213. - Myndagerð á Bifröst og bla bla í bloggheimum

Var að vinna um áramótin.

Tók þó flugeldamyndir héðan af MS-þakinu. Vídeó fyrst vélin leyfði það. Bálhvasst var þarna uppi, svo ég hélt mig innan glugga eftir fyrstu tilraunir. Sendi svo sýnishorn af fyrirbrigðinu "áramót á Íslandi" til Bahamaeyja. Þar vekja þær kannski athygli á skrýtnum Íslendingum.

Hátíðarnar hafa hjá mér að mestu liðið við lestur, sælgætisát og þess háttar eins og hjá mörgum öðrum. Blogga kannski seinna um bækur sem ég er búinn að lesa. Búinn með bæði Harðskafa og Himnaríki og helvíti. Næst er það bókin hans Hrafns. "Þar sem vegurinn endar", minnir mig að hún heiti.

Bla bla bla-ið í okkur bloggurum fékk svolitla umfjöllun í áramótaskaupinu. Og satt er það. Óskaplegt hve mikið er rausað hérna. Og engin leið að nokkur nenni að lesa þessi ósköp öll, hvað þá kommentin sem stundum fara alveg úr böndunum. Nei, takk. Þó ég gerði ekkert annað kæmist ég engan veginn yfir nema lítið brot af bloggheimum. Samt er þetta skárra en fjölmúlavílið, svei mér þá. Eini kosturinn við þetta rugl í vörpunum og blöðunum er að margir kannast við það, svo hægt er að vísa í það formálalaust. Reynt er að velja úr það sem líklegt er að sem flestir hafi áhuga á. Mistekst þó oftast. Í bloggheimum velja menn það sjálfir hverju þeir nenna að fylgjast með.

Þegar ég hóf nám á Bifröst árið 1959 hafði ég áður fiktað við að framkalla og kópíera myndir. Af því leiddi að ég var undireins kjörinn formaður í ljósmyndaklúbbi bekkjarins. Þar var fengist við að framkalla og kópíera myndir og þótti mér það spennandi. Klámblöð nokkur með myndum af allsberu kvenfólki átti ég til. Nú fundum við upp á því að taka myndir af stelpum í skólanum og skeyta andlitum þeirra við kroppana í klámblöðunum og taka síðan myndir af öllu saman.

Ég man eftir því að meðal annars gerðum við myndir af þessu tagi af Ingibjörgu nokkurri Bjarnadóttur sem sagt var að Kári Jónasson formaður ljósmyndaklúbbs eldri bekkjarins væri skotinn í. Kári, sem seinna varð fréttastjóri á ríkisútvarpinu og ritstjóri Fréttablaðsins, útmálaði fyrir mér af þessu tilefni hvað háttalag af þessu tagi gæti haft í för með sér. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég þurfti að gera, en málið lognaðist sem betur fer útaf.

Mig minnir að þessar myndir hjá okkur hafi verið svo illa gerðar að engin leið hafi verið að halda að þær væru raunverulegar. Nútildags er víst fátt auðveldara en að ljúga með ljósmyndum. Ég man ekki lengur hverjir voru með mér í þessu tiltæki en grunar að þar hafi Siggi Félló komið við sögu og líklega fleiri, jafnvel Kiddi á Hjarðarbóli og Gunnar Hallgrímssson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 2.1.2008 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband