743 - Eitt og annað fréttatengt - og þó

Langt er gengið þegar eitt blogg er notað til að vekja athygli á öðru sem var að vekja athygli á enn öðru. Þannig er þetta samt með mig. Var í dag að lesa bloggið hans Jens Guðs þar sem hann vekur athygli á Guðna Karli Harðarsyni og bloggi hans. Mér finnst Jens alls ekki vera að gera grín að Guðna þó sumir virðist halda það. Sjálfur kannast ég vel við nafn Guðna þó ég hafi alls ekki lesið bloggið hans reglulega. Mér virðist hann vera einlægur andstæðingur ESB og þó ég sé það ekki finnst mér hann áhugaverður um margt. Ævisaga hans fæst fram með því að smella á myndina af honum.

Það er ekki nóg með að Alþingismenn séu búnir að eyðileggja liðinn „óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra" og gera hann að sjónarspili í pólitísku karpi heldur eru þeir einnig búnir að eyðilegga liðinn „athugasemdir við störf þingsins" og liðurinn „athugasemdir við störf forseta" er á sömu leið.

Af einhverjum ástæðum er forseti þingsins hættur að framfylgja þeirri reglu að þingmenn haldi sig við efnið. Einhvern pata virðast þeir líka hafa af því að nokkur fjöldi fólks fylgist með sjónvarpsútsendingum frá Alþingi. Þar með er þetta fyrst og fremst orðinn vettvangur pólitískra þrætumála vegna þess að lesendum karpsins í pólitískum dagblöðum hefur fækkað.

Þingmönnum er talsverð vorkunn. Möguleikum þeirra til að ná til fólks er þröngur stakkur skorinn. Flestir eru önnum kafnir við aðra hluti en að hlusta á þá og treysta þeim til að ráða fram úr sínum málum. Jafnan er hugtakið „þjóðaratkvæðagreiðsla" þingmönnum ofarlega í huga en þegar á reynir er ríkjandi stjórnvöldum fátt mikilvægara en að koma í veg fyrir slíkan ósóma.

Með þessu er ég ekki að leggja neitt til málanna um einfalda eða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu í ESB-málinu eins og virðist vera mál málanna nú. Það er bara þreytandi til lengdar að horfa uppá hræsni og yfirdrepsskap þeirra sem kosnir hafa verið til þingstarfa.

Guðbjörn Guðbjörnsson (gudbjorng.blog.is) er langheiðarlegasti sjálfstæðismaðurinn sem ég hef heyrt í lengi. Blogg-greinar hans er oft langar en alltaf læsilegar og verulega athyglisverðar. Sú nýjasta þeirra sem birtist í dag og höfundur nefnir: „Ótrúverðugur málflutningur minna manna - talandi um skoðanankúgun" er einhver sú besta sem ég hef lesið um pólitík dagsins í dag.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tek undir með þér um Guðbjörn, hann hefur vaxið mikið í áliti hjá mér undanfarnar vikur.

Óskar Þorkelsson, 15.7.2009 kl. 00:46

2 Smámynd: Kama Sutra

Ég las einmitt greinina hans Guðbjörns í kvöld - og ég verð að segja að hún er alveg dúndur.  Það er orðið óralangt síðan ég hef heyrt í svona skynsömum Sjálfstæðismanni. 

Hann hlýtur að vera að villast um í röngum stjórnmálaflokki... 

Kama Sutra, 15.7.2009 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband