741- Það er svo margt ef að er gáð

Fjöldi Moggabloggara sem skrifar um stjórnmálaástandið er svo mikill að mér er ofaukið. Held samt að hraði við ESB-umsókn skipti litlu máli varðandi möguleika okkar á því að taka upp Evru. En sleppum því.

Í gær hlustaði ég dálítið á útvarp. Meðal annars á endursögn Jóns Björnssonar á hinni frægu för Ása-Þórs og Útgarða-Loka til Geirröðarstaða. Margar eru þær frásagnirnar í fornum ritum sem vel mætti endursegja með nútímaorðalagi. Minnisstæðust af slíku er mér Þrymskviða og allt sem henni tengist. Óperur sem upp úr henni hafa verið samdar og margt annað. Þrymskviða er einstök meðal fornkvæða því hún er eingöngu skemmti- og grínkvæði. Eitt sinn kunni ég hana og upphafið kann ég að mestu ennþá:

Reiðr vas þá Vingþórr
es hann vaknaði
og síns hamars
of saknaði.

Skegg nam at dýja
skör nam at hrista.
Réð Jarðar burr
umb at þreifask.

Einhvern vegin svona var þetta. Með réttum orðskýringum er þetta kvæði stórskemmtilegt og efni þess bráðfyndið. Mikinn fjölda frásagna um Ása-Þór og hina fornu guði er að finna í Gylfaginningu Snorra Sturlusonar. Einnig eru fornkvæði og Íslendingasögur uppspretta margra góðra frásagna.

Jón þessi Björnsson er merkilegur maður. Hætti sem félagsmálastjóri og fór að ferðast um allt á reiðhjóli og skrifa bækur og gerði meðfram því stórgóða útvarpsþætti. Þátturinn sem ég hlustaði á var endurflutningur.

Hef lesið að minnsta kosti eina bók eftir Jón þar sem hann lýsir för sinni á reiðhjóli frá Póllandi og suður allan Balkanskaga og til Tyrklands. Sú lýsing er meðfram menningarsaga svæðisins sem hann ferðast um og stórfróðleg sem slík.

Hlustaði líka á upphaf erindis Lindu Vilhjálmsdóttur um sjómannalög og Sjöstjörnuna. Held að hún hafi líka rætt um eigin skáldskap og ýmislegt fleira. Rétt er það að Sjöstjarnan tengist mjög sjómönnum. Sjöstirnið er þetta fyrirbrigði líka kallað enda um hóp stjarna að ræða sem sumir segja að séu sjö en aðrir fleiri.

Þegar ég var að alast upp voru þekktustu himintáknin (auk tungls og sólar) Sjöstirnið og Fjósakonurnar ásamt Pólstjörnunni auðvitað. Fjósakonurnar eru þær þrjár stjörnur sem mynda belti Óríóns. Pólstjörnuna er alls ekki gott að finna nema með því að þekkja Karlsvagninn (öfug fimma) og vita að í rauninni snýst hann í kringum Pólstjörnuna. Seinna kynnti ég mér svo dálítið stjórnufræði og lærði að þekkja allnokkur stjörnumerki og ýmislegt fleira.

Blogg eiga að vera stutt og því er best að hætta núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband