836 - Ný fjölmiðlalög

Ný fjölmiðlalög eru á leiðinni. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skýrði frá því að ný fjölmiðlalög væru væntanleg. Þegar reynt var að koma slíkum lögum á árið 2004 varð allt vitlaust. Ekki veit ég hvort svo verður nú og heldur ekki hvort í þessum lögum verður tekið á málum sem snerta Internetið. Búast má þó við að reynt verði að koma böndum yfir þá aðila sem mest fara í taugarnar á stjórnvöldum. Fyllsta ástæða er til að vera á verði. Mannréttindi eru ekki bara til hátíðabrúks og fjálglegra ræðuhalda.

Netsamskipti fólks eru með ýmsu móti. Blogg, Facebook, tölvupóstur og ýmislegt annað. Þau hafa svo áhrif á samskipti fólks í kjötheimum. Margt verður með þessum hætti flóknara en áður var. Kostirnir eru samt margir. Sjálfur hef ég hingað til komist af án þess að skrá mig á Facebook. Kannski fer ég samt þangað á endanum.

Þar sem Auðbrekkan kemur niður á Nýbýlaveginn er komið hringtorg og ný aðkeyrsla að veitingahúsunum og verslununum þar í kring. Engu að síður eru alltaf þónokkrir bílar á hverjum degi sem koma áleiðis upp Auðbrekkuna og snúa við þar í brekkunni til að komast að fyrirtækjunum. Maður gæti ímyndað sér að stjórnendur bifreiðanna mundu smám saman læra á þetta en svo virðist ekki vera. Kannski eru bílarnir bara svona margir.

Annars minnir þetta mig á nýja sláturhúsið úti í Brákarey í Borgarnesi. (Já, það var einu sinni nýtt.) Þar var langur, brattur og mjór gangur úr réttinni í banaklefann og lömbin voru afar treg til að fara eftir honum. Einhver sagði þá: „Þau læra þetta smátt og smátt."

Vel má halda því fram að ráðning Davíðs Oddssonar sem ritstjóra Morgunblaðsins hafi verið pólitísk aðgerð. Ef til vill ekki flokkspólitísk þó. Ýmislegt bendir til að þessi ráðning ætli að hafa heilmiklar afleiðingar. Ekki bara fyrir Morgunblaðið heldur einnig fyrir stjórnarandstöðuna sem áreiðanlega hélt að hún hefði líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér. Ömmi situr svo bara eftir með sárt ennið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég held að Katrín ráði ekki við þetta verkefni fremur en önnur í ráðuneytinu.  En við skulum sjá til..   Takk fyrir spaugsaman pistil

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 17.10.2009 kl. 09:53

2 Smámynd: Brattur

He, he... góð sagan af lömbunum og ekki verra að ég kem fyrir í henni...

Brattur, 17.10.2009 kl. 12:14

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ekki veit ég hvort þú átt mikið erindi á Smettu (Trýnu, Snjáldru, eða hvað við viljum kalla Facebook. Dóttir mín skráði mig þar inn fyrir einhverjum mánuðum til þess að ég fengi aðgang að myndum sem hún vildi láta mig sjá, og framan af reyndi ég eitthvað fyrir mér til að vera þarna virkur Smettill. En annað hvort er ég svona tregur eða -- ja, hvað? Mér finnst allt sem ég læt þarna inn vera eins og breitt á klett fyrir alheiminn og samskiptaleiðir innan Smettu flóknar. Nú má heita að ég sé hættur að opna fyrirbærið.

En maður veit aldrei. Þú ert mér eflaust klókari.

Sigurður Hreiðar, 17.10.2009 kl. 12:41

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes. Aðalspurningin er hvernig í ósköpunum þetta nýja fjölmiðlafrumvarp verður og hvað stendur í því.
Brattur. Kannski er þetta tóm vitleysa. Einhver sagði mér að einhver hefði sagt þetta.
Sigurður. Fésbók finnst mér skásta þýðingin ef menn vilja þýða nafnið. Tilfinningin um að allir geti séð það sem þarna er sett er eðlileg en kannski röng. Aðallega finnst mér allt sem þarna er sagt gerast ruglingslegt og skrýtið. Kannski minnkar sú tilfinning ef maður skráir sig.

Sæmundur Bjarnason, 17.10.2009 kl. 14:19

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

stilla má fésbókarprófílinn sinn þannig að einungis fésbókarvinir geti séð það sem maður setur inn.

Brjánn Guðjónsson, 17.10.2009 kl. 15:03

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Brjánn ég efast ekkert um að það má stilla fésbókina fram og aftur og auðvitað er það sem maður skrifar síst opinberara þar en á blogginu. Á stjórnborði bloggsins er líka fullt af allskyns stilllingum sem ég er skíthræddur við.

Sæmundur Bjarnason, 17.10.2009 kl. 18:24

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það kemur mér spánskt fyrir sjónir að þú, Sæmundur Bjarnason, gamli, góði  tölvugúrúinn okkar uppfrá, skulir segjast vera skíthræddur við stillingar í tölvuforritum. 

Bara prófa, Sæmi! Þú veist alveg að þetta er ekkert flókið. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.10.2009 kl. 22:47

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sko ég verð alltaf að þykjast vita allt svona, en geri það auðvitað ekki. Ef ég geri vitleysu er það verra en hjá öðrum. Auðvitað veit ég að ekkert týnist þó ég fikti. Svo er líka ágætt að vera með útlitið á síðunni alltaf eins. Hausmyndin er t.d. að verða klassík. Ástæðan fyrir fésbókarandúðinni er meðfram sú að ég veit ekkert hvernig ég vil stilla hana.

Sæmundur Bjarnason, 17.10.2009 kl. 23:11

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fésið á þér Sæmundur myndi bera af öðrum fésum á fésbókinni. Flestir stilla fésbókina þannig að aðeins vinir geti séð hana. Það sem gefur fésbók sjarma er ekki síst það að hún er ekki alveg eins opin og bloggið. Þar er hægt að klæmast meira og guðlasta meðal vinanna en t.d. á bloggi án þess að allt verði vitlaust.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.10.2009 kl. 00:16

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður. Það verður svo sjaldan "allt vitlaust" hjá mér að mér er alveg sama. Það sem ég skrifa á mitt blogg mega óvinir mínir alveg sjá. Mér vex í augum að vera allsstaðar þó ég þurfi auðvitað ekki að sinna öðru en mér sýnist. Orðinn svo vanur að blogga á hverjum degi að mér finnst ég vera að svíkja einhverja ef ég geri það ekki!!

Sæmundur Bjarnason, 18.10.2009 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband