359. - Ég finn enga fyrirsögn á þetta

Einn af bloggvinum mínum, sem kallar sig beturvitring er með nokkrar málfjólur á sínu bloggi. Flestar eru þær þannig að maður tekur ekki mikið eftir þeim, þegar maður rekst á þær, en við nánari umhugsun sér maður að þetta er alveg rétt hjá honum/henni. Sumt eru þó bara einfaldar slettur, sem mér finnst oftast lítilvægar. Það er málhugsunin sjálf sem hlýtur að vera aðalatriðið. Ekki réttritunarreglur, kommureglur eða slettur sem breytast hraðar en auga á festi.

Viðtengingarháttur og eignarfall virðast á hröðum flótta úr málinu og nefnir beturvitringur nokkur ágæt dæmi um það. Fólk sem talar í alvöru um að bakka afturábak er ekki bara að misþyrma tungunni, það er líka að gefa allri rökhugsun langt nef.

Sum dæmin þarna eru eiginlega ekki málvillur heldur það sem ég mundi vilja kalla hugsanavillur. "Ólögmætt brot" og "áætlun fyrirfram" eru ágæt dæmi um það.

Setningin "Teiserinn er skaðlegur fyrir fólk með gangþráð" er nú bara fyndin. Stundum geta misheppnaðir brandarar samt orðið að meinlegri málvillu með tímanum. Verst er að oft er það eins og að tala ofan í tóma tunnu, að vera að fjasa um málvernd.

Ég ætla að setja hér inn nokkrar myndir. Ekki veit ég hvar textinn lendir, en sjáum til.

5Þetta er hún Perla Cavalier, sem var í heimsókn hjá okkur í nokkra daga. Þarna er hún stödd í Fossvoginum og hefur sennilega fundið einhverja lykt.

 

 

 

 

6Svona er nú ástandið ennþá í henni Reykjavík (eða Kópavogi) Þetta er næstum örugglega klóak og hver veit nema það sé einmitt þetta, sem Perla hefur fundið lyktina af.

 

 

 

 

 8Svona verður munninn á undirgöngunum undir Nýbýlaveg. Mér finnst þetta bara flott.

 

 

 

 

 

 

Og svo í lokin ein smávísa, sem kannski lendir á ómögulegum stað:

Margur er glaður maðurinn

og meyjan hneigð fyrir gaman.

Svo kemur helvítis heimurinn

og hneykslast á öllu saman.

Ekki man ég hver orti þetta, en mér finnst vísan góð. Nóg bloggað að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Beturvitringur

Í anda bloggs míns: "Jess, jess, einhver tekur mark á mér, jibbíí" :)

Saemi7  Eigum við ekki samt að rembast við staurinn, þótt margar tunnur séu tómar?

Það er fjöldi fólks hérna í bloggbæ sem býr yfir tunnufylli fróðleiks á fallegu máli.

Beturvitringur, 7.6.2008 kl. 02:23

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búinn að lesa færsluna en hef ekkert að segja.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 8.6.2008 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband