882 - Þrjár bækur

Las nýlega bók eftir Ragnhildi L. Guðmundsdóttur sem hún nefnir „Býrðu í glerhúsi - fjölskyldusaga." Ekkert útgáfuár er að finna á bókinni en hún er örugglega nýkomin út. Fékk hana á bókasafninu. Í henni rekur höfundur æfi eiginmanns síns Rögnvaldar Helgasonar, sína eigin og síðan sögu fjölskyldunnar. Þau hafa bæði lent í ýmsu og börnin þeirra líka og um margt minnir bókin öll á fremur langa blaðagrein. Einkum síðari hluti hennar. 

Aðrir sem til þekkja mundu eflaust segja þessa sögu öðru vísi en hún er samt á margan hátt athyglisverð og heldur manni föngnum. Prófarkalestur er lítill og nokkuð um stafsetningar- og málvillur. Höfundinum liggur margt á hjarta og hún segir vel frá. Eiginmaður hennar var um tíma á vistheimilinu að Breiðuvík og einnig á Kumbaravogi. Sjálf varð hún fyrir einelti í æsku og börn þeirra hjóna hafa einnig lent í ýmsum hremmingum.

Önnur bók sem ég las nýlega kom út árið 1954, heitir „Æskustöðvar" og er eftir Jósef Björnsson frá Svarfhóli. Svarfhóll þessi er í Borgarfirðinum og þar ólst Jósef upp. Bók þessa las ég spjaldanna á milli af miklum áhuga og er hún þó bara lýsing á venjulegu fjölskyldulífi á venjulegum sveitabæ í lok nítjándu aldar. Sennilega segir það meira um mig en það sem ég les að ég hef mestan áhuga á hlutum sem gerðust fyrir mitt minni.

Þriðju bókina hef ég verið að glugga í undanfarið. Hún nefnist Almanak hins íslenska þjóðvinafélags 2010 og árbók Íslands 2008. Þessi bók er mjög merkileg og fróðleg. Samskonar bók er gefin út á hverju ári held ég. Fyrir löngu keypti ég Almanakið stundum sérprentað því það var svo ódýrt. Í því er samþjappaður mikill fróðleikur. Mest fer fyrir ýmsum upplýsingum um gang himintungla, flóðatöflum og svo að sjálfsögðu almanakinu sjálfu.

Einhvern tíma á Alþýðusambandsþingi eða LÍV-þingi hlustaði ég á Ásmund Stefánsson og einhverja fleiri ræða um bækur og bóklestur. Það undraði mig mest að svo virtist sem þeir færu aldrei á bókasöfn og þekktu þau ekki. Bókasöfnin eru algjörlega ómissandi fyrir alla þá sem ekki vaða í peningum og ég hef aldrei getað fyrirgefið Jóhannesi Helga að hafa á sínum tíma bannað að bækur sínar væru til útláns á bókasöfnum. Þær voru það nú samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Almanakið hefur verið minn ómissandi félagi í 40 ár. Sammála þessu með bókasöfnin. Maður kaupir miklu færri bækur en maður les.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.12.2009 kl. 00:35

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er líka að menn hafa ekki pláss fyrir allar þær bækur sem þeir vildu þó eiga nema vera auðmenn og auðmenn hafa yfirleitt ekki áhuga á bókum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.12.2009 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband