443. - Nokkrar vísur og tilurð þeirra

Gestur á Hæli (til að fyrirbyggja allan misskilning og sýna hve gáfaður ég er skal tekið fram að bærinn heitir Hæll en ekki Hæli.) var einhvern tíma við messu hjá tveimur prestum í Eyrarbakkakirkju. Þegar hann var spurður um hvernig honum hefði litist á predikanir þeirra svaraði hann með eftirfarandi vísu:

Annar lapskáss bar á borð
og beinakex fyrir náðarorð.
Hinn gaf okkur harðan fisk
og hangikjöt á silfurdisk.

Um daginn setti ég eftirfarandi vísu í komment sem ég skrifaði við blogg eitt. Mér láðist að segja að ég hefði alls ekki gert þessa vísu eins og ég hefði átt að gera. Vísan fjallar um mann sem var að flytja ræðu á fundi. Að öðru leyti skýrir hún sig að mestu leyti sjálf.

Ætti ég nokkuð að leggja honum lið
eða láta hann einan mala
Hann ætlaði að hugsa en hætti við
og hélt bara áfram að tala.

Maður nokkur mætti léttklæddri konu á förnum vegi og varð að orði:

Vandalítið virðist mér
víf að fletta spjörum.
Ég sé í anda brjóstin ber
og bros á neðri vörum.

Þessi þarf engar skýringar. Oft eru slíkar vísur þær bestu.

Oft er mínum innri strák
ofraun þar af sprottin.
Í mér tefla einatt skák
andskotinn og drottinn.

Þorsteinn Dalasýslumaður var mikill bókasafnari. Vafi lék á um uppruna sumra bókanna. Þegar hann dó var þetta kveðið og varð samstundis landfleygt.

Fallega Þorsteinn flugið tók.
Fór um himna kliður.
En Lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.

Mig minnir endilega að eftirfarandi vísa sé eftir þjóðþekkt skáld, jafnvel Stein Steinarr, en er þó ekki viss:

Hýsi ég einn mitt hugarvíl
því hrundir engar þekki.
Sumir hafa sexappíl
en sumir hafa það ekki.

Þessi minnir mig að sé höfð eftir Haraldi Á. Sigurðssyni þeim fræga lífsnautnamanni og leikara sem einhverntíma sagði að næstum því allt sem eitthvað væri varið í væri annaðhvort ósiðlegt eða fitandi.

Margur er glaður maðurinn
og meyjan hneigð fyrir gaman.
Svo kemur helvítis heimurinn
og hneykslast á öllu saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hýsi ég lítt mitt hugarvíl,

hrundir fáar þekki.

Sumir hafa sexappíl

en sumir haf´ann ekki.

Minnir að vísan sé svona og sé úr þætti Sveins Ásgeirssonar í ríkisútvarpinu um miðja síðustu öld. Man ekki í svipinn hvað þátturinn hét en hann var mikil menningarveisla.

Árni Gunnarsson, 7.9.2008 kl. 00:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég man vel eftir þættinum Sveins og held einmitt að Steinn hafi verið í honum. Þannig að vísan (eða hluti hennar) gæti verið eftir hann. Það er ekkert einkennilegt þó ýmislegt breytist í vísunni. Mig minnir að hún hafi verið eins og ég tilfæri hana.

Ég man að hagyrðingarnir voru nú stundum ekki afburðaskáldlegir og sumir seinni partarnir voru heldur klénir. Ég man t.d. af einhverjum ástæðum eftir þessum:

flöskustút ég fitla við
sem fékkst á rútubílastöð.

Sæmundur Bjarnason, 7.9.2008 kl. 01:04

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hringhenda og fyrriparturinn var svona:

Ræ ég út á rostungssvið,

renni úr kút og bergi mjöð.

Stirt að vísu en hugsað sem rímþraut.

Árni Gunnarsson, 7.9.2008 kl. 01:12

4 identicon

Sæmundur! Ef minnið er ekki að rugla ellismellinn, þá er vísan "Vandalítið virðist mér...." eftir tvo menn. Held áreiðanlega að hún hafi orðið til á Akureyri fremur en á Húsavík. En á síðarnefnda staðnum býr maður að nafni Hreiðar Karlsson, hreidark@simnet.is , sem kann nánast allar norðlenskar vísur. En tek undir með Árna frá Reykjum að þátturinn hans Sveins Ásgeirssonar var hreint menningarlegt sælgæti. Snillingarnir, svonefndu, voru líka sannkallaðir virtúósar bæði í húmor og hagmælsku. Man nú bara í svipinn eftir Helga Sæm. og Guðm. Sigurðss. úr þeim hópi, svona er að vera orðinn gamall.  

Ellismellur 7.9.2008 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband