777 - Hriflu-Jónas

Eitthvað var minnst á Hriflu-Jónas og Stóru-Bombuna á blogginu um daginn. Fræðast má um Stóru Bombuna á Wikipediu. (http://is.wikipedia.org/wiki/St%C3%B3ra_bomba

Ég sá Jónas alloft og óhætt er að segja að hann hafi verið eftirminnilegur maður. Þegar ég vann við Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi átti Jónas sumarbústað þar undir fjallinu sem Fífilbrekka var kallaður. Tún var þar afgirt og þurfti ég að fara þangað með hest sem dró múgavél. Vélin var svo breið að hún komst með naumindum í gegnum hliðið við Fífilbrekku. Jónas fylgdist með mér þegar ég renndi vélinni þar tvívegis í gegn og þótti mér farast vel stýringin á Jarpi og hafði orð á því við mig. Ég var að sjálfsögðu mjög upp með mér af því að svo frægur maður skyldi hrósa mér.

Ég man líka vel þegar þeir lentu í árekstri skammt frá hótelinu í Hveragerði Jónas og Unnsteinn Ólafsson skólastjóri. Jónas var á sínum Volkswagen R-29 og  í köflóttu flókainniskónum. Unnsteinn var að sjálfsögðu á sínum Willys-jeppa sem hallaðist mjög til annarrar hliðarinnar því hann var alltaf einn í honum. Ekki skemmdust bílarnir neitt og ekki man ég hvernig þessu lauk en eftirminnilegt var að sjá þessa menn standa þarna og rífast um það hver hefði átt réttinn.

Hilmar Hafsteinsson er talandi skáld. Í lofgerðarrullu sinni um mig í kommentakerfinu (munið að oflof er háð) segir hann mig vera hægri sinnaðan. Ég sem hélt endilega að ég væri vinstri sinnaður. Margt hef ég kosið um dagana en aldrei Sjálfstæðisflokkinn eða aðra orðlagða hægriflokka.

Ekki meira um kosningahegðun að sinni og hvað skáldskapinn snertir mun ég síðar reyna að svara Hilmari sem vert er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband