679- Enn um dauðarefsingar

Það er margt sem bendir til þess að enn og aftur sé ástæða fyrir mig til að fjölyrða um þetta. Jón Valur Jensson hefur nokkrum sinnum skrifað heilmikið um þessi mál í athugasemdakerfið mitt. Þessi innlegg hans eiga það sannarlega skilið að vera lesin af öllum sem rekast hingað inn. Þeir eru svosem ekkert rosalega margir en eflaust fleiri en þeir sem kommentin lesa.

Jón Valur leggur heilmikla vinnu í svörin til mín og er sannfærandi. Í einstaka tilvikum hefur hann breytt skoðunum mínum en ég get alls ekki verið sammála honum í öllum atriðum. Að þessu sinni mun ég einkum beina athygli minni að svörum hans við síðasta innleggi mínu.

Margt af því sem ég hef sagt um þyngd refsinga, kynþáttamál og fælingamátt refsinga hefur Jón Valur í raun fallist á með því að minnast ekki á það. Sigurþór P. Björnsson segir í einu innleggi sínu: Hinar miklu og heitu umræður um dauðarefsingar, snúast aðallega um dauðarefsingar í Bandaríkjunum og hveru ómannúðlegar þessar refsingar eru.

Þetta er alveg rétt hjá Sigurþóri. Hvort sem það er með réttu eða röngu þá snúast umræður um dauðarefsingar einkum um hvernig þessum málum er fyrirkomið í Bandaríkjunum. Það sem Jón segir síðan um dauðarefsingar í öðrum löndum er beinlínis staðfesting á þessu. Auðvitað eru dauðarefsingar algengari víða annars staðar. Það vita þeir mjög vel sem um þessi mál fjalla. (Nefndar tölur eru samt ekki nákvæmar. Til dæmis hafa aftökur í Bandaríkjunum undanfarið verið um eitt hundrað á ári en ekki að meðaltali 50 eins og Jón segir.)

Sú staðreynd stendur samt óhögguð að Bandaríkin eru eina vestræna ríkið sem beitir dauðarefsingum. Þau ríki öll sem við berum okkur oftast saman við hafa látið af þessum grimmilegu refsingum. Þó aðrir séu verri en Bandaríkjamenn afsakar það þá ekki á nokkurn hátt. Þessu getur Jón Valur ekki kyngt og segir beinlínis á einum stað: Þessu verður ekki á nokkurn hátt jafnað til hins langtum skaplegra ástands í Bandaríkjunum.

Meginatriðið í gagnrýni Jóns í nýjasta innlegginu snýst þó um að ég hafi ekki komist réttilega að orði þegar ég sagði í bloggi mínu í gær að líta megi á Bandaríkin á vissan hátt sem höfuðvígi dauðarefsinga. Þetta get ég vel fallist á eins og fram kom í einu svara minna í athugasemdum gærdagsins.

Í síðustu athugasemd Jóns er helst að skilja að menn hljóti einkum að skrifa um dauðarefsingar til að hafa áhrif á yfirvöld í þeim löndum þar sem þær eru algengastar. Svo er alls ekki um mig. Þessi bloggskrif mín eru pælingar um mál sem allir hugsandi menn hljóta að velta fyrir sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Finnbogason

Það sem er athyglistvert við dauðrefsingarnar í BNA er að þær eru, eins og þú bendir á nokkuð óvenjulegar miðað við að þeir eru velmegandi, vestrænt ríki. Þeir eru hinsvegar bara eitt einkenni djúpstæðara vandamáls ekki orsök

Resigleði einkennir BNA men, umfram til að mynda Evrópubúa. Skortur á umburðarlindi og dómharka. Bandaríkin ganga fyrst og fremst út á eignarrétt og þá hugmynd að allir mega verja hann með valdi upp á eigin spýtur. Þetta er auðvitað ansi stór fullyrðing en þegar haft er í huga hveru stutt er síðan hvítir landnemar réðust þangað inn og þurftu að réttlæta framferði sitt gegn frumbyggjum álfunnar verður þetta skiljanlegra.

Eignarréttinn á landi og náttúruauðlindum sem gerður var upptækur frá frumbyggjum Ameríku hefur vitanlega þurft að verja og þegar landnemarnir voru að helga sér landið gerðu þeir það sjálfir með skotvopnum. 

Eins og sagt hefur verið „nationbuilding is a bloody affair“ það má segja að BN-menn séu enn í þessum fasa. Þetta ástand einkenist af grimmd og skorti á umburðarlindi.

Menn skyldu velta fyrir sér hvers vegna í þessu landi þar sem íbúarnir telja aðeins 5% mankyns eru nú 25% fanga mannkyns. Þetta segir okkur að samfélagsgerð sem svona er ástatt um getur ekki verið GÓÐ eða eftirsóknarverð og við ættum að horfa annað eftir fordæmum.

Sævar Finnbogason, 9.5.2009 kl. 13:53

2 identicon

Nokkrar spurningar Sævar um önnur lönd en USA:

Vitum við um alla fanga í öllum löndum og þá þeim löndum þar sem mannréttindabrot eru gífurleg og hrottafengin?

Vitum við um allt fólk eða jafnvel stóran hluta þess fólks sem þau lönd hafa dæmt til dauða og drepið á hroðalegan hátt?

Og minnkar ekki fangatala þeirra landa gífurlega ef þeir drepa bara fullt af fólki? Eins og Kína þegar þeir köstuðu þúsundum manna í ár og drekktu. 

Jón Þór 9.5.2009 kl. 15:00

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Á þessari vefsíðu má sjá fjölda framkvæmdra dauðadóma í Bandaríkjunum frá 1930 til 1.4. 2008, nákvæmast þó frá 1976, einnig fjölda hvítra, þeldökkra og annarra eftir uppruna. Hæst komst fjöldinn eftir 1976 upp í 98 árið 1999, síðan 85 árið 2000, 66 árið 2001, 71 árið 2002, 65 árið 2003, 59 árið 2004, 60 árið 2005, 53 árið 2006, niður í 42 árið 2007 og enginn 1.1.–1.4. 2008, en nánari tölur um 2008 fást á annarri vefslóð:

http://www.deathpenaltyinfo.org/executions-united-states-2008, sem sýnir (með nöfnum manna, aldri, ríki (fylki), kynþætti og aftökuaðferð: með banvænni sprautu í öllum tilvikum nema einu, þar með raflosti), að aftökurnar voru 37 alls á því ári.

Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 9.5.2009 kl. 17:04

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæmundur, þessi umfjöllun þín er virðingarverð. Dauðarefsingar eru óásættanlegar, samfélag manna á að byggja á samúð og samhyggð en ekki refsingum og ranglæti.

Brynjólfur Þorvarðsson, 9.5.2009 kl. 22:30

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Brynjólfur, algerlega sammála þér.

Sæmundur Bjarnason, 9.5.2009 kl. 22:41

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú tekur eftir því, Sæmundur, að aftöku-tölurnar í Bandaríkjunum hafa aldrei náð upp í 100 á ári frá 1976. Þær voru 56,6 að meðaltali á ári á árunum 2001–2008, en síðustu þrjú árin, 2006–8, voru þær 44 að meðaltali á ári.

Jón Valur Jensson, 10.5.2009 kl. 01:14

7 Smámynd: Sævar Finnbogason

Jón Þór.

Ég vona að ég skilji spurningar þínar.

Nei. Við vitum ekki um alla fanga í öllum löndum. En ég var hér að bera Bandaríkin saman við önnur vesturlönd. Mér er fullljóst að ástand manntéttindamála í í Kína er fyrir neðan allar hellur. Kínverjar taka fleirri af lífi en Bandaríkjamenn.Ég hvet fólk til að ganga til liðs við Amnesty International og láta þetta sig varða og styðja og Unisef. 

Ástæðan fyrir því að ég talaði um Bandaríkin í þessari athugasemd var til að vekja fólk til umhugsunar um að mannréttindabrot og grimmd viðgengst nær en við höldum og Bandaríkjamenn sem vilja láta líta upp til sín fyrir manngæsku og réttlæti standa ekki undir því tilkalli. Í síðustu viku ákvað BNA forseti að ekki yrðu höfðuð mál gegn þeim sem bera ábyrgð á pyntingum fanga í Guantanamo og að því er ég best veit hefur aðeins ein stúlka sætt ábyrgð fyrir hrottaskapinn í Abu Raib fangelsinu í Bagdad.

Svo skulum við ekki gleyma því að BNA stjórn hefur einnig ýmist rænt fólki í öðrum löndum eða handtekið í Írak og Afganistan og flutt í "leyni fangelsi" þar sem það er yfirheyrt við "betri skilyrði" 

Ég var semsat ekki að bera Bandaríkin saman við það sem verst gerist í mannréttindamálum, enda líta flestar þjóðir sæmilega út í samanburði við Kína. Þessvegna væri það heldur gagnslaus samanburður nema til þess að réttlæta hörku og dauðarefsingar í Bandaríkjunum.

Vonandi svarar þetta spurningunni

Sævar Finnbogason, 10.5.2009 kl. 03:39

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón Valur. Þú tekur meðaltöl sem þér henta. Á einhverju árabili sem ég kynnti mér sérstaklega var meðaltalið nálægt hundrað. Annars finnst mér tölur ekki skipta meginmáli í þessu.

Sæmundur Bjarnason, 10.5.2009 kl. 09:12

9 identicon

Ég er þeirrar skoðunar að við verðum og þurfum að skrifa og tala um öll lönd þar sem viðgangast  mannréttindabrot og ekki láta neitt sleppa:  Afghanistan, Bandaríkin, Iran, Írak, Kína, Kúbu, Libýu, Nigeríu, Pakistan, Palestínu (af völdum Ísrael), Saudi Arabíu, Somalíu, Súdan, Zimbabve.  Og ekki síst í þeim löndum þar sem grimmdin og villimenskan er slík að fólk er daglega kannski kvalið til dauða .  Dómi samkvæmt.  Sjálf hef ég skrifað til Amnesty International og United Nations.  Póstföng þeirra er ekki erfitt að finna og ekki erfitt að skrifa þeim.  Og takk fyrir að ´hlusta´ og skrifa.

EE elle

. 10.5.2009 kl. 13:47

10 identicon

Og vil minna fólk á 911.  Harka Bandaríkjamanna jókst eftir það.  Eftir að þúsundir Bandaríkjamanna brunnu inni í háhýsum og komust ekki út.  Nema þeir sem stukku niður á ganstétt út um glugga af kannski 70. hæð og dóu samstundis. 

EE elle

. 10.5.2009 kl. 14:00

11 identicon

Þ.e. gangstétt

EE

. 10.5.2009 kl. 14:02

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég tel að við séum ekki að tala um lönd hérna fyrst og fremst heldur séum með heimspekilegar vangaveltur um siðfræði dauðarefsinga.

Sæmundur Bjarnason, 10.5.2009 kl. 14:06

13 identicon

Sævar, þú sagðir:"Menn skyldu velta fyrir sér hvers vegna í þessu landi þar sem íbúarnir telja aðeins 5% mankyns eru nú 25% fanga mannkyns"

Þó vitum við ekkert um fangatölu í villimannslöndum heims.  Og fyrir utan það komast mun færri í fangelsin í þeim löndum þar sem fólk er oft bara drepið og látið hverfa af villimönnunum sem stýra þar.  Samkvæmt orðunum sem þú notaðir sjálfur, varstu ekki bara að bera Bandaríkin saman við vestræn lönd eins og þú segir nú.  Og ef við miðum fangatölu okkar við USA brenglast hlutfallið vegna þess að fangatala USA fyrir hvern tímapunkt hækkar þar sem föngum er haldið lengur í fangelsum þar.  Vil segja líka að ég er ekki að skrifa undir mínu nafni núna og nokkrum sinnum fyrr vegna þess að ég þorði það ekki.  Og það vegna hatursupphrópana sem oft koma ef maður ver Bandaríkjamenn sem eru oft heiðursmenn.

Jón Þór 10.5.2009 kl. 15:35

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæmundur, þetta svar þitt kl. 9:12 er alls ekki nógu gott, miðað við það, sem hér er komið fram, en hlýtur að koma til af því, að þú hafir ekki kynnt þér grandgæfilega þær upplýsingar, sem ég vísaði til í 1. innleggi mínu hér ofar, í gær kl. 17:04.

Þú slærð eftirfarandi upp í grein þinni: "Til dæmis hafa aftökur í Bandaríkjunum undanfarið verið um eitt hundrað á ári en ekki að meðaltali 50 eins og Jón segir" – og þar áttu við mig. Þetta var mjög nálægt því að vera öfugsnúningur á staðreyndum, Sæmundur, en kl. 9:12 hnykkirðu enn á og segir: "Á einhverju árabili sem ég kynnti mér sérstaklega var meðaltalið nálægt hundrað." Þetta bendir eindregið til þess, að þú hafir ekki farið inn á þær aðgengilegu upplýsinga-vefsíður, sem ég vísaði til, og svo bætirðu við: "Annars finnst mér tölur ekki skipta meginmáli í þessu"!

En vissulega skipta tölur máli, t.d. fyrir þá ca. 50 færri menn að meðaltali sem þú hyggur tekna af lífi árlega, en eru ekki teknir af lífi!

Skoðum þá aftur málið frá grunni.

Fram til þess, er ég fæddist, 1949, var mikið um framkvæmda dauðadóma í Bandaríkjunum (og þjóðin þó mun fámennari en nú, 132,2 millj. manns árið 1940 og 150,5 milljónir árið 1950 [heimild 1], en mannfjöldinn þar á þessu ári, í júlí nk., er áætlaður að verða 307,2 milljónir [heimild 2]). 1930-1939 voru aftökur þar 1.690 (169 að meðaltali á ári), og 1940-1949 voru þær 1.284, en hefur fækkað mjög síðan og aldrei náð því að verða aftur fleiri en 1000 á áratug, hæst hefur talan eftir 1949 verið 717 á einum áratug, þ.e. árin 1950–59 (71,7 að meðaltali á ári). Allt þetta geturðu séð á 6. töflunni: U.S. EXECUTIONS SINCE 1930, á þessari vefsíðu [heimild 3] sem ég hafði vísað þér á.

En frá árinu 1959 er liðin hálf öld. Hve margar hafa aftökur í Bandaríkjunum verið "undanfarið", eins og þú sjálfur orðar það hér ofar? Og lítum nú á:

1960-1969 voru þær alls 191 (19,1 á ári).

1970-1979 voru þær einungis þrjár (o,3 á ári).

1980-1989 voru þær alls 117 (11,7 á ári).

1990-1999 voru þær alls 518 (51,8 á ári).

2000-2007 voru þær alls 501 á átta árum, þ.e. 62,6 á ári.

Og þá er það árið 2008: þær voru 37 alls á því ári [heimild 3]. Leggjum þá tölu saman við tölurnar árin 2000–2007, það verða 538 aftökur á níu árum, 2000–2008, eða 59,8 aftökur á ári.

Og hvort skyldi nú þetta vera nær 100 eða 50 að meðaltali?! Hafðu það líka hugfast, að síðustu þrjú ár, 2006–8 (sem ættu nú að sýna þróunina, jafnframt því að bandaríska þjóðin hefur aldrei verið fjölmennari), voru aftökurnar 44 að meðaltali á ári.

Menn geta reynt að leika sér að tölum, en jafnvel þótt við lítum alveg fram hjá lægstu tímabilunum, áratugina þrjá 1960-1989, þegar aftökur voru alls 311 (10,4 á ári að meðaltali), og skoðum aðeins árin nítján frá og með 1990 til ársloka 2008, þá eru þær þá alls 518+501+37 = 1056 eða 55,6 að meðaltali á ári. Og fækkun hefur verið í gangi á síðustu árum, eins og þú hefur nú væntanlega tekið eftir.

Þrátt fyrir að mér hafi reynzt nauðsynlegt að koma á framfæri nánari upplýsingum um þessi veigamiklu atriði, þakka ég þér fyrir ágæt orð, sem þú lætur falla um mig, sem og að vilja gerast bloggvinur minn!

Jón Valur Jensson, 10.5.2009 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband