Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

365. - Um gúgl- og bloggvæðingu hugarfarsins

Greinin sem ég sagði frá í gær og Salvör Gissurardóttir hafði bent á, er stórgóð, en alltof löng. Hún heitir: „Is Google making us stupid?" og fjallar einmitt um hvað attensjón-spannið er orðið lítið hjá fólki. Helst á allt að vera niðursoðið í klipp sem eru í hæsta lagi ein til tvær mínútur. Bóklestur fer minnkandi enda kallar hann á að hugsað sé um sama hlutinn langtímum saman. Helst vill fólk bara fá hljóð og mynd. Lestur truflar og kallar á einbeitingu og umhugsun. Þess vegna eru kvikmyndir og sjónvarpsseríur svona vinsælar. Þar er stöðugt áreiti, samt er hægt að gera eitthvað annað á meðan og þarflaust að hugsa.

Það er ekki fjarri lagi að kalla þetta gúglvæðingu hugarfarsins. Nú er svo komið að hægt er að verða sér úti um hverskyns upplýsingar á örskotsstundu um allt milli himins og jarðar og allt á það vera í hæfilega litlum bútum. Enginn nennir lengur að einbeita sér nema í smástund að sama málinu. Ekki veit ég hvar þetta endar. Heilinn í fólki breytist sennilega smátt og smátt. Líklega er ég með gamaldags heila enda leiðast mér kvikmyndir.

Það er meðal annars af þessu sem ég þori ekki með neinu móti að hafa bloggin mín mjög löng. Þá hættir fólk fljótlega að lesa nema það hafi því meiri áhuga á mér eða málefninu sem til umræðu er. Ef ég blogga langt mál um lítið efni (sem auðvitað er skemmtilegast) þá get ég alveg reiknað með því að lesendur mínir gefist fljótlega upp. Eða er það ekki?

Mér fannst fyndið að sjá Svarthöfða lalla á eftir prestaskrúðgöngunni í fréttunum um daginn. Sumir umhverfast út af svona löguðu og tala um að verið sé að niðurlægja þá sem trúa í einlægni. Mér finnst alls ekki svo vera. Mér fannst Svarthöfði (og líklega líka þeir sem gerðu hann út - þó ég viti ekkert hverjir það voru) bara vera að gera grín að þessari prósessíu, alveg burtséð frá hverju trúað er, ef einhverju.

Umræður um trúmál fara mjög oft út í einhverja vitleysu þó menn vilji gjarnan hemja sig. Alhæfingar vaða upp. Kristnir menn eru nú svona og hinsegin. Vantrúar menn gera þetta og hitt. Það er afskaplega fljótlegt að lenda í tómu bulli ef maður hættir sér í umræður um trúmál. Þá er nú betra að ræða um eitthvað sem maður hefur örlítið vit á. Þeir sem ættu að hafa vit á trúmálum eru oft manna fljótastir til að leiða slíkar umræður á villigötur. Sumir hafa líka gaman af löngum svarhölum og gera í því að æsa menn upp í trúmáladeilur í bloggheimum.


364. - Þórhallur og sérar tveir. Sitthvað fleira einnig

Aldrei er nóg pláss á þessu blessaða bloggi til að skrifa um allt það sem maður vildi gjarnan skrifa um. En svona er þetta bara og því verður ekki breytt.

Aðeins um körfubolta. Einu sinni prófaði ég þá íþrótt. Sigurþór í Lynghaga var svo þéttur fyrir að ef maður hljóp á hann þá hrökk maður bara til baka. Annars var ég svo lélegur í þessu og gat auk þess ekki troðið þrátt fyrir stærðina, að ég hætti fljótlega. Nú er verið að endurtaka það, sem byrjað var á þegar sýnt var fyrst frá NBA hér á landi. Ég hélt alltaf með Lakers og fannst skæhúkkið Jabbars það merkilegasta sem ég hef séð í körfubolta.

Eins og ég sagði frá um daginn gúglaði ég Þórhall Hróðmarsson eftir bekkjarkvöldið okkar á laugardaginn og eftir að hafa lesið grein hans um hjartalækna og þess háttar finnst mér ég vera kominn með kransæðastíflu. Þórhallur er bæði skáld og tónskáld svo það verður enginn svikinn af því að skoða heimasíðuna hans. Í rútunni uppá Hellisheiði söng hann fyrir okkur ljóðið Kántrýkvöld, en það er eitt af þeim ljóðum sem finna má á heimasíðunni hans.

Ég get ekki betur séð þegar ég gúgla nafnið konunnar hans en hún sé eða hafi verið kennari við Laugagerðisskóla. Séra Árni Pálsson sem þá var prestur þarna og bjó að Söðulsholti stóð fyrir því að ég var gerður að prófdómara við Laugargerðisskóla á sínum tíma. Strákarnir mínir báðir stunduðu þar líka nám, auk þess sem ég man vel eftir því að þegar verið var að byggja skólann vann ég hjá heildverslun Hannesar Þorsteinssonar og þar var talsvert af efni keypt í hann.

Einu sinni birti ég vísu á þessu bloggi (160. blogg) eftir Þórhall Hróðmarsson. Hún var svona hjá mér: Sæmi gerði samning við / svokallaðan fjanda. / Sæmi fengi sálarfrið / en Satan flösku af landa. Þórhallur sagði mér að þetta væri einhver fyrsta vísa sín en hann minnti að það hefði verið ég sem landaflöskuna fékk. Þetta kann vel að vera og einfaldast er líklega bara að hafa skipti á nöfnunum Satan og Sæmi í seinni hluta vísunnar.

Þegar ég fer að skrifa um vísur er erfitt að hætta. Langeftirminnilegasti vísnasmiður sem ég hef þekkt var séra Helgi Sveinsson prestur í Hveragerði. Þegar minnst er á ofangreinda vísu eftir Þórhall Hróðmarsson get ég ekki að því gert að mér kemur í hug önnur vísa þar sem minnst er á séra Helga. Hún er svona: Séra Helgi segist sjá / sankti Pétur í anda. / Við hliðið gullna hann ei má / hræðast nokkurn fjanda. Ekki veit ég eftir hvern þessi vísa er en hún gæti verið eftir séra Gunnar Benediktsson sem er annar eftirminnilegur kennari sem ég man vel eftir.

Salvör bendir á ágæta grein sem er hér.

Fáeinar myndir svo í lokin af því að veðrið er svo gott.

IMG 0837IMG 0841IMG 0858IMG 0867IMG 0875IMG 0880


363. - Brjánn, myndir, Subaru og ýmislegt fleira

Brjánn nokkur Guðjónsson segir í athugasemd við blogg Hildar Helgu:

„annað sem mér þykir fáránlegt við moggabloggið. það er elíta hinna stóru hausa, sem valin er af sérstakri beturvitringanefnd stjórnenda og siðapostula vefsins, á vikulegum vínarbrauðsfundum."

Ég legg til að Brjánn verði umsvifalaust tekinn í aðalsmannahópinn hvað sem hann segir. Hann á tvímælalaust erindi þangað.

Hver nennir annars að lesa blogg í þessari blíðu? Ef einhverntíma var þörf fyrir sumarfrí þá er það núna.

Ég er alltaf að verða ófeimnari og ófeimnari við að setja allan andskotann á bloggið mitt. Jafnvel persónulega hluti. Hvað gerir það svosem til? Mega ekki allir vita hvað maður er skrýtinn? Ekki er ég að gera á hluta annarra með þessu. Eða er það? Kannski finnst fjölskyldunni leiðinlegt að ég skuli láta svona.

Við síðustu eða næstsíðustu færslu kom dálítið af athugasemdum. Einkum virðist fólk velta fyrir sér hvernig hægt sé að verða forsíðubloggari. Mér finnst að allir sem blogga af einhverri alvöru á Moggabloggið eigi skilið að vera forsíðubloggarar. Og detta svo bara út ef þeir hætta að blogga. Annars held ég að menn ráði engu um það hvort mynd af þeim og upphafsorð bloggsins koma á forsíðuna eða ekki.

Subaruinn klikkaði einu sinni enn í gær. Startaði ekki þegar ég þurfti á því að halda. Meðan ég beið eftir að mér yrði bjargað hugsaði ég fast og lengi um hvað gæti verið að hrjá bílgreyið. Kannski komst ég að einhverri niðurstöðu. Það fáum við að sjá á næstunni.

Kannski ég setji inn eitthvað af myndum. Það gekk ágætlega um daginn.

Hér eiga að koma einar fimm myndir, en ég nenni ekki að vera að skrifa um hverja þeirra, því þá veit ég ekkert hvar textinn lendir. Ein af þessum myndum er af fjórum kók-kælum. Svona er nú farið með þá hér á ísa köldu landi. Svo má auðvitað bara kalla þetta kókauglýsingu. Ein myndin er af máluðum steini og líklega hundslöpp í hægra horninu. Svo er þarna tjaldur í vígahug, trjágöng og timburbrú. Göngin og brúin eru í Fossvoginum, sem er eiginlega næstum eins og sveit í borginni. Líka væri hægt að fara upp í Elliðaárdal. Þar sér maður ekki einu sinni hús nema á stöku stað.

IMG 0829IMG 0785IMG 0777IMG 0772IMG 0763


362. - Vísnablogg, Glitnir, piparúði, Þórhallur Hróðmarsson og fleira

Tók eftir  því í dag að vísnabloggið mitt var komið niður úr öllu valdi í vinsældum. Tók mig því til og orti nokkrar vísur og tengdi við heitustu fréttirnar. Margar þessara vísna eru óttalegt hnoð. Gerði meðal annars vísu um Glitni þar sem sagt var að gengi bakans hrapaði og margir yrðu af aurum apar eða eitthvað á þá leið.

Mér finnst það góð tilfinning að stjórnendur Glitnis skuli ekki ráða því hvernig dómar falla í þessu máli. Að öðru leyti þekki ég of lítið til málsins til að geta tjáð mig ítarlega um það. Mér skilst þó að undirréttur hafi verið búinn sakfella einhverja af þeim sem lögsóttir voru í þessu máli og Hæstiréttur hafi snúið þeim dómi við.

Vísu gerði ég einnig um piparúðamálið á Patreksfirði og síðast þegar ég vissi voru nokkrir búnir að svara þeirri vísu. Þó ekki í bundnu máli. Sá svo hluta af þessari umtöluðu vídeómynd í fréttum Stöðvar tvö áðan og verð að segja að ég er feginn að íslenska löggan skuli ekki hafa yfirTeiserbyssum að ráða. Þó veit ég ekkert um aðdraganda þessa máls.

Eitt helsta vandamál okkar Moggabloggara er minnimáttarkenndin. Við þurfum ekki að lúffa fyrir neinum. Okkar vefsetur er síst af öllu ómerkilegra en önnur slík. Hér eru margir og mikið að gerast alla daga. Svo mikið að maður má varla vera að því að lesa önnur blogg en Moggablogg. Aðrir láta mikið með önnur bloggsetur. Þar séu allir svo framúrskarandi gáfaðir. Þeir sem þykjast vera gáfaðir eru það sjaldnast. (Úps - þetta gæti átt við mig)

Guðmundur fósturfaðir Perlu Cavalier kom í dag og færði okkur púrtara og sælgæti í þakklætisskyni fyrir gæsluna á Perlu. Hún kom líka og var greinilega ánægð með að vera ekki skilin eftir.

Á bekkjarmótinu á laugardaginn ræddi ég svolítið við Þórhall Hróðmarsson bekkjarbróðir minn og benti honum meðal annars á bloggið mitt. Hann er sjálfur með heimasíðu og þar er ýmislegt fróðlegt að finna, einkum fyrir þá sem hafa gaman af tónlist. Urlið er: mmedia.is/thorhrod og svo er náttúrulega hægt að gúgla hann. Sömuleiðis er snjallt að gúgla nafn konunnar hans og þar kemur margt í ljós.


361. - Blogg um blogg um blogg um blogg

Alltaf fjölgar bloggurum og Moggabloggurum þó sérstaklega. Frændi konunnar minnar bloggaði nýlega um ísbjarnarmálið (iska.blog.is). Það er systursonur hennar Benedikt Henry Segura sem skrifar þar. Auðvitað gæti réttritun og annað þess háttar verið betra hjá honum, en Henry hefur svo sannarlega vit á þessu. Hann hefur starfað í mörg ár sem þyrluflugmaður í Kanada. Íslendingar í útlöndum fylgjast oft vel með okkur hér á klakanum enda er bloggið ágætur samskiptamiðill.

Arnþór Helgason er kominn í hóp forsíðubloggara og vel getur verið að það verði til þess að hann fari að blogga oftar en undanfarið. Sem er mjög gott. Hann vantar bara að setja mynd af sér á bloggsíðuna. Sem minnir mig á að mér veitti ekki af að finna skárri mynd af mér.

Sigurður Hreiðar ráðleggur mér að nota kommur sparlega og frekar punkt ef ég er í vafa. Þetta finnst mér góð ráðlegging og er að hugsa um að fara eftir henni.

Hildur Helga lætur móðann mása um eðli bloggs og fær helling af kommentum. Svanur Gísli Þorkelsson er harmi sleginn yfir að tilheyra ekki forsíðubloggurum. Hildigunnur Rúnarsdóttir játar á sig fordóma og opinberar svolítið þekkingarleysi. (Já, en þeir byrjuðu) Margir hafa miklar skoðanir á öðrum bloggum. Guðný Anna Arnþórsdóttir gerir ágæta úttekt á bloggum yfirleitt. Lára Hanna bendir á mjög góða færslu um blogg hjá Sigurði Þór Guðjónssyni og þannig mætti lengi telja.

Mér finnst þessi svarhali hjá Hildi Helgu orðinn svo langur að marklaust sé að bæta við hann. Annars hefði ég kannski gert það. Auk þess er betra að blogga bara um hlutina, en að sóa góðum hugmyndum í misgáfulega svarhala sem margir missa af.

Guðbjörg Hildur Kolbeins fjargviðrast yfir því í sínu bloggi að einhver (kannski hún) hafi kvartað yfir einhverju við Úrval-Útsýn fyrir sjö árum og ekki fengið svar ennþá. Jahérna, hefði ekki bara verið ástæða til að ítreka kvartið. Þetta tengist blogginu hjá Hildi Helgu að því leyti að Guðbjörg leyfir ekki neinar athugasemdir. Það er samt stundum þess virði að lesa bloggið hennar. Bloggið Sóleyjar les ég afar sjaldan og get ekki tekið þátt í skoðanaskipum um komment hjá henni.

Beturvitrungur bloggvinur minn (og jafnvel aðdáandi) skrifar í þennan svarhala og vitnar í einhvern sem sagði í sama hala að "eigandi síðunnar ber ábyrgð á því efni sem birtist á henni." Þetta held ég að sé mesta bull. Ef ég á að bera ábyrgð á því sem einhver skrifar á mína síðu þá hlýtur ritstjóri Morgunblaðsins að bera ábyrgð á mér. Ekki hef ég skrifað undir neitt annað.


360. - Hellisheiðarvirkjun skoðuð

Einkennilegur er merkingarlegur viðsnúningur orða. Alveg er ég viss um að einhverntíma hefur það þýtt sama og nautheimskur að vera talinn kýrskýr. Nú þykir fínt að vera kýrskýr. Einhverntíma hefur þótt fyndið að kalla þann sem var feitur íturvaxinn. Svo breytist merkingin smátt og smátt. Um þetta eru ugglaust til fleiri dæmi.

Fjölmiðlamenn taka oft undarlegu ástfóstri við ómerkileg orðatiltæki. Núorðið er allur fjandinn í burðarliðnum, jafnvel allskyns dót og drasl. Hvaða burðarlið? Mér finnst hálfdónalegt að tala um að aðrir séu í burðarliðnum. Svo er merkilegt hve margir líta aftur fyrir sig (líta við) þegar þeir fara eitthvert.

Þú lýgur meira en þú mígur, sögðum við krakkarnir stundum. Síst af öllu vorum við að vanda okkur við að tala, enda vissum við ekki hundaskít um málvöndun. Það var líka fátt til að glepja okkur. Í bíóinu hjá Siggu og Eiríki þótti bara gott ef myndir voru með dönskum skýringartexta, íslenskur texti þekktist ekki.

Sigurður Hreiðar og Beturvitringur deila pínulítið um orðalagið að vera með „farþega innanborðs".  Mér finnst allt í lagi með orðalagið en er sammála Beturvitring um að það er óþarfi að taka fram að farþegarnir séu innanborðs. Mín reynsla er sú að oft megi skera af  texta og stytta hann. Stundum reyni ég þetta, en það tekur tíma og umhugsun.

Fór á bekkjarsamkomu í gær þar sem við vorum samankomin nokkur úr bekknum sem við vorum í seinustu árin okkar í skólanum í Hveragerði. Við fórum og skoðuðum Hellisheiðarvirkjun, keyrðum uppá Skarðsmýrarfjall, þar sem var svartaþoka og lítið að sjá. Fórum einnig uppað Ölkelduhálsi, en þar var heldur ekki mikið að sjá og húðarrigning svo ekki var fýsilegt að ganga þar um. Síðan fórum við aftur niður í Hveragerði, keyrðum um þorpið og fórum uppað nýja hverasvæðinu við Reyki. Kvöldmat fengum við okkur saman á Örkinni og þá hafði fjölgað svolítið í hópnum. 

Hér eru nokkrar myndir úr ferðalaginu:

IMG 0800IMG 0803IMG 0807IMG 0815IMG 0816IMG 0819IMG 0794IMG 0797


359. - Ég finn enga fyrirsögn á þetta

Einn af bloggvinum mínum, sem kallar sig beturvitring er með nokkrar málfjólur á sínu bloggi. Flestar eru þær þannig að maður tekur ekki mikið eftir þeim, þegar maður rekst á þær, en við nánari umhugsun sér maður að þetta er alveg rétt hjá honum/henni. Sumt eru þó bara einfaldar slettur, sem mér finnst oftast lítilvægar. Það er málhugsunin sjálf sem hlýtur að vera aðalatriðið. Ekki réttritunarreglur, kommureglur eða slettur sem breytast hraðar en auga á festi.

Viðtengingarháttur og eignarfall virðast á hröðum flótta úr málinu og nefnir beturvitringur nokkur ágæt dæmi um það. Fólk sem talar í alvöru um að bakka afturábak er ekki bara að misþyrma tungunni, það er líka að gefa allri rökhugsun langt nef.

Sum dæmin þarna eru eiginlega ekki málvillur heldur það sem ég mundi vilja kalla hugsanavillur. "Ólögmætt brot" og "áætlun fyrirfram" eru ágæt dæmi um það.

Setningin "Teiserinn er skaðlegur fyrir fólk með gangþráð" er nú bara fyndin. Stundum geta misheppnaðir brandarar samt orðið að meinlegri málvillu með tímanum. Verst er að oft er það eins og að tala ofan í tóma tunnu, að vera að fjasa um málvernd.

Ég ætla að setja hér inn nokkrar myndir. Ekki veit ég hvar textinn lendir, en sjáum til.

5Þetta er hún Perla Cavalier, sem var í heimsókn hjá okkur í nokkra daga. Þarna er hún stödd í Fossvoginum og hefur sennilega fundið einhverja lykt.

 

 

 

 

6Svona er nú ástandið ennþá í henni Reykjavík (eða Kópavogi) Þetta er næstum örugglega klóak og hver veit nema það sé einmitt þetta, sem Perla hefur fundið lyktina af.

 

 

 

 

 8Svona verður munninn á undirgöngunum undir Nýbýlaveg. Mér finnst þetta bara flott.

 

 

 

 

 

 

Og svo í lokin ein smávísa, sem kannski lendir á ómögulegum stað:

Margur er glaður maðurinn

og meyjan hneigð fyrir gaman.

Svo kemur helvítis heimurinn

og hneykslast á öllu saman.

Ekki man ég hver orti þetta, en mér finnst vísan góð. Nóg bloggað að sinni.


358. - Ekkert um Baug né Árna Matt. Hvað er þá hægt að skrifa um?

Ég veit svosem ekki hvað það ætti að vera. Til að byrja með eru hér þrjár myndir sem ég tók í gær. Þær eru allar úr Fossvoginum og sú fyrsta þeirra sýnir einskonar graffiti-vegg sem komið hefur verið fyrir í Kópavoginum. Því miður vita fáir af honum og það er fullmikil fyrirhöfn fyrir verðandi graffara að komast í tæri við hann.

1Næsta mynd sýnir einhverja súlu sem líka er að finna í Fossvoginum. Sennilega er henni ætlað að koma í veg fyrir að eitthvað óhreint komist í land.

3Þriðja myndin er svo bara af útsýninu út á vog. Ég veit ekkert hvernig til tekst með birtingu þessara mynda, það verður bara að ráðast.

4Bloggið mitt er nú farið að verða eins og alvörublogg með athugasemdum, myndum og alles. Guð láti gott á vita, þó ég trúi takmarkað á hann. Nú er bara að halda dampi.

Eitthvað var ég að blogga um bókasöfn um daginn. Sem dæmi um undarlegar bækur, sem ég tek stundum að láni, get eg nefnt bók sem ég fékk á Bókasafni Kópavogs um daginn. Hún heitir "Gamlar götur og goðavald" (Um fornar leiðir og völd Oddaverja í Rangárþingi) Bók þessi er eftir Helga Þorláksson og er gefin út árið 1989 af Sagnfræðistofnum Háskóla Íslands.

Þetta er á margan hátt hin merkasta bók, en ég gafst samt upp á henni. Til að hafa full not af henni hefði ég þurft að þekkja miklu betur til á svæðinu. Áhugann á efni sem tengist þjóðveldinu og Sturlungaöld vantaði ekki, auk þess sem einn af alfrægustu nöfnum mínum kemur við sögu í þessari bók.

Ég tek oft að láni bækur sem við nánari athugun höfða ekki til mín eða höfða til mín á rangan hátt. Einnig veldur tímaskortur því oft að ég get ekki lesið þær bækur sem ég þó fæ að láni og vildi gjarnan lesa.

Hvers leita menn í bloggum sem þeir lesa? Mér finnst ekki áhugavert að bjóða lesendum fréttaskýringar. Þær geta þó átt rétt á sér stundum. Oft veit maður meira um tiltekin mál en sagt er í fjölmiðlum og vel má láta lesendur vita af því. Að linka í fréttir bara til að toppa næsta mann í hneykslun eða reiði finnst mér vera misnotkun á blogginu.

Nú eru menn farnir að stela notaðri steikingarfeiti. Jú, svei mér þá. Úr þessu má víst gera ágætis eldsneyti og spara sér bensínkostnað.


357. - Málfar enn og aftur. Svolítið um Netið líka

Ég fékk smá-ádrepu í kommentakerfið mitt við síðustu færslu. Þar er sagt: Sæll. Miðað við að þú telur þig sérfræðing í íslensku þá ættir þú að huga að "kommunotkun" í skrifum þínum:)

Picture 007Minn gamli vinnufélagi, Lára Hanna Einarsdóttir, tekur upp hanskann fyrir mig og gerir það ágætlega. Sjálfur mundi ég þó vilja bæta aðeins við. Hvort sem ég tel mig vera einhvern sérfræðing eða ekki, þá bendir þetta komment til þess að einhverjir lesenda minna upplifi skrif mín þannig, að ég þykist vera það. Ég á erfitt með að leiðrétta slíkt.

Varðandi "kommunotkunina" hittir kommentari á auman blett. Ég hef aldrei getað neitt í setningafræði og set yfirleitt greinarmerki bara þar sem mér finnst réttast að hafa þau. Ég veit samt að margir álíta greinarmerkjasetningu skipta jafnmiklu máli og mér finnst almenn málnotkun gera.

Picture 012Það er greinilegt að bloggið mitt er lesið af fleiri en ættingjum einum og betra að gæta orða sinna. Ég tel mig yfirleitt vera hófsaman í skrifum. Reyni að vera ekki mjög orðljótur og líta á gagnrýnar athugasemdir með jákvæðu hugarfari. Það að skrifa athugasemd við skrif annarra er talsvert mál. Eftir því sem minna er sagt í kommentunum er auðveldara við þau að fást. Ég hef samt alltaf áhyggjur af því að einhver hluti hugsanlegra lesenda missi af því sem sagt er í athugasemdum. Sjálfur sleppi ég oft að lesa komment hjá öðrum.

Um þessar mundir er það Netið, sem fangar athygli mína mest. Bækur og allskonar efnislegir miðlar geta í rauninni ekki keppt við það rafeindafyrirbrigði sem Netið er. Ég er ekki í neinum vafa um að Internetið er langmerkasta framþróunarskref mannsandans síðustu aldirnar og jafnast fyllilega á við hið prentaða mál Gutenbergs og vélvæðinguna sem varð í kjölfar iðnbyltingarinnar.

Picture 016Ennþá er samt ekki nema lítill hluti af möguleikum Netsins nýttur. Þó næstum allir Íslendingar geti til dæmis haft aðgang að Internetinu nota flestir aðeins brotabrot af möguleikum þess. Þegar síðan er haft í huga hve fáir þeir eru í raun í heiminum sem netaðgang hafa, má vel sjá hve lítið möguleikar þess eru nýttir. Og þá er ég bara að miða við hvernig Netið er núna. Ekki hvernig það verður í framtíðinni.

Í umræðunum um ísbjarnarmálið gat ég ekki að því gert, að ég sá séra Baldur fyrir mér læðast að ísbirninum og gefa honum selbita. (Með vísifingri og þumarfingri eins og hefðbundið er)

Ef einhverjar myndir fylgja þessari færslu, þá eru þær bara tilraunastarfsemi og að engu hafandi.


356. - Málfar, talningar og Moggabloggslokanir. Ekkert um ísbjarnaveiðar

Málfar virðist vekja svolitla athygli. Einkum þegar ólærðir menn eins og ég fjalla um það. Líklega fælir hið óskiljanlega sérfræðituldur, sem fræðingar láta stumdum frá sér fara um þetta efni, venjulegt fólk frá allri umræðu um það. 

Ég hef alla tíð haft áhuga á málfari. Naut þess í miðskóla að hafa góðan íslenskukennara, sem var séra Gunnar Benediktsson. Ekki er ég þó vel að mér í því sérfræðings-jargoni sem sumir þeirra, sem um þessi mál fjalla, hafa tamið sér. Í mínum huga hafa dæmin mest gildi. Ekki er nærri alltaf hægt að skilgreina hvað við er átt nema með ákveðnum dæmum. Skilgreiningar af öllu tagi og sérfræðijargon er þó áreiðanlega gott fyrir þá sem það skilja.

Varðandi fjárveitingar sem ég minntist á um daginn sendi Beggi mér link á fróðlega grein um þetta mál í Morgunblaðinu frá því í desember 1994. Þeir sem hafa áhuga á fallstýringum sagnarinnar að veita ættu að kíkja á þessa grein.

Ég minnist þess að á sínum tíma var Ellý nokkur Ármannsdóttir efst á vinsældalistanum hér á Moggablogginu. Svo lokaði hún blogginu sínu og hrapaði niður listann. Davíð Logi Sigurðsson blaðamaður, sem eitt sinn var bloggvinur minn, lokaði líka sínu bloggi ekki alls fyrir löngu. Nú sé ég að Jóna Á. Gísladóttir hefur læst sínu bloggi. Ekki veit ég hvað fólki gengur til með þessu, en ástæður hljóta að vera fyrir því. Annar hlutur sem Moggabloggarar stunda nokkuð er að leyfa ekki athugasemdir eða gera ráð fyrir að samþykkja þurfi þær áður en þær birtast eða birtast ekki. Þetta skil ég ekki heldur, en reikna á sama hátt með, að fyrir því séu góðar og gildar ástæður.

Már Högnason aka Gísli Ásgeirsson gefur í skyn að blogg-læsingar bendi til þess að bloggbók sé á leiðinni. Ekki veit ég hvað hann hefur fyrir sér í því.

Var að skoða aðsóknartölur hér á Moggablogginu áðan og virðist sem eitthvað mikið sé að. Sumar tölur eru alveg uppi í skýjunum en aðrar lengst niðri í kjallara. Ég skil þetta ekki og nenni ekki að ergja mig yfir því. Kannski tengist þetta ritstjóraskiptunum á Morgunblaðinu. Nei annars, ég segi bara svona. Líklega verður þetta lagað fljótlega. Ekki virðist aðgengi að Moggablogginu vera neitt skert, svo það er ekki yfir neinu að kvarta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband