307. - Karlinn undir klöppunum og höfundarréttarmál

IMG 0484Þessar gæsir voru hundóánægðar með snjóinn sem lagðist yfir allt í borginni einn morguninn um daginn. Þegar ég nálgaðist með myndavélina létu þær sem þær væru að flýta sér í vinnuna (hjá Opnum Kerfum)

 

 

 

 

 

Einni vísu gleymdi ég þegar ég var að gera athugasemd við vísurnar sem Ingibjörg systir hafði eftir ömmu og það er að sumu leyti merkilegasta vísan. Hún er svona:

Karlinn undir klöppunum,

klórar sér með löppunum,

baular undir bökkunum

og bíður eftir krökkunum,

á kvöldin.

Þessi húsgangur er alveg magnaður. Ég man að ég var skíthræddur við karlfjandann og þóttist vita hvar hann héldi sig. Hann var undir trébrúnni yfir hitaveituskurðinn þar sem við Ingibjörg földum okkur stundum þegar bílar fóru yfir. Eitt sinn sýndi Ingibjörg alveg ótrúlegt hugrekki þegar hún stakk hendinni upp á milli plankanna í brúnni þegar bíll nálgaðist (eða ætlaði a.m.k. að gera það). Þegar skyggja tók fannst mér sjálfsagt að karlinn undir klöppunum væri þarna.

Salvör Gissurardóttir skrifar ágætan pistil um höfundarréttarmál um daginn. Höfundarréttur er mikill málaflokkur sem margt má um segja. Sumt af því sem Salvör segir getur vel stuðað fólk sem vant er þeirri eignarréttarhugsun sem gegnsýrir þá löggjöf um höfundarrétt sem við búum við. Hún er þó nógu einörð til að segja það sem hún meinar um höfundarréttarmál.

Meira að segja Kristján B. Jónasson viðurkennir að höfundarréttarlöggjöf hér á landi sé úr takti við tímann. Mér finnst skaði að ekki megi dreifa efni um netið nema á einhvern vissan hátt sem eigendur flutningsréttar ákveða. Þessi mál eiga að vera samningsatriði milli eigenda flutningsréttar og notenda. Notendaþátturinn hefur orðið útundan hingað til og þeir eru mjög óskipulagðir. Aðferðin sem Salvör mælir með er vissulega harkaleg, en ekki er víst að mark verði á notendum tekið nema þeir beiti einhverju slíku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einhverntíma hef ég nú heyrt um karlinn undir klöppunum áður :)

Ég man að ég tengdi þennan kall og kuldabola alltaf saman og fannst að hann ætti heima á bökkum Þjórsár.

Hafdís 15.4.2008 kl. 17:10

2 identicon

Ég man líka eftir þessum hræðilega kalli undir klöppunum, sem klóraði sér með löppunum.  Mér fannst að hann væri ýmist húkandi undir klöppunum við Skúlagötuna eða undir Bökkunum á Húsavík.

asben 15.4.2008 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband