705- Bifrastardvöl fyrir næstum fimmtíu árum

Ellismellur sem oft kommentar hér setti athugasemd við nokkurra daga gamla bloggfærslu hjá mér. Sagan sem hann sagði í kommentinu er svo góð að ég hefði helst viljað kopiera hana hingað. Til þess hef ég þó ekki leyfi svo ég læt nægja að vísa á bloggið mitt þar sem myndin er af Logaritmatöflunum.

Úr því að minnst er á Hreðavatn og báta (í athugasemdinni) man ég líka eftir því að einhverju sinni voru nemendur af skólanum skildir eftir á hólma einum í vatninu og varð sá atburður frægur mjög.

Það var líka á Hreðavatni sem ég fór í fyrsta sinn á skauta. Einhver hópur nemenda fór þá í skautaferð þangað í hífandi roki. Ég hafði fengið léða skauta (Hokkískauta reyndar með engum rifflum fremst) og komst í þá með harmkvælum. Steðjaði síðan út á vatnið og komst strax á fleygiferð því rokið var svo mikið. Fór þó fljótlega að hugsa um hvernig best væri að fara til baka. Lét mig þá detta og skreið aftur til lands. Hef ekki á skauta komið síðan.

Við Hreðavatn var glæsilegur sumarbústaður sem aldrei var kallaður annað en Milljón. Haft var fyrir satt að svo mikið hefði bústaðurinn kostað í krónum talið (gömlum) og þótti óheyrilega mikið. Einu sinni gekk ég alla leið út að Milljón og til baka aftur.

Betra er að veifa röngu tré en öngu, segir formaður Framsóknarflokksins eða eitthvað í þá áttina. Ég get ekki að því gert að mér finnast tillögur Sigmundar og fleiri um 20 prósent afslátt af öllum lánum vera svolítið hókus-pókuslegar. Til að hlutirnir virki þurfa flestir að skilja hvað verið er að tala um. Ég viðurkenni að ég skil Sigmund Davíð oft frekar illa.

Annars mátti ég varla vera að því að gera nýja bloggfærslu núna því það var svo mikið fjör í athugasemdakerfinu hjá mér í gær. Það var Evrópusambandsaðild sem þar var til umræðu. Bifröst er ekki nærri eins spennandi.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Saga Ellismells er góð -- og kunnugleg. Það lentu margir í hrakningum á skektunum -- sem voru raunar eign Samvinnuskólans og líklega eini vísir hans að útgerð. Haustið 1958 var raunar ekki nema önnur skektan til taks þegar róa skyldi í einni af fyrstu útivistunum en það var erfðavenja að fara með keipa og árar út að vatni strax að hausti og rétta við bátana sem yfir sumarið var hvolft á nesinu fram af fjárhúsunum á Hreðavatni (bænum).

Talið var víst að skektunni hefði verið hrundið á flot áralausri og keipalausri einhvern tíma um sumarið og þar hefðu hrekkvísir hálfvitar verið á ferðinni. Og kann sosum að vera, því þegar kom fram í ísa sást hvar bátur þessi lá á vatnsbotni rétt uppi við bakka langleiðina út undir Milljón. Þegar ísa leysti frá landi var gerður út leiðangur að bjarga bátnum sem og tókst, ofurhugar sem létu kulda vatnsins ekki á sig fá óðu út að honum upp undir kverk og kræktu í hann krók með bandi og svo var hann dreginn upp og vatninu hvolft úr honum, sóttur síðar þegar betur hafði þiðnað ísinn. Og vel var hann þéttur þá er honum var róið heim.

Þessir bátar voru lengi til. Ég og fjölskylda mín notuðum þá gjarnan á sumrum þegar ég var þarna kennari síðar á ævinni og fórum þá stundum langar róðrarferðir. Og kræktum gjarnan í bleikju í leiðinni. Hún er býsna góð, Hreðavatnsbleikjan.

Milljón: Ein af siðferðisskyldum Bifröstunga var að gæta þess að sumarbústöðum við vatnið væri ekki misboðið. Enginn skyldi geta sagt að helvítis pakkið úr Bifröst hefði skaddað bústaðina. Reglulega var fylgst með allt væri í lagi með Brandsbústað, Vinaminni, Kvist og Milljón. Eitt sumar meðan ég átti heima í Bifröst sá ég að einhver var heima í Milljón. Gekk að húsinu, kvaddi dyra. Maður nokkur kom til dyra, væntanlega arkítektinn sem átti herlegheitin. Ég sagði til mín, rakti stuttlega hve oft ég og fólk á mínum vegum hefði gengið þar um garða til að fullvissa sig um að allt væri í lagi, og spurði hvort nokkur vegur væri þess að ég gæti fengið að líta herlegheitin augum innan frá. Nei, svaraði maðurinn snúðugt og skellti þar með hurð í lás, nánast á nefið á mér.

Enn seinna átti fjölskylda mín um tíma nokkurt innhlaup í Kvist, sem er næsti bústaður við Milljón. Við komum á þremur bílum laugardag nokkurn en við Kvist var aðeins góð aðstaða fyrir tvo, þeim þriðja var lagt í bílastæði sem búið var að gera utan girðingarhornsins við Milljón. Þegar grípa átti til hans aftur var búið að leggja öðrum bílum aftan við hann og þétt á hlið. Kvatt var dyra í Milljón og kurteislega beðið um að hleypa bílnum úr prísundinni. Konur tvær urðu fyrir svörum með semingi og sögðu að vel hefði mátt sjá að þetta væri einkastæði. Þá væntanlega fyrir Milljón. Ég benti á að stæðið væri utan lóðar Milljónar og því alveg jafn heimilt fyrir hvern sem var að leggja í það eins og eigendum Milljónar hefði verið að hasla því þar völl. Úr þessu varð orðaskak nokkurt sem endaði þó með því að fangabílnum var hleypt burtu.

Ég hef af þessum tveimur ástæðum ákveðið að setja kíkinn fyrir blinda augað ef ég sé einhvern tíma eitthvað misjafnt vera í uppsiglingu við Milljón.

Fyrirgefðu Sæmundur hvað þetta er langt, en fingur mínir fóru ósjálfrátt af stað við þetta upplegg þitt.

Sigurður Hreiðar, 4.6.2009 kl. 10:41

2 identicon

Skemmtilegur pistill hjá Mosfellingnum Sigurði Hreiðari. Takk kærlega fyrir. Mig minnir að eigandi "Milljónar" hafi verið tiltekinn arkitekt og man nafnið allavega, þótt svo fínt fólk hafi lengst af verið langt frá því alþýðufólki, sem ég hef talið mína vini og kunningja - sem betur fer líklega!

Ellismellur 4.6.2009 kl. 13:24

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sigurður og Ellismellur. Verulega gaman að þessu.

Ein spurning: Heitir bústaðurinn virkilega Milljón? Er hann enn kallaður þetta? Einu sinni dvaldi ég í viku í "Sambúð" sem var bústaður sem eitthvert stéttarfélag eða starfsmannafélag átti. Líka var ég eitt sinn á vikunámskeiði á Bifröst. Já, þetta er stórkostlegt svæði.

Sæmundur Bjarnason, 4.6.2009 kl. 15:08

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Hef ekki hugmynd um raunverulegt heiti þessa bústaðar, ef nokkurt. Má ég bæta við einni sumarbústaðasögu frá Hreðavatni? Í landi skógræktarinnar við mjóddina þar sem vatnið virðist enda til suðurs er annar svona auðkýfingabústaður. Eitt sinn er ég gekk þar í kring kom ég auga á skilti í glugga sem á stóð: „Sá sem brýst hér inn gerir það á eigin ábyrgð.“

Sigurður Hreiðar, 4.6.2009 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband