676- Nokkur orð um dauðarefsingar

Í allmörgum ríkjum heims er dauðarefsing við lýði. Eina vestræna lýðræðisríkið sem beitir henni er Bandaríki Norður Ameríku. Refsigleði þar er almennt mikil. Margir hafa fjallað um þetta og tölur hafa hér lítið að segja. Í nokkrum Asíuríkjum er refsigleði einnig mikil og á margan hátt óskiljanleg okkur Vesturlandabúum.

Í alþjóðasamningum um mannréttindi er lífið talið hinn helgasti réttur allra. Ekkert mælir með því að ríkisvaldi sé heimilt að svifta menn því. Glæpir geta auðvitað verið svo svívirðilegir að mörgum sýnist réttlátt að gerningsmaðurinn sé sjálfur sviptur lífi en það veitir þó ekki ríkisvaldinu rétt til að taka líf. Önnur ráð eru tiltæk til þess að koma í veg fyrir að viðkomandi fremji fleiri glæpi.

Þungar refsingar halda ekki aftur af afbrotamönnum. Það er margsannað. Það er siðferðið og almenningsálitið sem ríkir á viðkomandi svæði sem ræður mestu um ástandið fremur en dómavenjur. Það er röng stefna að krefjast ætíð þyngri refsinga fyrir afbrot.

Hefndarskyldan var lögð niður á Íslandi þegar þjóðveldið leið undir lok 1262-65. Þar með varð það hlutverk Noregskonungs að sjá um dómaframkvæmd. Á Íslandi hefur það lengi verið venja að brotaþola komi ekki í raun við hver refsing er og hvernig hún er framkvæmd. Hlutverk ríkisins sé að sjá til þess að sem fæst afbrot séu framin fremur en að tryggja að brotaþoli eða aðstandendur hans verði ánægðir með refsinguna.

Svona er þetta samt ekki alls staðar. Í Bandaríkjunum tíðkast mjög að fjölmiðlar ræði við fjölskyldur þeirra sem brotið var gegn þegar morðingjar eru teknir af lífi. Þróunin í Bandaríkjunum er samt sú að dauðarefsingum fer fækkandi og verða þær ef til vill lagðar niður þar áður en langt um líður.

Ef reynt er að gæta þess að bera ekki fyrir borð réttindi hins dæmda verður enginn sparnaður í dómskerfinu af dauðarefsingum. Þessu hafa Bandaríkjamenn kynnst af eigin raun.

Í flestum vestrænum ríkjum hefur dauðarefsing verið aflögð og rætt hefur verið um að banna hana með öllu í stjórnarskrá Íslands. Síðasta aftaka hér fór fram árið 1830.

Þar sem athafnafrelsi er mikið og dómarar kosnir í almennum kosningum er talsverð hætta á mikilli refsigleði. Sú hefur raunin orðið víða í Bandaríkjunum og þekkjum við Íslendingar dæmi þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ekki alveg nógu upplýst hjá þér, Sæmundur.

Í 69. gr. stjórnarskrárinnar (tengill á hana á vefsíðu minni) hefur frá árinu 1995 verið eftirfarandi ákvæði: "Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu." Þetta er mjög eðlilegt í landi, þar sem fjöldamorð tíðkast ekki á fæddu fólki.

Í Bandaríkjunum eru um 50 aftökur á ári. Miðað við fjölda morða þar, sem einhvern tímann var 12-faldur á við hjá okkur, jafngilti það um einni aftöku hjá okkur á 63 ára fresti.

"Þungar refsingar halda ekki aftur af afbrotamönnum. Það er margsannað," segirðu, en þá fullyrðingu þína þarftu að endurskoða. Að því sögðu er ekki verið að mæla hér með of þungum refsingum, en vitaskuld mismiklum eftir tilefni og ástæðum.

Jón Valur Jensson, 6.5.2009 kl. 04:04

2 Smámynd: Valdimar Hreiðarsson

Pistill Sæmundar er afbragðsgóður og breytir gagnrýni Jóns Vals engu þar um.  Framkvæmd dauðarefsinga í Bandaríkjunum er afskræming á réttlætinu.  Þar eru afbrotamenn teknir af lífi áratugum eftir að þeir frömdu brotið eftir að her rándýrra lögfræðinga á launaskrá hins opinbera hefur þrautreynt allar leiðir til að koma hinum dæmda undan dauðadómnum. 

Líkurnar á að svartur maður sem myrðir hvítan mann verði tekinn af lífi eru margfaldar á við líkurnar á því að hvítur maður sem myrðir svartan mann verði tekinn af lífi.  Þar að auki má benda á fjölda mála þar sem menn hafa verið sýknaðir í ljósi nýrra sönnunargagna árum og áratugum eftir dóm. 

Ekki er allt sem sýnist og bið ég fyrir góðri kveðju til míns gamla vinar, Jóns Vals þó ekki séum við sammála í þessu máli. 

Valdimar Hreiðarsson, 6.5.2009 kl. 08:30

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón Valur, þó ég hafi átt þátt í að koma stjórnarskránni á vef Netútgáfunnar lærði ég hana ekki. Geri ráð fyrir að rétt sé hjá þér að ákvæðið sem ég minntist á sé komið þangað og hafi komið inn við breytingarnar 1995. Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um það sem þú segir. Held mig samt við það sem ég sagði í grein minni um þyngd refsinga. Takk fyrir innlitið og viðbrögðin samt.

Valdimar, þakka þér kærlega fyrir stuðninginn. Ég hef einmitt kynnt mér nokkuð framkvæmd dauðarefsinga í Bandaríkjunum og veit að það sem þú segir er alveg rétt.

Sæmundur Bjarnason, 6.5.2009 kl. 08:53

4 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

,,Þungar refsingar halda ekki aftur af afbrotamönnum. Það er margsannað." -Hvaða rannsóknir eru þetta sem vísað er til?

,,Líkurnar á að svartur maður sem myrðir hvítan mann verði tekinn af lífi eru margfaldar á við líkurnar á því að hvítur maður sem myrðir svartan mann verði tekinn af lífi." - Nánar tiltekið hvaða tölur er um að ræða og einning til samanburðar svartur maður sem myrðir svartan og hvítur maður sem myrðir hvítan?

Einar Sveinn Hálfdánarson, 6.5.2009 kl. 10:45

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Engar tölur frá mér, Einar. Þetta er mín skoðun og þú getur að haft aðra og við því er ekkert að segja. Þakka samt áhugann.

Sæmundur Bjarnason, 6.5.2009 kl. 10:50

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér svarið, Sæmundur, en snubbótt finnst mér svar þitt til hans Einars. Eitt er að segja, að það sé "margsannað", að þungar refsingar haldi ekki aftur af afbrotamönnum, og allt annar handleggur að segja þetta einfaldlega þína "skoðun".

Það atriði, sem Einar gerir athugasemd við frá séra Valdimar vini mínum, er flóknara en í fljótu bragði má virðast og gefur ekki jafnsterka ástæðu til að fella um það harðan áfellisdóm eins og mörgum (t.d. Valdimar) kann að virðast. Menn þurfa að skoða þetta betur í nærsýn, en hitt er rétt, að á bandarísku réttarfarskerfi eru margir agnúar og ekki sízt nær endalaus töf og hringl með mál og ótrúlegur lögfræðikostnaður.

Ég þakka góða kveðju frá mínum kæra Valdimar og bið að heilsa ykkur.

Jón Valur Jensson, 6.5.2009 kl. 11:06

7 identicon

Dómar ættu að vera letjandi.  Og þungir dómar hljóta að vera letjandi fremur en hitt.  Ekki skal ég neita að dómar geta verið ansi harðir og langir í Bandaríkjunum, en líka alltof vægir oftast á Íslandi og letja engan. 

"Líkurnar á að svartur maður sem myrðir hvítan mann verði tekinn af lífi eru margfaldar á við líkurnar á því að hvítur maður sem myrðir svartan mann verði tekinn af lífi". 

Dómar og lög í Bandaríkjunum virka EKKI svona.  Fullyrðingin er KOLRÖNG og ENGINN fótur fyrir henni. 

EE elle

. 6.5.2009 kl. 11:16

8 identicon

"Líkurnar á að svartur maður sem myrðir hvítan mann verði tekinn af lífi eru margfaldar á við líkurnar á því að hvítur maður sem myrðir svartan mann verði tekinn af lífi". 

Þetta er með ólíkindum og stórhættulegur málflutningur. Ekki er undarlegt að það skuli vera miklir fordómar og rangdómar hér um Bandaríkin ef fólk skrifar opinberlega eins og Valdimar.  Og það mun ekki vera í fyrsta sinn.

Jón 6.5.2009 kl. 11:50

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón Valur, þér finnst svar mitt til Einars vera snubbótt. Það er eflaust rétt hjá þér. Mér finnst bara ekki eðlilegt að ég sé krafinn um upplýsingar um rannsóknir í sambandi við allt sem ég segi. Ég hef þær bara ekkert alltaf á takteinum. Hvort þungar refsingar hafi fælandi áhrif eða ekki getur verið undir öðru komið en þyngdinni einni saman.

EE elle (og Jón Valur). Það sem Valdimar segir um hvíta menn og svarta í sambandi við dauðarefsingar er ekki endilega sagt á þann hátt sem ég hefði sagt það. Þó held ég að rannsóknir sýni að svartir menn eigi oft meira í vök að verjast gagnvart Bandarísku réttarkerfi en hvítir. Þar getur þó margt fleira skipt máli en liturinn einn. 

Sæmundur Bjarnason, 6.5.2009 kl. 11:56

10 identicon

Sæmundur, ég kenni þér ekki um neitt.

EE elle

. 6.5.2009 kl. 12:22

11 identicon

Og eitt enn um dóma.  Dómar eru bæði hafðir þungir í Bandaríkjunum til að letja og til að halda stórhættulegum glæpamönnum í burtu frá alþýðu manna.  Og þó er ég ekki að verja dóma sem eru kannski of þungir miðað við glæp.

EE elle

. 6.5.2009 kl. 12:43

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er mjög vafasamt að dauðarefsingar hafi fælingarmátt eins og r er m.a. vikið að.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.5.2009 kl. 16:09

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Til eru dæmi þess, að morðingjar hafi

1) sloppið úr fangelsi og framið morð á ný,

2) afplánað refsidóma sína í fangelsi og framið morð á ný,

3) fengið reynslulausn eða helgarfrí úr fangelsi og framið morð á ný.

Það álit stenzt því ekki að öllu leyti, að dauðadómar hafi aldrei komið í veg fyrir morð á saklausu fólki.

Jón Valur Jensson, 6.5.2009 kl. 17:13

14 identicon

"Líkurnar á að svartur maður sem myrðir hvítan mann verði tekinn af lífi eru margfaldar á við líkurnar á því að hvítur maður sem myrðir svartan mann verði tekinn af lífi."

Það þýðir ekkert fyrir fólk að reyna að þræta fyrir þetta - statistikin segir okkur að svona hafi þetta verið í gegnum undanfarna áratugi.  Bandaríkjamenn viðurkenna þetta m.a.s. sjálfir.

Mér finnst bara pathetic og sorglegt að sjá Jón og Ellý ofl. hérna reyna að verja þetta kerfi á einhvern hátt.

Malína 6.5.2009 kl. 18:27

15 identicon

Sigurður, ég vil segja til að valda ekki misskilningi, að ég var ekki að meina dauðarefsingar þegar ég sagði að dómar ættu að vera letjandi.  Líka, Malína, kerfið er EKKI svona í Bandaríkjunum að dómarar dæmi fólk vegna kynþáttar.  Það er ALRANGT hjá ykkur sem haldið því fram og ekkert ´pathetic´við  að segja það.   Það er líka gegn bæði lögum og stjórnarskrá Bandaríkjanna að dæma fólk þannig.  Og með þessu er ég ekki að segja að blökkufólk hafi ALDREI verið dæmt harðar en hitt.  En einu sinni var líka fólk líka brennt á báli og drekkt á Íslandi fyrir enga sök.  Og víkingar stungu hvítvoðunga með spjótum og köstuðu sín í milli.  Ekki erum við nú með skárri fornsögu.  Það er ekki lengur þannig og það er heldur ekki lengur þanngi í USA að dómarar dæmi fólk eins og lýst er að ofan.  Ef þið voruð að meina gamla sögu, þá vorum við bara ekki á sömu blaðsíðu. (Heiti ekki Ellý).

. 6.5.2009 kl. 20:40

16 identicon

Ég skrifað færsluna næst að ofan kl. 20:40  

EE elle

. 6.5.2009 kl. 20:41

17 identicon

Sannleikanum verður hver sárreiðastur...

Malína 6.5.2009 kl. 20:58

18 identicon

Nei, það er bara rangt og ég er hissa að þú af öllu fólki skulir segja þetta.  Fólk getur ekki þagað ef það veit að röngu er haldið fram.  Væri þetta svona ætti ég erfitt með að játa það. 

EE elle

. 6.5.2009 kl. 21:07

19 identicon

Þ.e. ætt ég ekki erfitt með að játa það.

EE elle

. 6.5.2009 kl. 21:08

20 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Malína og EE elle ekki vera með æsing. Mér finnst ævinlega gaman að heyra í ykkur. Að mínu áliti eiga blökkumenn dálítið erfitt uppdráttar í USA en hlutirnir fara skánandi. Fyrir áratugum síðan var ástandið mjög slæmt. Auðvitað eru lögin hlutlaus og dómararnir líka, en það er samt margt á móti.

Sæmundur Bjarnason, 6.5.2009 kl. 21:33

21 identicon

Get vel skilið fólk sem vill dauðarefsingar. En staðreyndin er sú að menn hafa verið teknir af lífi saklausir. Það er næg ástæða fyrir mig til að vera algjörlega á móti þeim.

Benedikt Sæmundsson 6.5.2009 kl. 22:36

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég ver ekki ranglæti gagnvart hörundsdökkum í Bandaríkjunum né annars staðar, Malína, ég gerði það ekki í innleggi mínu kl. 11:06, og ég stend við það innlegg eins og önnur hér frá mér (og tek það fram, að ég er ekki sá Jón, sem skrifar þarna kl. 11:50).

Jón Valur Jensson, 7.5.2009 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband