Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

355. - Um málfar og strætisvagna

Um daginn spunnust dálitlar umræður um málfar á blogginu mínu. Þar hélt ég því fram að geymsluskúrar væru karlkyns en rigningarskúrir kvenkyns. Þennan skilning held ég að orðabækur staðfesti, að minnsta kosti sumar. Samt vildi Nanna Rögnvaldardóttir ekki bekenna þetta og kallaði sunnlensku. Í Skagafirði sagði hún að hvorttveggja skúrarnir væru karlkyns. Mér finnst samt eins og nefnifall þeirra blautu sé í fleirtölu skúrir en ekki skúrar.

Í Bónus á það að hafa gerst fyrir skemmstu að maður var að velta fyrir sér kaupum á tveimur mjög líkum vörutegundum. Kassadaman gat ekki hjálpað honum að ákveða hvort hann ætti heldur að taka, svo hann sagði að lokum: "Ég tek bara hvorttveggja." Stúlkan skildi þetta alls ekki og var hún þó íslensk. Að lokum kallaði einhver afgreiðslustúlka sem var á kassa skammt frá: "Hann meinar bæði. Ég lenti í þessu um daginn."

Undanfarna áratugi hefur verið markvisst unnið að því að grafa undan ferðum strætisvagna hér í Reykjavík. Áður fyrr var hægt að treysta því að strætó kæmi á svona 10 mínútna fresti á allar helstu stoppistöðvar. Nú er ekki hægt að treysta neinu varðandi strætisvagna, nema þá helst því, ef eitthvað er að marka bloggið Gurríar, að þeir gangi nokkurn vegin stundvíslega frá Akranesi til Reykjavíkur flesta morgna.

Þetta dugir þó fæstum og flestir hafa fyrir löngu gefist upp á því að reyna að skilja nýjustu útspekúleruðu áætlanirnar og eru búnir að fá sér bíl. Svona er þetta bara og ef fólk vill endilega vera að æsa sig útaf því, að ekki sé hægt að nota þessi farartæki til nokkurs hlutar, þá er bara á það að líta að skiplag allt og stjórn landsmála hefur stefnt markvisst í þessa átt lengi.

Stjórn strætó reddaði sér fyrir horn með því að bjóða skólafólki ókeypis far og hætti þá farþegum að fækka á sumum leiðum. Nú berast þær fréttir frá Akureyri að hægt sé að fjölga farþegum strætisvagna verulega með því að hafa ókeypis fyrir alla. Reykvíkingar trúa þó ekki svoleiðis bábiljum.

Auðvitað eru líka kostir við það að þurfa ekki að anda að sér óhollustunni frá þessum eiturspúandi drekum. Svo er ekki leiðum að líkjast ef Reykjavík getur nú loksins farið að líkjast alvöru amríkskri bílaborg. Reykjavík er alltaf að stækka og þegar búið verður að bora göng undir Hellisheiðina getum við farið að leggja undir okkur allt Suðurlandsundirlendið og hver þarf þá á strætisvögnum að halda?


354. - Meira bloggað um málfar

Margir virðast hafa áhuga á málfari og kannski á betur við mig að skrifa um það en margt annað. Ekki kann ég þó að fara með málfræðileg hugtök að neinu gagni, en það er kannski kostur. Of lærðir fyrirlestrar um jafn hversdagslegt málefni og málfar er, fæla fólk oft frá umræðu um það. Satt að segja eru flestir Íslendingar ágætir í málfræði, vegna þess eins að þeir tala ágæta íslensku. Að nefna hlutina sínum fræðilega réttu nöfnum getur hins vegar vafist fyrir mörgum. Einnig ber hættulega mikið á dómgirni og sumir skirrast ekki við að dæma alla hart sem hugsa öðruvísi en þeir.

Blaðamenn eru oft í miklum vandræðum með þessi mál, þó enginn efist um áhrif þeirra. Alltof mikið virðist bera á því hjá miðlunum að fólk sé sett í þá aðstöðu að þurfa að skrifa fjölda greina um hin fjölbreytilegustu mál á stuttum tíma. Oft er ekki að sjá að texti sé einu sinni lesinn yfir að þeim sem skrifar hann.

Íslenskan er þannig mál að málfræðin skiptir töluverðu máli. Í ensku skiptir málfræðin minna máli og ýmis merkingarblæbrigði geta falist i orðaröð eða öðru þessháttar. Á íslensku skiptir orðaröð yfirleitt litlu máli og þessvegna verður vísnagerð á íslensku auðveldari en ella.

Mér eru minnisstæð tvö dæmi um þetta. Á ensku er til dæmis sagt: "He works hardly" eða "He hardly works." Þetta hefur sitthvora merkinguna. Á íslensku má taka dæmi úr landsprófi frá árinu 1958. Þar var að finna setninguna: "Skipta sínum skerfi mátti." Setningin er nú reyndar úr bragfræðihluta prófsins og spurt var hvernig raða megi þessum orðum í upphafi vísu þannig að allra bragfræðireglna sé gætt. Athugandi er að merking setningarinnar breytist ekkert hvernig sem orðunum er raðað.

Sigurður Hreiðar segir í fyrirsögn á sínu bloggi: "Að láta féfletta sig án þess að drepa tittling." Þarna finnst mér að fast orðalag sé "að drepa tittlinga." (semsagt fleirtala). En vel getur verið að þarna sé mállýskumunur og sums staðar hafi tíðkast að nota eintöluna. Betra hefði kannski verið að nota orðalagið "að depla augunum." Kannski hefur höfundur frekar notað orðið tittlingur vegna þess að það getur líka þýtt allt annað en smáfugl.

Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina „Hafið" í sjónvarpinu. Nei, ég hafði ekki séð hana fyrr, en talsvert heyrt um hana talað. Skelfing fannst mér hún illa gerð. Kannski eldist hún bara svona illa. Á köflum var hún illa leikin, en þó voru þetta góðir leikarar sem fóru með flest hlutverkin.

Mér fannst eins og leikstjórinn hafi verið nýbúinn að gleypa Hollywood-pilluna um að því meiri djöfulgangur, því betra. Að mörgu leyti var kvikmyndin eins og yfirdramatíserað leikverk frá nítjándu öld. Hægt hefði verið að segja söguna sem þarna var sögð á mun látlausari og hófstilltari hátt. Langbestan leik í myndinni áttu svarti hrúturinn og gamla kerlingin.


353. - Málfarsblogg

Oft er rætt um málfar og réttritun hér á Moggablogginu og eru menn ekki alltaf á eitt sáttir um það. Réttritun er vandasamt mál. Stundum getur ritháttur skorið úr um merkingu. Réttritun er samt oftast lítilsvert mál samanborið við málfar, auk þess sem engin sérstök réttritun er réttari en önnur. Sumir gúgla gjarnan þau orð sem um er að ræða með þeim afbrigðum sem sem helst koma til greina og láta meirihlutann ráða. Það getur af ýmsum ástæðum verið varasamt.

Vafi getur einnig leikið á um mörg málfarsleg atriði eins og í hvaða falli orð skuli standa í ákveðnum dæmum og einnig um kyn orða. Allt getur þetta breyst í tímans rás og auk þess verið mállýskumunur á. Oft er erfitt að skýra málfræðiatriði með öðru en dæmum. Um flest málfræðihugtök eru þó til orð, en þau eru fæstum töm.

Margir gagnrýna ótæpilega það sem þeir telja rangt málfar. Mikið er um vafasamt og beinlínis rangt mál á blogginu. Röng málnotkun á öllum sviðum eykst áberandi mikið nú á þessum síðustu og verstu tímum og áhrif annarra tungumála, einkum ensku, fara sívaxandi. Sumum finnst nóg ef þeir sjálfir skilja hvað við er átt. Ekki er ég þeirrar skoðunar. Ég vil að sem allra flestir, og helst allir, skilji auðveldlega það sem skrifað eða sagt er.

Það væri að æra óstöðugan að ætla sér að leiðrétta öll þau blogg og vefmiðla sem maður les. Það sem þar er skrifað er oft illskiljanlegt, en stundum má með góðum vilja lesa í málið. Það sem einum finnst þokkalegt málfar finnst öðrum afleitt eða óþolandi. Enginn getur nokkru sinni orðið fullnuma í íslensku.

Um þetta má endalaust rökræða. Dæmin eru þó best og Sigurður Hreiðar er til dæmis duglegur við að koma með þau. Umræður spinnast síðan gjarnan um dæmin í athugsemdum við bloggið hans.

Nú er hægt er að fá tilkynningu á stjórnborð sitt ef athugasemdir birtast við blogg, sem maður hefur áður gert athugasemd við og beðið um vöktun á. Þetta getur verið gott fyrir þá sem ekki gera mikið af athugasemdum og lenda sjaldan í löngum og leiðinlegum svarhölum og svo er auðvitað hægt að sleppa þessari vöktum.

Ég man ekki hvort ég hef oft komið með dæmi á mínu bloggi um málfar sem ég tel rangt, en vel getur það verið. Sennilega hef ég þó ekki minnst á eitt atriði sem oft fer í taugarnar á mér. Það er þegar talað er um að veita peningaupphæðir eða fé til allskyns mála eins og verið sé veita vatni á engjar. Í setningunni hér á undan hefðu einhverjir sagt „veita peningaupphæðum", en það finnst mér vera röng fallnotkun.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband