að vera í sumarhúsi um miðjan vetur. Hægt að flatmaga í heita pottinum þó frost sé og kuldi. Í myrkrinu er fróðlegt að skoða stjörnurnar og norðurljósin eða stjörnuljósin eins og stundum er sagt. Flestar heimsins lystisemdir er þarna að finna en þó ekki netsamband.

Hvers vegna í ósköpunum reyni ég ekki að skrifa eitthvað bitastæðara en blogg? Mér finnst að ég gæti það alveg. Það er að vísu óskapleg vinna en ég hef gaman af að skrifa og þó ég verði að gera margar tilraunir áður en ég fæ einstaka kafla rétta þá er því ekki að neita að gaman er að virða fyrir sér skrif sem hafa tekist bærilega. Þar að auki er svo auðvitað gaman að heyra aðra hrósa því sem maður veit að er vel gert.

Fyrir skömmu las ég bókina „Í húsi afa míns." Þar rekur Finnbogi Hermannsson æfiminningar sínar og lýsir afar vel því Íslandi sem var á hans uppvaxtarárum. Hans tíð var svolítið á undan minni og þar að auki í Reykjavík. Samt fannst mér mikil unun að lesa þessa bók. Hún lýsir ástandi sem ég þekki vel.

Ég gæti lýst lífinu eins og það var í Hveragerði á árunum uppúr 1950. Eflaust mundu einhverjir hafa gaman af því. Mér finnst engu máli skipta hvort mikið gerist í frásögnum eða ekki. Ef tekst að skapa það andrúmsloft sem lesendum finnst einhvers virði er björninn unninn. Finnboga tekst afar vel að leiða lesandann um refilstigu lífsins í styrjaldarlok og fyrstu árin eftir það. Samt gerist svosem ekki neitt í bókinni en það er einmitt höfuðkostur hennar og þessvegna er hún eftirminnileg.

Ég man þegar Maggi Kalla Magg tókst á við Ólínu kennslukonu. Sló hana hvað eftir anað með leikfimiskónum sínum. Hún reyndi að koma vitinu fyrir hann en hann sló og sló. Leikurinn barst inn á karlaklósettið og Ólína átti auðvitað ekkert að vera þar. Man samt ekki hvernig ósköpin enduðu eða útaf hverju var slegist.

Einu sinni kom Helgi Geirs skólastjóri að okkur Magga Kalla Magg í nánast auðri kennslustofu upp við töflu þar sem ég hafði nýlokið við að brjóta bendiprikið kennarans. Helgi spurði hvað þetta ætti að þýða eða eitthvað á þá leið. Ég sagði að við Maggi hefðum brotið prikið óvart. Kenndi semsagt Magga um þó hann væri alsaklaus. Hann sagði ekkert við því og við þurftum báðir að smíða ný bendiprik.

Um þessar mundir var Benedikt Elvar smíðakennari og sem betur fór var ekki mikið mál að smíða þessi bendiprik. Líka stunduðum við það þegar Benedikt var smíðakennari að renna hjól undir bíla sem bílasmiðir á okkar aldri þurfu á að halda.

Fyrsta minning mín um kosningar er sú að við vorum að leika okkur í garðyrkjustöðinni hjá Kalla Magg og hann var að hlusta á kosningaúrslit. Þá hafa einmenningskjördæmi áreiðanlega verið við lýði því mér fannst romsan um nýjustu tölur aldrei ætla að taka enda.

Sennilega er ég eitthvað að eldast. Þónokkrir af mínum æskufélögum og bekkjarbræðrum eru horfnir yfir móðuna miklu. Jói á Grund, Jósef Skafta, Lalli Kristjáns, Maggi Kalla Magg, Mummi Bjarna Tomm og svo framvegis og framvegis.

Orð eru máttug. Með því að lýsa einhverjum atburði með þínum orðum ert þú að setja þinn vilja og þína túlkun í höfuðið á öðrum. Verst er hvað fáir lesa nú orðið. Vel sögð orð eiga þó alltaf einhvern lesendahóp. Sjálfur les ég miklu meira en ég skrifa. Játa líka fúslega að vel skrifaður texti getur haft mikil áhrif á mig. Þegar ég les lélegan texta finn ég hinsvegar hvernig áhrifin verða að engu. Það er ekki hægt að hreyfa við neinum með illa skrifuðum texta. Það er lóðið. Þessvegna er eins gott að vanda sig.

Það góða við að vera einskonar eins manns fjölmiðill er að ekki er hægt að gera miklar kröfur til manns. Lesendur mínir ætlast þó eflaust til að ég skrifi eitthvað en hér er ég löglega afsakaður því ekki er netsamband í sveitinni.

Þegar ég byrjaði að tölvast að ráði svona um 1985 var flest það sem að tölvum laut yfirleitt kallað sínum ensku nöfnum. Á sýningu í Þjóðarbókhlöðunni, sem var bara hálfbyggð þá, var kynning á tölvudóti sem tölvufræðinemendur við háskólann stóðu fyrir. Greinilega hafði þeim verið kennt að nota íslensk heiti um allt mögulegt viðkomandi tölvum. Mér kom þetta á óvart og verð að játa að ég skildi ekki nærri allt sem sagt var því ég var svo vanur ensku heitunum.

Það er samt mikilvægt að láta ekki undan enskunni og rembast frekar við að finna nýyrði. Stundum tekst slík smíði afar vel en stundum miður eins og gengur. Einu sinni hétu þotur þrýstiloftsflugvélar og þyrlur helikopterar. Tölva er ekki alveg nógu gott orð fyrir computer en dugar samt ágætlega.

Ingibjörg Sólrún er líklega búin að vera sem pólitíkus. Farið hefur fé betra. Hún hefði aldrei átt að hætta sem borgarstjóri. Þar var hún ágæt en hafði ekkert í landsmálin að gera. Það er auðvelt að sjá þetta núna en fjandi dýrt.

Bankahrunið er að verulegu leyti Sjálfstæðisflokknum að kenna.  Að því leyti einkum að hann skapaði það ástand hér á landi sem hentaði útrásarvíkingunum ágæta vel. Með öðrum orðum allt í einu átti að fara að starfa eftir landsfundarsamþykktum. Það hafði aldrei tíðkast áður.

Furðumargir eru samt tilbúnir til að halda áfram að kjósa flokkinn. Ég trúi því ekki að það sé vegna þess að þetta fólk vilji halda áfram á þeirri frjálshyggjuleið sem við höfum verið á undanfarin ár heldur vonist fólk til þess að Eyjólfur hressist. Ég held að flokkurinn geti alveg yfirgefið nýfrjálshyggjuna sína og breytt sér aftur í þann sósíaldemókratíska flokk sem tryggði fjöldafylgið á árum áður. Ef hann gerir það ekki endar hann sem lítill og skrýtinn hægri flokkur sem sárafáir kjósa.

Í Grímsnesinu í góðu yfirlæti
geng ég um og sýni af mér kæti.
Allir munu eiga mig á fæti
sem eru þar með fyrirgang og læti.


622. - Fjórflokkurinn blívur. (Skyldi ég hafa notað þessa fyrirsögn áður?)

Almennt séð mundi ég álíta að niðurfelling skulda væri ígildi tekna og þá mjög hugsanlega skattskyld. Skyldu framsóknarmenn hafa íhugað að almenn 20 % niðurfelling á skuldum til handhafa húsnæðislána er líklega skattskyld og þannig mikill hvalreki fyrir ríkisvaldið. 

Nýju framboðin eru hægri og vinstri. Mér finnst Bjarni vera til hægri en Birgitta og Co. til vinstri. Kannski er þetta þó vitleysa. Kannski endar þetta allt saman með því að ég þarf að velja milli þess hvaða nýja framboð ég kýs. Þau gætu orðið skásti kosturinn.

Fjórflokkurinn svokallaði hefur starfað hér á landi í um það bil öld. Flestir flokkarnir nema Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa á þessum tíma stundað það að skipta um nöfn og skiptast með ýmsu móti. Fylgi flokkanna hefur verið mjög misjafnt nema þá helst Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur jafnan haft talsverða yfirburði yfir aðra flokka.

Sjálfstæðisflokkurinn á rætur sínar í sjálfstæðisbaráttunni eins og nafnið bendir til. Frá lýðveldisstofnun hefur hann oftast verið við völd. Vinstri stjórnir hafa venjulega hrökklast frá eftir 3 ár eða svo. Sjálfstæðisflokkurinn var þó lengst af socialdemokratískur flokkur og þess vegna eins stór og hann er. Eftir að Hannes Hólmsteinn varð aðalhugmyndafræðingur flokksins og Eimreiðarklíkan tók þar völd hefur nýfrjálshyggjan keyrt þjóðina nánast í gjaldþrot. Vinstri sveiflan þarf því engum að koma á óvart.

Í komandi kosningum er allt útlit fyrir talsverða vinstri sveiflu. Sjálfstæðisflokkurinn mun óhjákvæmilega minnka og útlit er fyrir samstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.


621. - Látum þá finna til tevatnsins

Margir eru um of fastir í því að einhverjum þurfi að refsa fyrir bankahrunið. Fara eins illa með viðkomandi og mögulegt er. Slík hugsun er slæm fyrir sálina og niðurdrepandi. Æskilegt er það samt en ekki nauðsynlegt. Mikið af andstöðunni við Davíð Oddsson var af þessum rótum runnið og kallið á aðgerðir til að finna sökudólga er enn sterkt í þjóðfélaginu.

Fyrst eftir hrunið fannst mér sú tilfinning ríkjandi að halda bæri þessu utan við stjórnmál og byrja ætti helst á öllu uppá nýtt án stjórnmálaflokkanna því þeir hefðu brugðist. Smám saman hefur mér skilist að stjórnmálin eiga ekki sök á þessu.

Allflestir voru fylgjandi því að frjálsræði yrði aukið og ef farið hefði fram skoðanakönnun nokkru fyrir hrunið um það hvort takmarka ætti útþenslu bankanna hefðu flestir verið á móti því. Vald stjórnmálaflokka átti að minnka við það að bankarnir væru einkavæddir.

Það er lýðræði á Íslandi. Sumir hafa talað um ráðherraræði en mála sannast er að ráðherrar ráða nákvæmlega því sem þingið vill að þeir ráði. Smátt og smátt hefur vald þeirra aukist en það er með samþykki alþingismanna.

Með stuðningi sínum við ríkjandi flokksformenn og með því ríkisstjórnafyrirkomulagi sem hér hefur ríkt hefur vald einstakra alþingismanna minnkað. Þeir geta þó hvenær sem er endurheimt það. Þeir vilja það bara ekki. Finnst af einhverjum ástæðum betra að aðrir skipi fyrir.

Dómsvaldið er tiltölulega óháð þó hægt sé að finna dæmi um að framkvæmdavaldið hafi of mikil afskipti af því.

Skipting valds er ekki fyrir hendi hér á landi og óvíst hvort slíkt sé æskilegt. Þá yrði að kjósa framkvæmdavaldið sérstaklega og löggjafarþing yrði aðskilið. Í stjórnarskránni eru vissar leifar konungsvalds og óljóst í sumum tilfellum hvert er hið raunverulega vald forseta.


620. - Um Ketil Sigurjónsson og Halldór E. Sigurðsson

Eitt skemmtilegasta bloggið hér á Moggablogginu er Orkubloggið hans Ketils Sigurjónssonar. Hann fylgist vel með öllu sem að orku lýtur og er mjög vel skrifandi. Greinarnar hans eru stórfróðlegar og svo langar og ýtarlegar að ég skil ekki hvernig hann má vera að þessu.

Auk þess myndskreytir bloggið sitt líka ævinlega og setur það vel upp. Fleiri blogg hér eru auðvitað mjög góð en Ketill einskorðar sig við orkumál og aðrir standa honum ekki framar þar svo ég viti.

Skoðanakannanir sem nú er hamast við að birta og túlka sem stuðning við Fjórflokkinn eru lítils virði. Það liggur ekki fyrir hvaða listar verða í framboði á hverjum stað eða hverjir verða á þeim listum. Á meðan er afar lítið að marka slíkar fylgiskannanir. Blaða- og fréttamenn þurfa þó að leika sér við eitthvað og þetta er ekki verra en hvað annað.

Hvort skoðanakannanir séu skoðanamyndandi eða ekki er spurning sem erfitt er að svara. Skynsamlegt er að banna opinbera birtingu á niðurstöðum kannana síðustu dagana fyrir kosningar. Það hefur verið gert víða og mér er ekki kunnugt um að það hafi gefist illa.

Á afmælisdaginn minn þegar mig vantaði eitt ár í fertugt var Borgarfjarðarbrúin vígð. Ég átti þá heima í Borgarnesi og var að sjálfsögðu viðstaddur vígsluna. Þessi dagur 13. september 1981 er mér þó ekkert sérlega minnisstæður. Ég man að Halldór E. Sigurðsson fyrrum ráðherra flutti aðalræðuna við vígslu brúarinnar og var það eðlilegt.

Halldór Eggert Sigurðsson var litríkur persónuleiki eins og sagt er. Sat á Alþingi frá 1956 til 1979. Var ráðherra 1971 til 1978. Samgönguráðherra þegar byrjað var á Borgarfjarðarbrúnni. Einnig fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra. Fæddist árið 1915 og dó árið 2003. Halldór var sveitarstjóri í Borgarnesi áður en hann settist á þing.

Ekki veit ég af hverju ég er að skrifa þetta um Halldór E. Ég man að ég hitti hann í Skallagrímsgarði á þjóðhátíðardaginn vorið sem Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti. Þar hrósaði hann mér fyrir ræðu sem ég hafði flutt á samkomu til stuðnings forsetaframboði Vigdísar nokkrum dögum fyrr. Halldór var einn af þekktustu stuðningsmönnum hennar úr hópi stjórnmálamanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband