339. - Um Moggabloggið enn og aftur. Einnig dálítið um Ístorrent og annað þess háttar

Síðasta blogg mitt virðist hafa vakið dálitla eftirtekt. Að minnsta kosti eru athugasemdirnar við það fleiri og lengri en oft áður. Friðrik Þór Guðmundsson virðist hafa skilið það sem einskonar árás á sig og eftirá séð, get ég vel skilið það. Sú var þó ekki meiningin. Hans skrif um Moggabloggið eru markverð og þó sumum finnist ef til vill heldur fáfengilegt að vera að blogga um blogg, þá er ég alls ekki í þeim hópi.

Ég taldi mig hinsvegar í þessu umrædda bloggi einkum vera að gagnrýna fréttalinkið, sem margir misnota herfilega. Það að skrifa hvað eftir annað sama daginn og oft ekki nema fáeinar línur í einu, reyna að hafa fyrirsögnina krassandi og linka í vinsælar og mikið lesnar fréttir, er að mínu mati misnotkun á þessum ágæta miðli.

En mega menn ekki misnota þetta form, ef það er hægt. Jú auðvitað, en ég er að biðja stjórnendur bloggsins um að íhuga fleira en bara aðsóknartölur. Það geta þeir gert með mörgu. Til dæmis eru tillögur þær sem Bjarni Rúnar Einarsson hefur sett fram á sínu bloggi (herrabre.blog.is) og að mig minnir einnig í kommentum við mitt blogg, allrar athygli verðar.

Enn og aftur er istorrentmálið komið á dagskrá. Nú hafa þau samtök sem Hæstiréttur gerði afturreka fyrir stuttu, höfðað nýtt mál á hendur félaginu sem rekur vefsíðuna og þarmeð er sagt að lögbannið taki aftur gildi, hvernig sem það má vera.

Ég hef áður lýst yfir samúð minni með þeim torrent mönnum og hlotið heldur bágt fyrir. Ég tel mig alls ekki vera að hvetja til lögbrota þó ég segi að ég sé almennt á móti þeim höfundarréttarreglum sem hér gilda og styðji þá ístorrentmenn í því sem þeir eru að gera. Framtíðin liggur í því að vinda ofan af þeirri vitleysu sem viðgengist hefur. Á því er enginn vafi að Internetið og þau aðveldu samskipti sem það býður upp á, beinlínis kalla á skynsamlegri reglur um höfundarrétt.

Höfundarréttarmál eiga bara eftir að verða umdeildari og umdeildari ef svo fer sem horfir. Samtök höfunda verða alltaf nokkrum skrefum á eftir þeim sem vilja sýna þeim í tvo heimana. Fyrir dómstólum koma þeir til með að vinna eitt og eitt mál, en höfundar mundu áreiðanlega hagnast mun meir á því að semja skynsamlega við þá sem torrentunum ráða og annarri framsækinni tækni.

Salvör Gissurardóttir (salvor.blog.is) fjallar um þessi mál á sinni bloggsíðu og ég hvet alla til að kynna sér það sem hún hefur að segja. Einnig er auðvitað hægt að fara beint á istorrent.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Þú lýsir yfir samúð með þjófum? 

Ert þú semsagt andvígur því að menn hafi möguleika á að lifa af hugverkum sínum?

Ég skrifaði forrit, sem var dreift á torrent.is án míns samþykkis.  Ef allir myndu stunda þannig þjófnað myndu menn eins og ég ekki reyna að semja hugbúnað til að selja á Íslandi.   Er það það sem þú villt?

Púkinn, 19.5.2008 kl. 16:06

2 identicon

En hvernig finnst þér það að ég geti ekki skrifað afrit af MÍNUM eiginn myndum á geisladisk/DVDdisk án þess að borga STEFgjöld af því!!!

Óli 19.5.2008 kl. 16:53

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Púki: Já, ég lýsi yfir samúð með mönnum sem þú kallar þjófa. Varla trúir þú því að vandamál sem skapast af höfundarréttarbrotum leysist ef nógu margir kalla aðra ónefnum. Ég sé ekki að slíkt leysi nokkurn vanda. Það þarf ekki einu sinni að vera að ég hafi samúð með öllu sem þeir menn gera sem þú kallar þjófa.

Sæmundur Bjarnason, 19.5.2008 kl. 18:09

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Tugmilljónir manna (tugþúsundir hér á landi) taka einfaldlega ekki mark á úreltum lögum. Tæknin er fyrir löngu komin langt framúr kerfinu. Kerfið verður úrelt daglega. Við sjáum þetta á mörgum sviðum - deyjandi ruslpósti (sem enginn heilvita maður kallar lengur því hátíðlega nafni fjölmiðla) og brotnandi opinberri veruleikahönnun og löngu úreltu skólakerfi. Internet Explorer frá Microsoft býður þér upp á að rippa sjálfvirkt af hvaða geisladisk sem er í allt að 320 kbps (nánast geisladiskahljómgæði). Halló? Þú getur keypt fyrirtaks dvd rippera fyrir 25 dollara og ef þú tímir því ekki þá fást aðrir jafn góðir ókeypis. Getur hið opinbera kannski úrskurðað niður flóðbylgju sem ryðst yfir strendur landsins? Varla.

Baldur Fjölnisson, 19.5.2008 kl. 22:18

5 Smámynd: Púkinn

ég kalla menn þjófa sem taka mín verk og dreifa þeim til annarra án míns samþykkis og án þess að ég fái krónu fyrir - og ég er ekki að tala um einhverja örfáa aura, heldur allnokkrar milljónir.

Ég lít á þetta sem þjófnað.   

Púkinn, 20.5.2008 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband