899 - Hið nýja evangelíum

Hið nýja evangelíum birtist okkur í Kaupmannahöfn þessa dagana. Ráðamenn heimsins eru sammála um að ráðlegast til að hafa stjórn á skrílnum sé að skrifa uppá álit þeirra sem álíta að allt sé á hraðri leið til andskotans í loftslagsmálum.

Þeir sem allt hafa á hornum sér varðandi heimshlýnun og gróðurhúsaáhrif kunna vel að hafa rétt fyrir sér. Áróður þeirra er samt farinn að minna mig á trúarkreddur fyrri tíma. Sjálfur er ég svolítið hallur undir þá skoðun að ekki sé með öllu sannað að hlýnun andrúmsloftsins sé af mannavöldum. Þar með er ég víst orðinn afneitari og óalandi og óferjandi í ráðandi kreðsum í okkar heimshluta að minnsta kosti.

Áhættan sem því fylgir að taka mark á mér og mínum líkum í þessum efnum er samt töluverð. Hugsanlega meiri en hægt er að rísa undir. Mér finnst samt að svona afdrifarík mál megi ekki verða einkaeign sérfræðinga og stjórnmálamanna.

Þegar kemur að bankahruninu og kreppunni taka margir hlutina alltof mikið inná sig. Auðvitað hafa sumir það býsna skítt. Oft er það beinlínis útaf kreppufjandanum en stundum blandast aðrir hlutir saman við. Lífskjörin versna, ekki fer hjá því. En hefur það ekki alltaf verið svo? Eigum við einhverja heimtingu á að halda þeim lífskjörum sem einu sinni er náð? Er ekki lífið allt ein rússibanareið? Upp og niður í lífskjörum sem öðru? Allt fer þetta einhvern vegin og hæfilegt kæruleysi er af hinum góða.

Gríðarleg áhersla er nú lögð á að klekkja á ríkisstjórninni. Ekki bara Mogginn og ekki bara Bjarni Ben. og Sigmundur heldur eru allir virkjaðir sem mögulegt er. Ég ætla samt enn um sinn að styðja hana. Einkum vegna þess að ég er sannfærður um að aðrir kostir eru ekki betri. Enda virðist engum detta í hug að æskilegt sé að bjóða uppá eitthvað betra.

Eitt sinn var bryggja byggð á Íslandi. Man ekki almennilega hvar. Svo kom óveður og mikið brim og bryggjan brotnaði í spón. Þá var kveðið:

Hér var staurabryggja byggð.
Bæjarins mesta prýði.
Ellefu stundir stáli tryggð
stóð sú snilldarsmíði.

Mér varð hugsað til þjóðfundarins sem hér var haldinn með pompi og prakt í Laugardalshöll fyrir rúmum mánuði. Veit ekki hvers vegna mér datt ofanrituð vísa í hug í því sambandi. Staðreynd er þó að ekki hefur verið mikið minnst á þjóðfundinn í fréttum undanfarið. Það hlýtur þó að standa til bóta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, Sæmundur, þú ert orðinn óalandi og óferjandi. Þú ert fyrirlitinn af öllum sem þykjast vera eitthvað í þessum ráðandi kreðsum. Með orðum John Kerry:það er alveg tilgangslaust að eiga orðastað við menn eins og þig. Ég hugsa mikið um loftslagsmál eins og ljóst ætti að vera en hef þó lítið í alvöru skipt mér af þessum hlýnunarmálum nema með smástríðni. Ég finn þennan þunga straum sem mætir mönnum eins og okkur: Þú ert bara asni og skoðanir þínar eru ekki einu sinni umræðuverðar. Við ignorum þig bara. Ég held annars að sé best að vera sem lengst frá þessari heilaþvottarmaskínu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.12.2009 kl. 08:24

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Líklega erum við bara þónokkur sem höfum meiri trú á því að eðlilegar sveiflur í náttúrunni ráði meirium hlýnun og kólnun en kredduframsetning sem byggist á því að nokkrir fræðingar úti í heimi þurftu að byggja sér upp lifibrauð. Verst þykir mér þegar Íslendingar ætla að fara að beygja sig undir einhverja tölu í „minnkandi losun mengandi lofttegund“ sem í raun er ekki sambærileg hjá okkur og hjá þeim löndum sem raunverulega menga. Það þykir mér lykta af samskonar stertimennsku eins og þegar fyrirtæki með íslensk nöfn reyna að þýða þau nöfn á ensku til brúks utan landsteina.

Sigurður Hreiðar, 18.12.2009 kl. 09:46

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég held við getum ekki horft fram hjá því að miklar loftslagsbreytingar hafa átt sér stað undanfarna áratugi, sérstaklega hér á norðurhveli jarðar.  Við finnum það kannski ekki áþreifanlega á eigin skinni þegar við vöknum og hristum okkur í haustnepjunni en bráðnun okkar eigin jökla ætti að valda áhyggjum og sú bráðnun er sannanleg bæði í þyngd og rúmmáli. Og nú hafa vísindamenn sannað að bráðnun vegna yfirborðshlýnunar getur komið af stað keðjuverkun sem ekkert fær stöðvað. En Íslendingar þurfa helst að sjá og skynja til að trúa. Íslenskur kotungshugsunarháttur hefur alltaf staðið okkur fyrir þrifum og svo mun verða lengi enn.  Mér finnast þessar hugmyndir sem þjóðarleiðtogar eru að bræða saman um kvóta á losunarheimildir siðferðilega rangur í sjálfu sér. Að setja saman kvóta á <b>mengun</b>  sem hugsanlega varðar lífsskilyrði heilu heimshlutanna gengur ekki upp. Hvorki efnahagslega, stjórnmálalega eða siðferðilega.

Finnst til dæmis engum athugavert þegar álverssinnar rökstyðja byggingu álvera hér með því að þau mengi minna en samsvarandi álver knúið með kolaorku í Afríku? hvað er að fólki sem hugsar svona?

Við Íslendingar höfum ekki mikið vægi í heildarmenginu en við getum vel sett okkur eigin markmið varðandi koldíoxíðmengunina. Slíkt myndi skila sér margfalt í aukningu hátekjuferðamennsku. Skiptum út olíu sem orkugjafa fyrir rafmagn og vetni. Leyfum ekki mengandi stóriðj, endurheimtum votlendi hættum að menga sjóinn með óábyrgum fiskveiðum

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.12.2009 kl. 13:25

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Forlátið mér, en mig langar talsvert að fá að vita í hverju &#132;hátekjuferðamennska&#147; felst.

Sigurður Hreiðar, 18.12.2009 kl. 17:23

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk allir.

Mér finnst loftslagsmálin að mörgu leyti vera hin nýju trúarbrögð. Er eiginlega búinn að setja Icesave í skammarkrókinn.

Sigurður: Ætli "hátekjuferðamennska" byggist ekki á ferðamönnum sem hægt er að mjólka sem mesta peninga útúr.

Sæmundur Bjarnason, 18.12.2009 kl. 18:04

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sigurður, von er að spurt sé. En þetta var bara orð sem mér fannst passa um það sem ég var að hugsa.  Í stað þess að verða paradís bakpokaferðalanga sem litlu eyða, þá ættum við að reyna að höfða til ríkra ferðamanna með því að bjóða uppá eitthvað einstakt. Með því að byggja hér á umhverfisvænum gildum og virðingu fyrir náttúrunni. Við verðum hvort sem er aldrei tæknivætt iðnaðarþjóðfélag en gætum orðið nútímalegt veiðimanna og bændaþjóðfélag.....Ég veit þú forlætur mér þessa 19 aldar rómantík

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.12.2009 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband