364. - Þórhallur og sérar tveir. Sitthvað fleira einnig

Aldrei er nóg pláss á þessu blessaða bloggi til að skrifa um allt það sem maður vildi gjarnan skrifa um. En svona er þetta bara og því verður ekki breytt.

Aðeins um körfubolta. Einu sinni prófaði ég þá íþrótt. Sigurþór í Lynghaga var svo þéttur fyrir að ef maður hljóp á hann þá hrökk maður bara til baka. Annars var ég svo lélegur í þessu og gat auk þess ekki troðið þrátt fyrir stærðina, að ég hætti fljótlega. Nú er verið að endurtaka það, sem byrjað var á þegar sýnt var fyrst frá NBA hér á landi. Ég hélt alltaf með Lakers og fannst skæhúkkið Jabbars það merkilegasta sem ég hef séð í körfubolta.

Eins og ég sagði frá um daginn gúglaði ég Þórhall Hróðmarsson eftir bekkjarkvöldið okkar á laugardaginn og eftir að hafa lesið grein hans um hjartalækna og þess háttar finnst mér ég vera kominn með kransæðastíflu. Þórhallur er bæði skáld og tónskáld svo það verður enginn svikinn af því að skoða heimasíðuna hans. Í rútunni uppá Hellisheiði söng hann fyrir okkur ljóðið Kántrýkvöld, en það er eitt af þeim ljóðum sem finna má á heimasíðunni hans.

Ég get ekki betur séð þegar ég gúgla nafnið konunnar hans en hún sé eða hafi verið kennari við Laugagerðisskóla. Séra Árni Pálsson sem þá var prestur þarna og bjó að Söðulsholti stóð fyrir því að ég var gerður að prófdómara við Laugargerðisskóla á sínum tíma. Strákarnir mínir báðir stunduðu þar líka nám, auk þess sem ég man vel eftir því að þegar verið var að byggja skólann vann ég hjá heildverslun Hannesar Þorsteinssonar og þar var talsvert af efni keypt í hann.

Einu sinni birti ég vísu á þessu bloggi (160. blogg) eftir Þórhall Hróðmarsson. Hún var svona hjá mér: Sæmi gerði samning við / svokallaðan fjanda. / Sæmi fengi sálarfrið / en Satan flösku af landa. Þórhallur sagði mér að þetta væri einhver fyrsta vísa sín en hann minnti að það hefði verið ég sem landaflöskuna fékk. Þetta kann vel að vera og einfaldast er líklega bara að hafa skipti á nöfnunum Satan og Sæmi í seinni hluta vísunnar.

Þegar ég fer að skrifa um vísur er erfitt að hætta. Langeftirminnilegasti vísnasmiður sem ég hef þekkt var séra Helgi Sveinsson prestur í Hveragerði. Þegar minnst er á ofangreinda vísu eftir Þórhall Hróðmarsson get ég ekki að því gert að mér kemur í hug önnur vísa þar sem minnst er á séra Helga. Hún er svona: Séra Helgi segist sjá / sankti Pétur í anda. / Við hliðið gullna hann ei má / hræðast nokkurn fjanda. Ekki veit ég eftir hvern þessi vísa er en hún gæti verið eftir séra Gunnar Benediktsson sem er annar eftirminnilegur kennari sem ég man vel eftir.

Salvör bendir á ágæta grein sem er hér.

Fáeinar myndir svo í lokin af því að veðrið er svo gott.

IMG 0837IMG 0841IMG 0858IMG 0867IMG 0875IMG 0880


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

yndislegar myndir!!

alva 13.6.2008 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband