385. - Eru fyrirsagnir ekki mesti óþarfi og vandaverk þar að auki?

Ég fæ meiri og jákvæðari komment á myndirnar mínar en skrifin. Kannski ég snúi mér frekar að því að taka myndir en að skrifa. Segi bara svona. Ætli ég haldi ekki áfram að gera hvorttveggja. Þetta er ágætt saman. Mér þykir reglulega gaman að taka myndir ekki síður en að skrifa. Veðrið er bara svoleiðis núna að það er engu líkt að rölta um og taka myndir af hinu og þessu. Að vera í fríi um hádaginn í svona sól og blíðu og nota ekki tímann til að fara eitthvað og taka myndir er eiginlega ómögulegt. 

Mamma las sjaldan en var þó áskrifandi að Nýja Kvennablaðinu sem gefið var út á þeim árum. Ástæðan fyrir því að hún las sjaldan held ég hafi einkum verið sú að það var alltaf nóg að gera. Ef ekki var verið að argast í krakkaskaranum og elda og sauma þá var verið að reyna að afla tekna. Með prjónavél. Með flatkökubakstri og kleinugerð. Eða bara einhverju öðru. Einu sinni man ég þó að hún sökkti sér niður í bók sem ég fann á bókamarkaði og gaf henni. Sú bók heitir: „Þúsund ára sveitaþorp" og er eftir Árna Óla. Mamma var einmitt ættuð úr Þykkvabænum.

Kaupmaður einn í Reykjavik þurfti að fara til útlanda. Konan hans átti von á barni og kom þeim saman um að hún mundi senda honum símskeyti (já, þetta var á þeim tíma) þegar hún yrði léttari, en ekki mætti koma fram í því hvað um væri að ræða. Í fyllingu tímans kom símskeytið til kaupmannsins en eitthvað var það öðru vísi en hann hafði búist við. Svona hljóðaði það: "Kaffikönnurnar eru komnar, önnur með stút, en hin stútlaus."

Önnur símskeytasaga. Fatakaupmaður var í útlöndum. Hafði áður beðið skrifstofumann sinn að láta sig vita hvernig gengi í búðinni. Nú fór kona kaupmannsins að halda framhjá og skrifstofumaðurinn vildi láta hann vita án þess að augljóst væri hvað hann ætti við. Skeytið var svona: "Pils hækkandi, buxur lækkandi, mikil hreyfing á skinnavörum."

Í lokin er svo dálítið sýnishorn af afrakstri dagsins í myndum. Myndirnar eru allar teknar í nágrenni Hvassahrauns.

IMG 1737Þetta sem er á bakvið skelina er skarfakál ímynda ég mér. En það getur vel verið vitleysa.IMG 1744

Þessi tjörn er rétt við sjóinn og líklega er vatnið í henni salt. Það gæti verið skýringin á því hvað gróðurinn næst bakkanum er fölur. Mér finnst samt merkilegast við myndina hvað botninn á tjörninni sést vel.

IMG 1757Aldrei er umhverfið svo slæmt að ekki megi reyna. Einhver verður líka að vera fyrstur.

IMG 1763Reisulegt hús. Skyldu hestarnir eiga heima þarna?

IMG 1766Ekki veit ég hvað þessi fugl heitir. Fallegur er hann samt með sína áberandi fætur.

IMG 1769Þarna er gróðurinn búinn að ná sér betur á strik en á myndinni hér fyrir ofan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Fuglinn er stelkur (tringa totanus) og ég held að hann heiti Sæmundur.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 11.7.2008 kl. 19:39

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Mér sýnist að þetta sé blálilja, svo ef þú hefur fengið þér ódýrt C-vítamín úr þessari plöntu er ekki nema að von að þú sért farinn að að missa tennurnar. Skarfakál er með hvít blóm og blöðin eru allt öðruvísi.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 11.7.2008 kl. 19:43

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir Villi minn. Ég nennti bara ekki að fletta þessu upp. Engin hætt á að ég éti yfir mig af ímynduðu skarfakáli en það var mikið af þessu þarna á Reykjanesinu.

Athugasemdin Brjáns virðist hafa farið á vitlaust blogg sem reyndar eru flest jafnvitlaus. Nei ég held ekki að Björn Bjarna hafi þurft að biðja um að komast á forsíðubloggið. Moggabloggsstjórnendur eru að ég held höfðingjasleikjur ofan á allt annað.

Sæmundur Bjarnason, 11.7.2008 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband